Kaupstaðurinn varð rústir einar

Mest hætta á sjávarflóðum við Íslandsstrendur er þegar mjög djúpar og víðáttumiklar lægðir grafa um sig á stóru hafsvæði bæði fyrir sunnan og norðan landið og þegar næg vindorka er í lægðakerfinu til að byggja upp orkumiklar öldur og kenniöldur.

Þetta kom meðal annar fram í rannsókn á sjávarflóðum við Ísland sem unnin hefur verið af þeim Gísla Viggóssyni strandverkfræðingi, Jónasi Elíassyni rannsóknaprófessor og Sigurði Sigurðssyni strandverkfræðingi. Verkefnið var styrkt af Vegagerðinni og gerði Gísli grein fyrir því á rannsóknaráðstefnu Vegagerðarinnar í Hörpu í morgun.

Frétt mbl.is: Tækifæri frekar en kvöð

Ennfremur segir í rannsókninni að það fari einkum eftir dýpt lægðarinnar og flóðhæð í stórstraumsflóði þegar lægðin gengur á land hversu mikil sjávarflóðin verði. Verkefnið snýst um að kryfja heimildir um Básendaflóðið svonefnt sem átti sér stað árið 1799 þegar mikið sjávarflóð varð í kjölfar einhverrar kröppustu lægðar sem gengið hefur yfir Ísland á sögulegum tíma.

Flóðið gekk yfir aðfararnótt 9. janúar það ár og olli miklum skemmdum á Suðvesturlandi. Kaupstaðurinn að Básendum á vestanverðu Reykjanesi varð rústir einar og byggðist aldrei aftur. Ein kona drukknaði í flóðinu og kirkjur fuku á Hvalsnesi og Seltjarnarnesi. Þá skemmdust bátar og skip víða á svæðinu frá Eyrarbakka og vestur á Snæfellsnes.

Fór flóðið yfir flugvallarsvæðið?

Básendaflóðið er skoðað í verkefninu út frá aðferðafræði strandverkfræðinnar og reynt að komast að niðurstöðu um það hvers vegna það fellur ekki að langtímadreifingu sjávarflóða í Reykjavík. Ennfremur er markmiðið að kanna út frá heimildum um Básendaflóðið hvort það hafi í raun farið yfir Kvosina og núverandi flugvallarsvæði í Reykjavík. Ætlunin er að áætla hvaða veðurskilyrði geti skapað slík flóð eins og Básendaflóðið með það fyrir augum að í framhaldi verði hægt að setja saman líkön í þeim efnum.

Fram kemur að á síðustu rúmlega 100 árum hafi sjávarhæð í Reykjavíkurhöfn farið yfir 4,9 metra. Hæsta mælingin á síðustu rúmu hálfu öld var um 5,1 metri. Miðað við heimildir hefur flóðhæðin í Básendaflóðinu verið talin hafa verið á bilinu 6-7 metrar í Reykjavík. Hins vegar falli sú flóðhæð engan veginn að langtímadreifingu sjávarhæða samkvæmt mælingum á mati á flóðhæð undanfarin 140 ár samkvæmt rannsókninni

Bráðabirgðaniðurstöður rannsóknarinnar eru á þá leið að tjón af völdum Básendaflóðsins megi rekja til mjög hárrar sjávarstöðu samfara djúpri krappri lægð sunnan úr hafi sem valdið hafi aftaka brimi og mikilli ölduhæð á svæðum fyrir opnu hafi sunnan og vestanlands. Takmörkuð hætta sé af aftakasjávarflóðum af völdum aftakabrima þar sem öldu gæti lítið eins og í Kvosinni í Reykjavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert