Arðurinn notaður í uppbyggingu

Gert var svokallað „Masterplan“ fyrir Keflavíkurflugvöll, en það er langtímauppbyggingarplan …
Gert var svokallað „Masterplan“ fyrir Keflavíkurflugvöll, en það er langtímauppbyggingarplan sem mun kosta tugi ef ekki hundruði milljarða. Aukið eigið fé á að gera félagið betur í stakk búið til að mæta frekari fjárfestingum félagsins. Mynd/Isavia

Ástæða þess að engin arðgreiðsla er greidd út úr Isavia til ríkisins á þessu ári er sú að nýta á fjármunina til að hækka eigið fé félagsins. „Með þessu verður Isavia betur í stakk búið til að mæta frekari fjárfestingum á komandi tímum,“ segir Ingimundur Sigurpálsson, stjórnarformaður Isavia við mbl.is.

Ingimundur bendir á að ákvörðunin hafi verið tekin í samráði við eiganda félagsins, en það er íslenska ríkið. Segir hann að betri eiginfjárstaða geri Isavia hæfara til að sækja sér lán á mörkuðum á hagstæðari kjörum, en framundan eru stórtæk uppbyggingaráform í Keflavík.

Sagt var frá væntanlegum framkvæmdum Isavia fyrr í haust á mbl.is, en þá var meðal annars haft eftir Guðna Sigurðssyni, upplýsingafulltrúa að félagið hefði frá árinu 2011 til síðasta árs aukið eigið fé sitt úr 10,9 milljörðum upp í 17 milljarða. „Líkt og mörg önn­ur fyr­ir­tæki kom­um við illa út úr banka­hruni með mikl­ar er­lend­ar skuld­ir en við höf­um nýtt tæki­færið til þess að safna upp góðri eig­in­fjár­stöðu og erum vel í stakk búin til þess að fara af stað með þess­ar fram­kvæmd­ir,“ sagði Guðni þá.

Auk framkvæmda í Keflavík sér Isavia um rekstur og viðhald flugvalla um allt land. Ekki er þó heimilt og færa tekjur vegna Keflavíkurflugvallar í uppbyggingu annarsstaðar, en ríkið lagði í fyrra til aukið fé í uppbyggingu á nokkrum flugvöllum á landsbyggðinni.

Frétt mbl.is: Engin arðgreiðsla frá Isavia

Ingimundur Sigurpálsson, stjórnarformaður Isavia.
Ingimundur Sigurpálsson, stjórnarformaður Isavia.
mbl.is