Yfirgnæfandi stuðningur við félagslegt kerfi

Rúnar sagði að styrkja þyrfti opinbera heilbrigðiskerfið á Íslandi á …
Rúnar sagði að styrkja þyrfti opinbera heilbrigðiskerfið á Íslandi á næstu árum. mbl.is/Eggert

Íslenska heilbrigðiskerfið hefur fjarlægst nokkuð félagslegt eðli sitt með einkavæðingu vissra þátta undanfarin ár þrátt fyrir að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna styðji félagslegt heilbrigðiskerfi á Íslandi. Þetta kom fram í máli Rúnars Vilhjálmssonar, prófessors, á þingi BSRB í morgun.

Í erindi sínu um aðgengi, kostnað og viðhorf til hlutverks hins opinbera í heilbrigðisþjónustu kynnti Rúnar, sem er prófessor í félagsfræði við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, meðal annars niðurstöður könnunar sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði á afstöðu fólks til rekstrarfyrirkomulags heilbrigðiskerfisins.

Hún leiddi í ljós að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna vill að hið opinbera rekið alfarið stóru rekstrareiningarnar í heilbrigðiskerfinu eins og spítalana og heilsugæsluna. Þá vilji margir að aðrar stofnanir og þjónustu eins og hjúkrunarheimili og tannlækningar barna séu reknar af opinberum aðilum. Þessi almenni stuðningur við félagslegt heilbrigðiskerfi hafi ívið aukist ef eitthvað er undanfarin ár.

Þrátt fyrir þetta hafi einkavæðing átt sér stað í kerfinu hvað varðar rekstur einkaaðila á ákveðnum hluta þjónustunnar og aukinni einkafjármögnunum á kostnaði við þjónustuna.

Stærri hluti tekna fer í heilbrigðisþjónustu

Þá ræddi Rúnar um kostnaðinn sem almenningur ber af því að nýta sér heilbrigðisþjónustuna. Þó að krónutala kostnaðarþátttökunnar hafi lækkað frá hruni þá hafi hlutfall útgjalda heimila vegna heilbrigðisþjónustu hækkað vegna samdráttar í tekjum þeirra.

Benti hann á mest þyrfti þeir að greiða sem þyrftu að leita til göngu- eða bráðadeilda sjúkrahúsa. Sjúklingar þyrftu að greiða fyrir þjónustu á göngudeild sem þeir þyrftu ekki að gera við innlögn. Þannig hefði sú ráðstöfun spítala að veita þjónustu sína helst í gegnum göngudeildir haft þau áhrif að hækka kostnað sjúklinga án þess að það hafi verið hluti af opinberri stefnumörkun fyrir fram.

Aukinn kostnaður þýddi að sumir veldu að fresta því að leita sér aðstoðar. Hlutfall þeirra sem frestuðu heilbrigðisþjónustu hafi staðið í stað undanfarin ár samkvæmt könnunum en rúmlega fimmtungur aðspurðra höfðu gert það á undanförnum sex mánuðum.

Ástæður fyrir frestun breyst frá hruni

Eftir því sem heilbrigðisútgjöld væru hærra hlutfall af tekjum heimila því algengara væri að fólk frestaði þjónustunni. Af þeim sem eyddu 4% eða meira af tekjum sínum í heilbrigðisþjónustu hafði um þriðjungur frestað þess að leita sér aðstoðar. Rúmur helmingur þeirra sem því frestuðu upplifðu óbreytt vandamál viku síðar.

Ástæður þess að fólk frestaði því að leita sér aðstoðar hafa hins vegar breyst. Árið 2006, á hátindi góðærisins, hafi flestir nefnt það að þeir væru of uppteknir til að leita sér heilbrigðisþjónustu af þeim sem höfðu frestað því. 

Kostnaðurinn við þjónustuna sé hins vegar vaxandi ástæða. Árið 2006 hafi um 30% nefnt það sem ástæðu en nú er það hlutfall komið upp í 40%. Þá veki athygli að rúmur fimmtungur sagðist hafa frestað því að leita sér aðstoðar þar sem þeir hafi ekki vitað hvert ætti að leita.

Styrki opinbera kerfið á næstu árum

Rúnar sagði að of langt hefði verið gengið í kostnaðarþátttöku sjúklinga. Þeir hópar sem frestuðu því að leita sér aðstoðar væru þeir sem síst mættu við því. Kostnaðurinn legðist þyngst á lágtekjufólk, langveika, öryrkja og námsmenn. Öryrkjar væru með langhæstu útgjaldabyrðina, 9,4% af ráðstöfunartekjum sínum.

Niðurstöður rannsóknanna sem hann hafi vísað í bentu til þess að styrkja bæri opinbera heilbrigðiskerfið á Íslandi á næstu árum og efla almannatryggingakerfið til þess að lækka lyfjakostnað og komugjöld. Hægt væri að efla heilsugæsluna, bæta aðbúnað sjúklinga og starfsmanna, auka nálægð þjónustunnar, t.d. með  vinnustaðaþjónustu, heilsugæslu í framhaldsskólum og sérfræðingaheimsóknum á heilsugæslustöðvar.

Fréttir mbl.is:

Á leið af braut til samhjálpar

Bjarni saknaði samhljómsins

Rúnar Vilhjálmsson prófessor.
Rúnar Vilhjálmsson prófessor. mbl.is/Ásdís
mbl.is