Ósýnilegur her neikvæðrar umræðu

Vigdís Hauksdóttir í Bifröst.
Vigdís Hauksdóttir í Bifröst. mynd/Haraldur Líndal

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, tók til máls á málstofu í Háskólanum á Bifröst í kvöld þar sem hún fór yfir þær árásir sem hún taldi sig og samflokksmenn sína hafa orðið fyrir á síðustu árum. Hún sagði ósýnilegan her stunda árásir gegn sér, helst á netinu. Hún sagði netið vissulega hafa fært fólki frelsi, en það frelsi þyrfti að umgangast af mikilli ábyrgð.

Hluti af þeim árásum sem Vigdís hefur upplifað hefur falist í því að fá hana lýsta heimska opinberlega og að hún eigi að halda sig við blómaskreytingar. „Þetta fólk er eins og Loki jarðálfur. Þegar það eru komin fimmtíu læk á skrifin eða svo þá er eins og það hlakki í því; „Mikið þykir mér gott að gera illt“,“ sagði Vigdís um þessa óvildarmenn sína. „Fer þetta fólk ekki að verða þreytt á því að tortryggja og ljúga upp á okkur?“ Hún sagði bæði sig og Sigmund Davíð, forsætisráðherra, hafa orðið fyrir brjálæðislegum árásum, sem farið hafi yfir strikið. „En ég hef fengið ótrúlegan stuðning á móti alveg þvert á flokka á móti.“

Vigdís sagðist hafa þurft að sitja undir líflátshótunum sem hún hafi eftir tilvikum vísað áfram til lögreglu en þvertók fyrir það að hún lifði í ótta vegna þess. 

Ítrekað lýsti Vigdís furðu sinni á því að hópar landsmanna sjái sér mat í því að tala niður góð verkefni ríkisstjórnarinnar og Framsóknarflokksins til þess að ná á hann höggi. „Allt sem við höfum lofað og talað fyrir hefur staðist eins og stafur á bók. Langar þessu fólki til þess að landinu gangi illa? Þessar árásir koma til held ég vegna einhvers í málflutningi okkar, ákveðni, eða trú okkar á íslenskt samfélag og á að bjart sé framundan. Það er hjólað í hvert einasta góða mál sem frá okkur kemur.“

Sérstaklega tilgreindi Vigdís heilbrigðiskerfið og rak þess dæmi að skjólstæðingar þess gæfu því hæstu einkunn á meðan að það væri eindregið talað niður opinberlega. „Okkar heilbrigðiskerfi með okkar góðu læknum og hjúkrunafræðingum hefur verið drullað út. Við verðum sem samfélag að fara að koma okkur upp í ljósið!“

Munstur árása gegn Vigdísi - innan úr flokki sem utan frá

„Það er munstur í þessum árásum eins og það er munstur í heimilisofbeldi og hjá alkóhólistum. Í árásum gegn mér á netinu þá t.d. kem ég í útvarpsþátt í hádeginu og svo bíð ég eftir því. Ef það er ekki komið eitthvað síðdegis þá hefur verið erfitt að reyna að finna eitthvað á mig. Það eru þekkt nöfn á bakvið þetta,“ sagði Vigdís en neitaði að nefna nöfn í því sambandi. „Svo eftir því hvenær þetta byrjar um daginn þá yfirleitt gengur þetta yfir á sólarhring. Þá er búið að segja allt og hafist handa við að finna það næsta til að henda í hausinn á mér.“

Eitt skiptið sagði Vigdís árásirnar hafa verið linnulausar í fleiri daga. Þá leitaði hún á fund almannatengils sem boðið hafði henni ráðgjöf sína. Eftir að hún sagði þingflokki Framsóknarflokksins frá fundi sínum með almannatenglinum þá hafi það spurst víðar út í flokkinn. „Ekki halda það að Framsóknarflokkurinn sé heilagur flokkur. Sumar af þessum árásum koma beint innan úr flokknum, vegna ákveðinnar afbrýðisemi eða samkeppni innan flokksins, en innan stjórnmálaflokka er enda einna hörðust samkeppnin. Eftir að þetta spurðist út fór fólk að halda að sér höndum.

Ósanngjörn vinnubrögð fjölmiðla

Þá sagði Vigdís fjölmiðla ekki hafa gefið henni sanngjarnt færi á því að svara fyrir sig. „Það sem ég, og við í stjórnmálum, stöndum frammi fyrir núna er að gamlir statusar á Facebook eru teknir upp og búin til úr þeim frétt. Svo er fenginn álitsgjafi til þess að hakka hana niður og það er ekki reynt að hafa samband við mann,“ sagði Vigdís og rak dæmi um að RÚV hafi í hádegisfréttum á sunnudegi flutt frétt byggða á Facebookfærslu hennar tengda Isavia sem hún hafði sett inn um miðja viku. „Fjölmiðlar eru komnir þarna út á hálan ís þegar statusar á Facebook eru orðnir aðaluppspretta frétta.“

Sjúk umræða sem vinda þarf ofan af

Vigdís beindi máli sínu ítrekað að ástandi fjölmiðlaumræðu á landinu sem hún sagði eindregið neikvæða og drægi upp óþarflega dökka mynd af ástandinu í landinu. „Hvað er samfélagið bætt með því að rannsaka það sem gerðist þegar Bretar hernámu landið?“ Þar vísaði Vigdís til máls sem hún sagði Bjarta framtíð hafa beitt sér fyrir. „Við þurfum að horfa til framtíðar. Fólki sem þarf þunglyndislyf líður ekki vel að horfa á sjúklinga opna sig á hverju kvöldi. Hver er bættur við það að horfa á þetta?“

Þá rak Vigdís sögu úr æsku sinni, sem dæmi um atvik sem hægt væri að mála dökka mynd af nú, þegar hún var í sveitaskóla og tekinn var upp bekkur í skólanum fyrir vandræðadrengi, eins og hún lýsir honum. „Ég þurfti ekki að sækja rétt minn þó ég væri lamin tvisvar í viku af þessum drengjum. Það er ekki hægt að tala um mannréttindabrot vegna þessa bekkjar.“

Umræðan á Íslandi er á þann veg að staðreyndir hafi vikið fyrir dökkri mynd sem dregin hafi verið upp. „Við eigum algjörlega að hjálpa þeim sem eiga bágt, ná ekki endum saman eða eru veikir en þessi umræða smitar allt samfélagið.“

Vigdís segir eldri borgurum talin trú um það að þeir séu ákaflega illa staddir á meðan það gildi aðeins um lítinn hóp þeirra. „Auðvitað er lítill hluti eldri borgara sem er á leigumarkaði, á engan að og hefur það ógeðslega skítt en það er þá Félag eldri borgara sem á að taka saman tölfræði í því svo við getum komið markvisst og hjálpað þessu fólki. Það eru kannski hjón sem sitja í 70 milljón króna einbýlishúsi og fárast yfir því að þau séu að fá skerðingu frá Tryggingastofnun vegna þess að þau hafi svo góðan lífeyri. Það er búið að snúa þessu öllu á hvolf. Lífeyrissjóðskerfið var stofnað til þess að leysa ríkið undan þessari greiðsluskyldu. Fyrst koma lífeyrissjóðsgreiðslurnar, svo tryggingakerfið. Þeir sem hafa verið að fá fullar bætur hafa ekki verið í vinnu eða hafa verið sjúklingar eða öryrkjar og það er netið sem fólkið á að hafna í. Þeir sem eru með brjálæðislega flottan lífeyrissjóð vilja fá fyrst óskertar bætur frá Tryggingastofnun og svo allan lífeyrissjóðinn líka. Við bara getum ekki snúið þessari umræðu við. Maður verður ráðþrota gagnvart þessu.“

Sömu karlarnir í áratugi

Spurð um efnahagsstefnu Framsóknarflokksins og stöðu heimilanna sagði Vigdís það ekki sanngjarnt að tileinka stöðuna núverandi ríkisstjórn, sem hefði enda setið í tvö og hálft ár. Aðrir hafi setið heldur lengur í valdastöðum. 

„Það eru sömu karlarnir búnir að fara fyrir verkalýðshreyfingunum í þrjátíu ár. Það eru þeir sem fara með kjarasamninga og þeir ákváðu hvað fer mikið í lífeyrissjóði og stjórna lífeyrissjóðunum. Þeir sitja í stjórnum þeirra og það tekur sjö milljarða á ári að reka þá. Hér eru þrjátíu og tveir lífeyrissjóðir í stað þess að hér sé einn lífeyrissjóður almenna vinnumarkaðarins og einn fyrir hið opinbera. Af hverju er enginn að tala um þessa gömlu karla? Atvinnulífið hefur skipt út öllu sínu fólki en þarna sitja þeir enn. Þessir menn bjuggu til þetta launakerfi sem við búum við í dag. Nú er verið að semja um u.þ.b. 25% launahækkun og það er engin helvítis gleði með það.

Jafnréttissinni frekar en femínisti

Spurð um það hvort hún liti á sjálfa sig sem femínista sagði Vigdís síður vilja gera það. „Ég lít á sjálfa mig sem jafnréttissinna, manneskju í jöfnu þjóðfélagi. Ég ólst upp við sömu tækifæri og karlmenn og er ekki hrifin af öfgastefnum sem stundum tengjast femínisma.“

Til dæmis sagði Vigdís sig vera á móti kynjakvótum. Það væri verkefni kvenna að koma sér í efri lög stétta, og inn á svið stjórnmálanna, svo jafnari hlutföll mættu nást á þeim vígstöðvum. Þegar aðeins 30% þingheims væru konur væri varla stætt á því að krefast kynjakvóta s.s. upp á hlutföllin 60/40. 

Framsókn enginn nasistaflokkur - Vigdís vandar Eiríki Bergmanni ekki kveðjurnar

Spurð um það hvort hún telji Framsóknarflokkinn vera þjóðernishyggjuflokk, sagði Vigdís það vera matskennt hvað kallað sé þjóðernishyggja. Hún vilji þó alls ekki kenna sig við slíka stefnu. 

Eiríkur Bergmann Einarsson birti fræðigrein fyrir nokkru þar sem hann skoðar það hvort líta eigi á Framsóknarflokkinn sem þjóðernis- eða popúlistaflokk og taldi hann sterklega aðhyllast þjóðernighyggju og hafa stigið skref í átt að popúlisma. Hana má lesa í heild hér. 

„[Eiríkur] telur að þjóðernishyggjuflokkar séu nasistar og fasistar og við í Framsóknarflokknum séum það. Ég lít á þjóðernishyggju frekar sem það að vera stolt af landinu mínu og auðlindunum okkar. Eiríkur hefur hjólað í okkur margoft út af þessu og ef við setjum orðið nasismi inn í staðinn [fyrir þjóðernishyggju] er hann bara að lýsa því. Þetta er bara ljótt. Hann gefur sig út fyrir að vera prófessor og hann kyndir undir svona ljóta hluti. Mér finnst hann setja niður með. Hann hefur líkt mér við þessar stefnur sem voru í Evrópu í fyrri heimsstyrjöldinni og ég get ekki sætt mig við það að fræðimaður á þessu sviði taki einn stjórnmálaflokk á þessu landi og kenni við Hitler.“

Vigdís Hauksdóttir í pontu á málstofu í Bifröst.
Vigdís Hauksdóttir í pontu á málstofu í Bifröst. mynd/Haraldur Líndal
Málstofan í Bifröst.
Málstofan í Bifröst. mynd/Haraldur Líndal
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert