Magnús Geir: Svarthvít fortíð RÚV

Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri.
Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri. mbl.is/Þórður

„Það má eiginlega segja að þessi samantekt um fortíðina sé svarthvít,“ segir Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri um skýrslu nefndar um fjárhagsstöðu RÚV. Hún er svört að því leyti að hún staðfestir það sem við höfum sagt um fortíðarvandann og skuldabaggann,“ er haft eftir Magnúsi Geir í fréttatilkynningu frá RÚV um skýrsluna. „Hún er hvít að því leyti að hún sýnir að lyft hefur verið grettistaki í að snúa rekstrinum við.“

Í tilkynningu RÚV eru gerðar athugasemdir við ýmis atriði skýrslunnar, m.a. þann tölulega samanburð sem nefndin gerir á milli RÚV og 365. „Margoft hefur komið fram að slíkur samanburður er illmögulegur vegna ólíks eðlis almannaþjónustumiðla og einkamiðla,“ segir í tilkynningunni. Þá er í skýrslunni stuðst við óopinberar og óstaðfestar tölur úr rekstri einkafyrirtækis í samkeppnisrekstri. Ef styðjast ætti við upplýsingar úr rekstri 365, gefnar upp af stjórnendum þess fyrirtækis, þá þyrfti að vera hægt sannreyna þær tölur með gegnsæjum hætti, segir í tilkynningu RÚV.

„Í skýrslunni kemur fram að á tímabilinu hafa rekstrargjöld RÚV lækkað um 11%,“ er ennfremur haft eftir Magnúsi Geir í tilkynningunni. „Fyrri stjórnendur gerðu vel í því að verja þjónustuna og öfluga dagskrá þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Við sem tókum við 2014 höfum svo enn frekar skorið niður yfirbyggingu fyrirtækisins og náð að efla dagskrána á sama tíma. Við leigðum út hluta útvarpshússins og seldum byggingarétt á lóðinni sem mun skila mestu skuldalækkun í sögu félagsins. Stjórnvöld þurfa hins vegar að leiðrétta mistök frá hlutafélagsvæðingunni og ráðamenn að standa við yfirlýsingar sínar um að útvarpsgjald verði ekki lækkað frekar. Ég er þess fullviss að við getum haldið áfram að reka fyrirtækið á sem allra hagkvæmastan hátt, og styrkt enn frekar gæði og sérstöðu dagskrárinnar í samvinnu og þjónustu við almenning.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert