Tækifæri frekar en kvöð

Ljósmynd/Norden.org

Vilji ferðaþjónustan varðveita og þróa gæði, sjálfbærni og samkeppnisforskot landsins er nauðsynlegt að styðja og stuðla að aðgengilegum samgöngum. Það kemur öllum til góða og þá ekki síst ört vaxandi fjölda ferðamanna sem kemur til landsins.

Þetta kemur meðal annars fram í rannsókn um aðgengi fatlaðs fólks að samgöngumannvirkjum sem kynnt var á rannsóknaráðstefnu Vegagerðarinnar sem fram fer í Hörpu í dag. Þar eru kynnt verkefni sem styrkt hafa verið af stofnuninni og tengjast starfsemi hennar. Verkefnið var kynnt af Birnu Hreiðarsdóttur, lögfræðingi hjá Norm ráðgjöf, en Harpa Cilia Ingólfsdóttir, byggingafræðingur hjá Aðgengi ehf., hefur unnið að því með henni.

Frétt mbl.is: Kaupstaðurinn varð rústir einar

Bent er á í rannsókninni að markmið stjórnvalda sé að efla samkeppnishæfi Íslands í heild sem og einstakra svæða. Það verði meðal annars gert með því að gera fólki með fötlun kleift að ferðast um landið á eigin vegum. Ófullnægjandi innviðir og óaðgengilegt umhverfi sé meginástæða þess að fólk með fötlun geti ekki notfært sér skipulagðar samgöngur í sama mæli og ófatlaðir.

Fyrir vikið verði við uppbyggingu samgöngukerfisins til framtíðar að taka mið af öllum þeim sem noti það án tillits til þess líkamlegrar færni. Bent er á að í samgönguáætlun fyrir árin 2011-2022 sé mörkuð afgerandi stefna um að aðgengi fatlaðra og hreyfihamlaðra einstaklinga að mannvirkjum og þjónustu samgöngukerfisins verði tryggt.

Heildstæð mynd dregin upp af stöðunni

Verkefnið snýst annars vegar um að skoða lagaumhverfið í þessum efnum og þróun mála í þeim efnum. Bæði til þessa og til framtíðar. Meðal annars með tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga Íslands. Hins vegar með faglegum úttektum á fyrirfram ákveðnum stöðum þar sem reyni á aðgengi fatlaðs fólks að samgöngumannvirkjum. Þannig fáist heildstæð mynd af stöðu þessara mála.

Samkvæmt rannsókninni eru aðstæður mjög misjafnar í þessum efnum eftir landssvæðum. Vesturland er einna best í stakk búið til þess að taka á móti þjónustu farþega hópferðabifreiða. Til þess að fólk með fötlun geti nýtt sér opinberar samgöngur verði áningarstaðir að vera aðgengilegir öllum. Bent er á að vel sé búið að farþegum á áningarstöðum áætlanabifreiða á leiðinni á milli Reykjavíkaur og Akureyrar. Hins vegar sé enginn áningarstaður á milli Reykjavíkur og Hafnar í Hornafirði ásættanlegur með hagsmuni fatlaðs fólks í huga.

Horft til framtíðar kemur fram í rannsókninni að sjálfstæður ferðamáti fólks með fötlun á eigin vegum, þjálfað starfsfólk sem veitir því aðstoð, öruggar upplýsingar og ábyrg markaðssetning samgangna í þágu fólks með fötlun hljóti að vera það sem koma skuli. Krafa um aðgengilegar samgöngur á landi haldist í hendur við þá áskorun að litið verði á aukna þjónustu sem tækifæri frekar en kvöð. Vegagerðin hafi þar mikilvægu hlutverki að gegna. Til að mynda að hagmuna fólks með fötlun sé gætt við hönnun og útboð samgöngumannvirkja.

mbl.is