Benda á rangfærslur í skýrslu

Útvarpshúsið í Reykjavík.
Útvarpshúsið í Reykjavík. mbl.is/Árni Sæberg

Ríkisútvarpið vill vegna skýrslu starfshóps, sem skipaður var af Illuga Gunnarssyni mennta- og menningarmálaráðherra, um starfsemi og rekstur Ríkisútvarpsins frá árinu 2007 koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri.

„Í skýrslu sem nefnd undir forystu Eyþórs Arnalds ritaði og í nokkrum fréttum sem birtar hafa verið um hana er rangt farið með staðreyndir um fjármál Ríkisútvarpsins ohf.,“ segir í tilkynningu frá Ríkisútvarpinu.

„ Fullyrt er að Ríkisútvarpið geri kröfu um skilyrt viðbótarframlag til næstu fimm ára og í áætlunum félagsins sé gert ráð fyrir verulega hækkuðu ríkisframlagi, þ.á.m. að 3,2 milljörðum króna verði varið til að létta skuldum af Ríkisútvarpinu. Þetta er ekki rétt. Ríkisútvarpið hafði vakið athygli nefndarinnar á að fullyrðingar þeirra í skýrsludrögum væru rangar og jafnframt að þeim væri óheimilt með tilliti til laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 að birta upplýsingar sem vörðuðu rekstraráætlanir félagsins, þar með talið ósamþykktar sviðsmyndir, enda höfðu nefndarmenn ritað undir trúnaðaryfirlýsingu þess efnis,“ segir jafnframt í tilkynningu.

„Hið rétta er að stjórn Ríkisútvarpsins hefur samþykkt rekstraráætlun fyrir tímabilið 1. september 2015 til 31. ágúst 2016. Þessi áætlun gerir ráð fyrir að útvarpsgjaldið lækki ekki frekar heldur haldist það óbreytt eins og mennta- og menningarmálaráðherra hefur boðað. Sú áætlun verður uppfærð og lögð fyrir stjórn fyrir árslok og mun þá taka til almanaksársins 2016. Einnig liggja fyrir áætlanir sem gera ráð fyrir viðbrögðum félagsins ef forsendur um óbreytt útvarpsgjald ganga ekki eftir í meðförum þingsins. Þær áætlanir fela í sér umtalsverða skerðingu á þjónustu og dagskrá Ríkisútvarpsins. Í öllum áætlunum stjórnenda Ríkisútvarpsins er gert ráð fyrir hallalausum og sjálfbærum rekstri á næsta rekstrarári, eins og raunin hefur verið á síðastliðnum tólf mánuðum.“

mbl.is