„Þetta hefði getað verið ég“

Hjúkrunarfræðingar á vakt á hjartadeild Landspítala.
Hjúkrunarfræðingar á vakt á hjartadeild Landspítala. mbl.is/Golli.

„Þetta var algert reiðarslag og breytti algerlega okkar starfsumhverfi hér,“ segir Guðríður Kr. Þórðardóttir, formaður hjúkrunarráðs Landspítalans, í samtali við mbl.is vegna ákæru á hendur hjúkrunarfræðingi við spítalann um manndráp af gáleysi. Aðalmeðferð í málinu lauk fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í gær og er dóms að vænta á næstu vikum.

Forsaga málsins er sú að sjúklingur í umsjá hjúkrunarfræðingsins lést á gjörgæsludeild Landspítalans að kvöldi 3. októbers 2012. Mikið álag var á deildinni þetta kvöld og þurfti hjúkrunarfræðingurinn að sinna fjölmörgum verkefnum öðrum en að fylgjast með sjúklingnum. Bað hún hjúkrunarfræðinginn í næsta stæði við hliðina að sjá um hann á meðan hún sinnti öðrum verkefnum. Deilt var um það fyrir dómi hvað olli dauða sjúklingsins en ákæruvaldið telur skýringuna vanrækslu hjúkrunarfræðingsins. Hjúkrunarfræðingurinn hefur hins vegar ítrekað lýst yfir sakleysi sínu og verjandi hennar hefur meðal annars lagt áherslu á að óljóst sé hvað olli andláti sjúklingsins.

„Hver ber ábyrgðina á þessu ástandi?“

Guðríður segir málið hafa valdið miklu starfsóöryggi á meðal hjúkrunarfræðinga. Það að málið skyldi verða að lögreglumáli og í framhaldinu fara fyrir dómstóla hafi algerlega breytt starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga og væntanlega annarra heilbrigðisstétta. „Markmiðið með því að skrá atvik og fara í gegnum rótargreiningar snýst um að auka öryggismenningu á spítalanum. Þegar svona atvik koma upp er farið ofan í saumana á því hvaða ferli þarf að laga o.s.frv. En þegar mál fer þessa leið eins og í tilviki þessa hjúkrunarfræðings þá hugsa aðrir hjúkrunarfræðingar: „Þetta hefði getað verið ég, þetta hefði getað komið fyrir mig. Ég gæti staðið í þessum sporum.“

Þannig væri upplifun hjúkrunarfræðinga að of mikið álag hafi verið á hjúkrunarfræðinginn sem ákærður var og að henni hafi haft of mörg verkefni á sinni könnu. Hjúkrunarfræðingar á Landspítalanum hafi unnið við slíkar aðstæður í áraraðir. Verið að vinna undir of miklu álagi og með of marga og bráðveika sjúklinga. „Sú spurning vaknar auðvitað hver ber ábyrgðina á því ástandi? Hver ber ábyrgðina ef ég er til dæmis sett í þær aðstæður að vera að vinna með alltof veika sjúklinga án þess að nokkur geti létt undir með mér eða hjálpað mér við það?“ spyr hún.

Leikur sér enginn að því að vinna yfirvinnu

Guðríður hendir á að rannsóknir hafi sýnt að aukavaktir og yfirvinna þýddu auknar líkur á að atvik og alvarleg atvik kæmu upp. Sama ætti við um of mikið álag og ábyrgð hjúkrunarfræðinga á of mörgum sjúklingum. „Staðan er sú að álagið er mikið og þess vegna er yfirvinnan mikil. Þegar deildarstjórar eru að skipuleggja vaktir á spítalanum standa þeir síðan frammi fyrir því að hjúkrunarfræðingar treysta sér ekki til þess að vinna umfram vinnuskylduna sína og taka aukavaktir. Það þýðir einfaldlega að aðrir hjúkrunarfræðingar verða með of marga sjúklinga á sínum herðum.“

Fyrir vikið væri um algera pattstöðu að ræða. Hvorugur kosturinn væri góður. Hvorki að deildir væru undirmannaðar né að þær væru mannaðar með hjúkrunarfræðingum sem þyrftu að vinna mikla yfirvinnu. „Það er enginn að leika sér að því að vinna yfirvinnu eða að bjóða fólki upp á yfirvinnu. Þessi staða er uppi vegna þess að álagið er of mikið og það vantar fólk,“ segir Guðríður. Miklar áhyggjur væru af því að dómsmálið gegn hjúkrunarfræðingnum, og einkum verði hún sakfelld, yrði til þess að hjúkrunarfræðingar treystu sér ekki til þess að tryggja öryggi sjúklinga við þessar aðstæður.

„Þetta er náttúrulega bara hræðilegt áfall“

Dómsmálið hafi þannig þegar valdið miklum skaða fyrir starfsöryggi hjúkrunarfræðinga á Landspítalanum og spítalann sjálfan. Þannig séu uppi áhyggjur af því meðal annars að margir reyndir hjúkrunarfræðingar hafi yfirgefið spítalann af þessum sökum og vegna þess að þeir vildu ekki leggja frelsi sitt og fjölskyldur sínar að veði með þessum hætti. „Þetta er náttúrulega bara hræðilegt áfall. Maður veltir því fyrir sér hvaða fordæmi þetta felur í sér til framtíðar. Hvaða áhrif það hefur á öryggismenninguna og skráningar atvika og rótargreiningar?“

Mjög alvarlegt sé ef hjúkrunarfræðingar treysti sér ekki til þess í kjölfar dómsmálsins að vinna við þær aðstæður sem fyrir hendi eru. Það kæmi niður á nýliðun í greininni og þýddi að reyndir hjúkrunarfræðingar hyrfu á braut. „Til þess að geta tryggt öryggismenninguna þurfum við að hafa mönnun og það leikur sér enginn að því að byggja mönnun á yfirvinnu. Vonandi verður þetta mál til lengri tíma litið til þess að öryggismenningin verði hert til muna. Það verði trygging okkar í framtíðinni að umhverfi okkar byggi á betri öryggismenningu. En eftir sem áður eru miklar áhyggjur af því að þetta mál verði til þess að fólk treysti sér ekki til þess að vinna þessa vinnu.“

Guðríður Kr. Þórðardóttir, hjúkrunarfræðingur.
Guðríður Kr. Þórðardóttir, hjúkrunarfræðingur. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert