Minntist ekkert á Íslandsferð

MDMA er á meðal þeirra fíkniefna sem fundust í bifreiðinni.
MDMA er á meðal þeirra fíkniefna sem fundust í bifreiðinni. mbl.is/Kristinn

Hæstiréttur hefur staðfest farbann yfir hollenskri konu sem er grunuð um stórfelldan innflutning á fíkniefnum til landsins. Lögreglan segir mikið ósamræmi milli framburðar konunnar og framburðar dóttur hennar. Konan hafi t.d. aldrei minnst á að hún væri á leiðinni til Íslands.

Héraðsdómur Austurlands úrskurðaði þann 21. október sl. að konan skyldi sæta farbanni til 4. nóvember. Þann úrskurð staðfesti Hæstiréttur í gær. 

Í greinargerð lögreglustjórans á Austurlandi segir að konan sé grunuð um mjög stórfelldan innflutning á fíkniefnum með því að hafa flutt til landsins mjög mikið magn af MDMA, en það var falið í bifreið sem komi til landsins með farþegaferjunni Norrænu 8. september sl. 

Fram hefur komið að tollgæslan á Seyðisfirði hafi ákveðið að taka bifreiðina í úrtaksleit. Konan og eiginmaður hennar voru í bifreiðinni, en við leit í henni fannst gríðarlegt magn af MDMA eða ecstasy, falið í varadekki, tveimur gaskútum og í 14 niðursuðudósum

Maðurinn játaði að hafa vitað um tilvist fíkniefnanna og vísaði lögreglu á efnin, en eiginkona hans neitaði sök. Voru þau handtekin.

Mjög mikið ósamræmi

Í greinargerðinni segir ennfremur, að mjög mikið ósamræmi sé milli framburðar konunnar framburðar dóttur hennar, m.a. um það hvert för þeirra hafi verið heitið. Konan hafi sagt dóttur sinni að hún og maðurinn væru að fara í frí en hafi aldrei minnst á Ísland, samkvæmt framburði dótturinnar. Þetta hafi hún líka sagt nágrönnum sínum.

Lögreglan segir að konan hafi ekki gefið neinar skynsamlegar skýringar á þessu ósamræmi.

Þá komi skýrt fram í framburði konunnar að hún og maðurinn hafi verið í fjárhagskröggum og margir ógreiddir reikningar hafi fundist í húsbíl þeirra. Samt sem áður hafi konan sagt að þau hafi ákveðið að fara í frí til Íslands í heilan mánuð, leigja til þess húsbíl fyrir 4.600 evrur og kaupa sér far fyrir þau og bílinn til Íslands fyrir um 2.000 evrur. Auk þess sem ónefndur maður hafi látið hana hafa 1.600 evrur til að greiða reikninga, að hennar sögn.

Bæturnar 800-900 evrur en útgjöldin 1.800-2.000 evrur

Þá segi konan að atvinnuleysisbætur hennar séu 800 til 900 evrur á mánuði en útgjöldin séu 1.800 til 2.000 evrur á mánuði. Maðurinn sé búinn að vera atvinnulaus lengi og sé öryrki.

Konan hafi því engar skynsamlegar skýringar gefið á því hvaðan hún telji að þeir peningar sem allt í einu virtust vera til staðar séu komnir.

Konan er því enn undir rökstuddum grun um að hafa tekið þátt í innflutningi fíkniefnanna, enda þyki framburður hennar mjög ótrúverðugur. Sendar hafi verið til útlanda beiðnir um rannsóknir á ákveðnum atriðum, sem m.a. beinist að því að upplýsa um þátttöku hennar í málinu. Lögreglan segir að rannsókn málsins miði vel.

Konan sætti gæsluvarðhaldi frá 9. september til 13. október sl., er úrskurði héraðsdóms um áframhaldandi gæsluvarðhald var snúið með dómi Hæstaréttar. Þess í stað var með dómi réttarins kveðið á um að konunni skyldi bönnuð för frá Íslandi allt til 21. október. Sem fyrr segir hefur farbannið verið framlengt til 4. nóvember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert