Evrópusambandsaðild efst á baugi

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og David Cameron í Alþingishúsinu í gær.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og David Cameron í Alþingishúsinu í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Breskir miðlar fylgjast grannt með heimsókn David Cameron á Íslandi en menn bíða þess nú í eftirvæntingu að kröfugerð forsætisráðherrans gagnvart Evrópusambandinu verði gerð opinber. Cameron hefur heitið því að útlista kröfur Bretlands í bréfi til Donald Tusk, forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins, sem BBC segir að verði birt innan tíðar.

Laura Kuenssberg, ritstjóri stjórnmálaumfjöllunar BBC, ræddi við Juha Silipa, forsætisráðherra Finnlands, og Taavi Roivas, forsætisráðherra Eistlands, í Reykjavík í gær en hvorugur sagðist hafa séð eiginlegar tillögur frá Cameron. Forsætisráðherrann sagði viðræður hins vegar „ganga vel“.

Cameron hyggst freista þess að endursemja um skilyrði aðildar Bretlands áður en breska þjóðin gengur til atkvæðagreiðslu um veru Bretlands innan Evrópusambandsins í síðasta lagi fyrir árslok 2017.

David Cameron á Northern Future Forum í morgun.
David Cameron á Northern Future Forum í morgun. mbl.is/Styrmir Kári

„Þegar eiginlegar tillögur liggja fyrir tel ég að Finnland og önnur norræn ríki verði opin fyrir því að leita lausna,“ sagði Sipila í samtali við Kuenssberg. Roivas sagði að rætt  hefði verið um í hvaða átt menn væru að horfa en engin smáatriði lægju fyrir.

Eftir komuna til Íslands ítrekaði Cameron að hann útilokaði ekkert ef hann næði ekki ásættanlegri niðurstöðu í samningaviðræðunum við ESB, þar með talið að tala fyrir úrgöngu í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

Áður en opinber heimsókn forsætisráðherrans hingað til lands hófst, höfðu fjölmiðlar í Bretlandi sagt frá því að hann myndi nota heimsókina til að svara efasemdamönnum í Evrópumálum, sérstaklega hvað varðaði hina svokölluðu norsku eða íslensku leið, þ.e. að standa utan sambandsins en vera í tengslum við það gegnum samning á borð við EES.

Kuenssberg hefur eftir Cameron að breska þjóðin þurfi að skilja að „norski valkosturinn“ feli í sér kostnaðarþátttöku án sætis við borðið. „While they pay, they don't have a say“, sagði forsætisráðherrann en Nigel Farage, leiðtogi UKIP, hefur bent á Noreg og Ísland sem dæmi um lönd sem hafa dafnað utan Evrópusambandsins.

Nigel Farage, leiðtogi UKIP.
Nigel Farage, leiðtogi UKIP. AFP

„Hann hefur gefist upp á samningaviðræðum, augljóslega gefist upp, og augljóslega ákveðið að hann verði að tjalda öllu til að reyna að halda Bretlandi innan Evrópusambandsins - og í öðru lagi er röksemdafærsla hans að verða dálítið örvæntingafull,“ sagði Farage á útvarpsstöðinni LBC í morgun.

Viðskiptafulltrúi Bandaríkjastjórnar, Michael Froman, sagði í samtali við Reuters í gær að Bandaríkin hefðu takmarkaðan áhuga á sérstökum fríverslunarsamningi við Bretland ef Bretar kysu að ganga úr Evrópusambandinu. Þykja ummæli Froman vatn á myllu aðildarsinna.

Michael Froman, viðskiptafulltrúi Bandaríkjastjórnar.
Michael Froman, viðskiptafulltrúi Bandaríkjastjórnar. AFP

Bæði bandarísk og kínversk stjórnvöld hafa hvatt Breta til áframhaldandi aðildar að ESB, en samkvæmt Telegraph hugnast Kínverjum ekki veiking þeirrar blokkar sem þeir álíta mótvægi við Bandaríkin.

Telegraph segir lykilkröfur breskra stjórnvalda gagnvart Evrópusambandinu þessar:

  • Að Bretar eigi þess kost að standa utan frekari samruna
  • Að tilgreint verði í sáttmálum að ESB sé fjöl-mynta bandalag
  • Að endurheimta vald frá Brussel, auka sjálfræði breska þingsins og draga úr áhrifum Evrópulöggjafarinnar á innanríkismál
  • Að koma í veg fyrir að Evruríkin geti þvingað nýjum reglum upp á önnur aðildarríki

Bein stjórnmálalýsing BBC.

Bein stjórnmálalýsing Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert