Á leið af braut samhjálpar

Formaður BSRB, Elín Björg Jónsdóttir, á þinginu í morgun.
Formaður BSRB, Elín Björg Jónsdóttir, á þinginu í morgun. mbl.is/Eva Björk

Öfugsnúið er að á tímum efnahagslegs uppgangs sé fátækt algeng á Íslandi og fjöldi ungs fólks leiti fyrir sér erlendis. Margt bendir til þess að íslenskt samfélag sé á leið af braut samhjálpar með öflugri almannaþjónustu. Þetta kom meðal annars fram í setningarræðu Elínar Bjargar Jónsdóttur, formanns BSRB á þingi þess í morgun.

Frétt mbl.is: Bjarni saknaði samhljómsins

Þing BSRB var sett í 44. skipti á Hotel Nordica í morgun en yfirskrift þess er „Öflug almannaþjónusta - betra samfélag“. Við upphaf þess klöppuðu þingmenn fyrir samninganefndum SFR, sjúkraliða og lögreglumanna, þriggja fjölmennustu aðildarfélaga BSRB, sem náðu samningum við ríkið í nótt.

Elín Björg sagði að erfitt væri fyrir marga að láta enda ná saman, ungt fólk og barnafólk ætti erfitt með að koma undir sig húsnæði, sjúklingar greiddu of mikið fyrir lyf og lífeyrisþegar hefðu alltof lítið á milli handanna.

Almannaþjónustan væri undirstaða jafnaðar og hin sönnu verðmæti væru þau að búa í samfélagi sem grípur þá sem hrapa. Því miður benti hins vegar margt til þess að íslenskt samfélag væri á leið af þeirri braut.

Horfast þyrfti í augu við að þó að ungt fólk meti trygga atvinnu og hagvöxt sé það ekki það sem það horfir helst til. Í nágrannalöndunum séu vaxtakjör sanngjarnari, matvöruverð lægra og vinnutími styttri. Ef ekkert breytist í áherslum íslenskra stjórnvalda sé óvíst að ungt fólk sem þangað hefur leitað muni snúa aftur.

Benti Elín Björg á að á Norðurlöndunum, þar sem hve mestu væri eytt í almannaþjónustu, væri landsframleiðsla ein sú mesta í heiminum. Þrátt fyrir há velferðarútgjöld skilaði það sér margfalt til baka og það hefði skilað löndunum á topp allra lista um lífsgæði.

Fyrsta skref að nýjum vinnubrögðum

Formaðurinn gagnrýndi stjórnvöld fyrir framgöngu þeirra í kjaraviðræðunum sem lauk í nótt. Þegar röðin hafi komið að BSRB að sækja sömu kjarabætur og aðrir opinberir starfsmenn hefðu þegar fengið hafi það ekki komið til greina. Þannig hafi verkfallsaðgerðir hafist sem vel hefði mátt afstýra. Samningsvilji ríkisins hafi enginn verið og því hefði átt að vera ljóst að félagar BSRB myndu aldrei sætta sig við minni kjarabætur en aðrir.

Fagnaði hún samkomulagi um rammasamning um launaþróun á vinnumarkaði sem náðist í gær. Hann væri fyrstu skrefin í nýjum og bættum vinnubrögðum við gerð kjarasamninga sem muni gagnast öllum aðilum á vinnumarkaði. Samningurinn væri hins vegar háður því að farsæl lausn fyndist á málefnum opinberu lífeyrissjóðanna og jöfnun lífeyrissréttinda.

Ræða formannsins á vefsíðu BSRB

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert