Hefur oft langað að deyja

Verjendur í málinu, Einar Gautur Steingrímsson og Kristín Edwald í …
Verjendur í málinu, Einar Gautur Steingrímsson og Kristín Edwald í héraðsdómi í morgun. mbl.is/Hjörtur

„Þessi vakt var sérstaklega erfið því ég var látin hlaupa út um allan spítala,“ sagði hjúkrunarfræðingur, sem sakaður er um manndráp af gáleysi, fyrir Héraðsdómi í Reykjavíkur í morgun.

Forsaga málsins er sú að karlmaður lést á gjörgæsludeild Landspítalans sem hjúkrunarfræðingurinn hafði verið falið að sjá um. Ítrekaði hún sakleysi sitt af ákærunni og sagði aðspurð að hennar faglega skynjun hefði verið sú að maðurinn ætti ekki langt eftir.

Hjúkrunarfræðingurinn sagði aðspurð að síðustu þrjú ár hafi verið helvíti fyrir hana. Hjónabandið hennar væri búið og barnið hennar ætti mjög erfitt. Hún hafi íhugað að flytja til Noregs og starfa þar sem hjúkrunarfræðingur en gæti það ekki vegna þess að hún gæti ekki útskýrt málið fyrir mögulegum nýjum vinnuveitendum. Hún fengi ekki að taka aðrar vaktir en dagvaktir á Landspítalanum þar sem hún starfaði á svæfingardeildinni. Hana hefði oft langað að deyja vegna málsins.

Slímtappi hugsanlega valdið andlátinu

Hjúkrunarfræðingurinn lýsti fyrir héraðsdómi aðdraganda þess að maðurinn lést en aðalmeðferð í málinu hófst í morgun. Dómsalurinn var þéttsetinn og margir hjúkrunarfræðingar í salnum. Þar á meðal formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Áður en aðalmeðferðin hófst fóru dómarinn í málinu, Guðjón St. Marteinsson, meðdómendur, verjendur og fulltrúar ákæruvaldsins auk hinnar ákærðu í vettvangsferð á gjörgæsludeild Landspítalans. Spurð hvað hún teldi hugsanlega hafa valdið andláti sjúklingsins sagði hjúkrunarfræðingurinn að slímtappi væri hugsanleg skýring. Talsvert var rætt um það hvort hún hefði tappað af lofti af talventli á sjúklingnum en hún sagðist ekki muna það. Við skýrslutöku hjá lögreglu hafi hún sagt að hún hefði ekki gert það en þá hafi hún verið í taugaáfalli og í sjálfsásökun.

Hjúkrunarfræðingurinn sagðist hafa verið á dagvakt á svæfingardeild, sem væri hennar aðalstarfstöð, en var beðin að taka kvöldvakt á gjörgæsludeildinni í beinu framhaldi. Því hafi verið um að ræða tvöfalda vakt. Henni hafi verið falið að taka við sjúklingnum. Hjúkrunarfræðingur sem sinnt hafi honum á dagvakt hafi verið búin með vaktina sína og aðeins gefið henni mjög stutta skýrslu um ástand sjúklingsins. Hjúkrunarfræðingurinn sagðist hafa farið á stofuna til sjúklingsins, kynnt sig og síðan farið að framkvæma öryggisathugun.

Vissi ekki að slökkt var á eftirlitsskjánum

Hjúkrunarfræðingurinn hafi kannað allt sem hafi þurft að kanna fyrir utan að líta á vaktarann við rúmið hans. Hún hafi ekki komist að honum vegna þess að kona mannsins hafi setið við hlið hans og haldið í hönd hans. Hún hafi ákveðið að sleppa því frekar að líta á skjáinn í stað þess að reka konuna hans í burtu. Það væri enda ekki síður hlutverk heilbrigðisstarfsmanna að hlúa að aðstandendum en sjúklingum. Ekkert hafi bent til að nokkuð væri að. Hún hafi ekki vitað að slökkt hafi verið á vaktaranum þegar hún tók við sjúklingnum. Það væri aldrei gert á svæfingardeildinni.

Hjúkrunarfræðingurinn sagðist síðan hafa verið kölluð yfir á vöknun og því sett ábyrgina á sjúklingnum yfir á hjúkrunarfræðing í stæðinu við hliðina. Hún hafi síðan verið á hlaupum á milli deilda vegna verkefna sem hún hafi verið falið að sinna. Bæði á vöknunardeildinni og kvennadeildinni. Hjúkrunarfræðingurinn í stæðinu við hliðina hafi síðan haft samband og sagt sjúklinginn vera farinn að anda hratt og spurt hún ætti að gefa honum verkjalyf og setja hann í öndunarvél. Hún hafi sagt að hún yrði að meta það en hún væri sammála.

Fékk taugaáfall og fór í sjálfsásökun

Eftir stuttan kvöldmat fór hjúkrunarfræðingurinn aftur á stofu sjúklingsins og taldi sig loksins geta tekið við aðhlynningu hans aftur. Sonur sjúklingsins hafi þá verið hjá honum og tengdadóttir. Þá hafi annar hjúkrunarfræðingur komið og beðið um aðstoð hennar eða hins hjúkrunarfræðingsins í stæðinu við hliðina. Þær hafi rætt málið stutta stund og niðurstaðan orðið sú að hún færi þar sem hjúkrunarfræðingurinn við hliðina hafi átt von á aðstandendum síns sjúklings. Síðar hafi hjúkrunarfræðingurinn við hliðina kallað eftir aðstoð þar sem eitthvað væri að. Sjúklingurinn hafi verið orðinn blár og lífgunartilraunir hafi verið hafnar.

Daginn eftir var hjúkrunarfræðingurinn kallaður á fund í Landspítalanum vegna málsins. Hún var beðin að greina frá því hvað gerðist á vaktinni. Hún sagði fyrir dómi að hana hefði ekki grunað þá að talið væri að eitthvað saknæmt hefði átt sér stað. Hún hafi á fundinum fengið taugaáfall og farið í sjálfsásökun og sagt að atvikið hefði verið hennar sök. Í kjölfarið hafi hún verið boðuð í skýrslutöku hjá lögreglunni. Hún hafi gefið skýrslu í þessu ástandi og sakað sjálfa sig um lát sjúklingsins. Nokkrum dögum síðar hafi hún farið yfir málið og komist að annarri niðurstöðu. Sækjandi benti á að hjúkrunarfræðingnum hefði verið gefinn kostur á að breyta framburði sínum hjá lögreglu síðar en ekki gert það. Hún gaf þá skýringu að þáverandi lögmaður hennar hafi ráðlagt henni að gera það ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert