Vaktarinn hefði hindrað andlátið

Fulltrúar ríkissaksóknara.
Fulltrúar ríkissaksóknara. mbl.is/Hjörtur

Mikið álag var á gjörgæsludeild Landspítalans kvöldið 3. október fyrir rúmum þremur árum. Þetta kom fram í máli þeirra sem báru vitni fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag í máli ríkissaksóknara gegn hjúkrunarfræðingi sem ákærður er fyrir manndráp af gáleysi. Karlkyns sjúklingur lést á deildinni það kvöld en hjúkrunarfræðingnum var falið að sjá um hann.

Meðal þeirra sem báru vitni var Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, en hluti málarekstursins er skaðabótakrafa gegn spítalanum. Páll sagði mikla áherslu vera lagða á að tryggja öryggi sjúklinga á Landspítalanum og það væri viðvarandi verkefni að gera sífellt betur í þeim efnum. Hins vegar væri líka nauðsynlegt að tryggja að vaktir væru mannaðar.

Hjúkrunarfræðingur sem var vakstjóri á gjörgæsludeildinni þetta kvöld bar fyrir dómi að álagið hefði verið mikið á deildinni og undirmönnun. Þörf hefði verið á fleiri en tveimur hjúkrunarfræðingur til viðbótar þeim sem verið hafi á vaktinni. Að hennar mati hefðu tveir hjúkrunarfræðingar átt að fylgjast með svo veikum sjúklingi. Það hefði hins vegar ekki verið hægt.

Fékk „frekar snubbótta“ stöðuskýrslu

Hjúkrunarfræðingurinn sem ákærður er í málinu hafði verið á dagvakt á svæfingardeild um daginn en verið beðin að taka kvöldvakt á gjörgæsludeildinni í beinu framhaldi. Hjúkrunarfræðingur sem séð hafði um sjúklinginn á dagvaktinni greindi frá því að hún hefði gefið „frekar snubbótta“ skýrslu við vaktaskiptin. Mjög knappur tími hafi verið til að skiptast á upplýsingum.

Fyrir dómi kom fram að svokallaður vaktari hafi ekki verið í gangi þegar vaktaskiptin urðu. Hjúkrunarfræðingurinn bar fyrir dómi að hún hafi ekki vitað að hann væri ekki í gangi en saksóknari rifjaði upp að hún hefði sagt í skýrslutöku hjá lögreglu að hún hafi vitað það. Hún taldi rétt sem hún sagði hjá lögreglunni. Langur tími væri liðinn frá þessum atburði.

Dagvaktarhjúkrunarfræðingurinn bar aðspurð að hún hefði ekkert átt við vaktarann. Hún hafi ekki talið skipta máli að hann væri ekki í gangi. Ekkert hafi bent til þess að eitthvað væri óeðlilegt miðað við ástand sjúklingsins. Hún hefði ekki greint hjúkrunarfræðingnum sem ákærður er grein fyrir því að vaktarinn væri ekki í gangi. Það hafi ekki verið í „hugsanaferlinu“ hjá henni.

Mikilvægt að geta treyst vaktaranum

Hjúkrunarfræðingur sem var í næsta stæði við sjúklinginn sem lést bar fyrir dómi að hún hefði tekið að sér að sjá um hann auk eigin sjúklings og annarra verkefna þar sem hinn ákærði hjúkrunarfræðingur hafi verið sendur út og suður þar sem aðstoð hafi vantað. Hún hafi verið að sinna eigin sjúklingi og aðstandendum hans þegar vaktarinn hinu megin hafi farið að væla.

Hjúkrunarfræðingurinn kallaði í kjölfarið á hjúkrunarfræðinginn sem ákærður hefur verið sem kom strax á vettvang. Síðan hafi verið kallað á aðstoð og endurlífgun farið fram en án árangurs. Hún sagði að ef bjallan í vaktaranum hefði verið í gangi hefði þetta ekki komið fyrir. Enginn vissi hins vegar hvers vegna bjallan var ekki í gangi. Það yrði að vera hægt að treysta vaktaranum.

Hjúkrunarfræðingurinn bar einnig aðspurð að hin ákærða hafi verið í taugaáfalli. Þær hafi báðar verið í áfalli. Mikið álag hafi verið á þeim báðum. Þurft að hendast á milli verkefna og ekki getað sinnt bara eigin sjúklingum. Slímtappi væri eitthvað sem skoða þyrfti alvarlega að hennar mati en ákærði hjúkrunarfræðingurinn hefur nefnt það sem hugsanlega orsök.

Dánarorsökin ekki loftið í talventlinum?

Vitni bar einnig þáverandi yfirlæknir á gjörgæsludeild en hann mætti til vinnu daginn eftir og hóf þá að skoða málið og ræða við þá hjúkrunarfræðinga sem komið hefðu að málinu. Í kjölfarið tilkynnti hún yfirmanni sínum í samræmi við lög að grunur væri um að andlátið skýrðist að hluta af því að mistök hefðu átt sér stað í aðhlynningu sjúklingsins.

Einnig kom fram í máli læknisins að öllum gæti orðið á að tæma ekki loft úr talventli en nokkuð hefur verið rætt um það fyrir dómi hvort það hefði leitt til andlátsins og hvort hjúkrunarfræðingurinn sem ákærður er hafi borið ábyrgð á því. Hins vegar sagði læknirinn að ef slíkt gerðist ætti vaktarinn að láta vita af því. Það væri því mjög mikilvægt að hann virkaði sem skyldi.

Tækið hefði verið sent erlendis til athugunar en ekkert komið út úr því. Spurður hvað hann teldi geta hafa valdið andlátinu sagðist læknirinn ekki vita það. Hins vegar kæmu upplýsingar úr krufningu ekki heim og saman við það að dánarorsökin hefði verið sú að loft hefði ekki verið tæmt úr talventlinum. Læknirinn og deildarstjóri gjörgæsludeildar voru sammála um að málið hafi verið sett of fljótt í lögreglufarveg. Deildarstjórinn sagði hjúkrunarfræðinginn hafa brotnað niður þegar rætt hafi verið við hana daginn eftir og strax farið að ásaka sjálfa sig. Þá hafi hún ekki verið búin að fá neina sérfræðiaðstoð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert