Grunaður fíkniefnasmyglari áfram í haldi

Ferjan Norræna.
Ferjan Norræna. mbl.is/Steinunn

Hæstiréttur staðfesti áframhaldandi gæsluvarðhaldsúrskurð yfir erlendum karlmanni sem grunaður er um stófellt smygli á fíkniefnum til landsins með húsbíl með Norrænu í september. Eiginkona hans var úrskurðuð í farbann í síðasta mánuði en hún er einnig grunuð um aðild að smyglinu.

Manninum er gert að sæta gæsluvarðhaldi til 2. desember samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Austurlands sem Hæstiréttur staðfesti í dag. Hann er grunaður um að hafa flutt inn mikið magn af efninu MDMA í húsbílnum. Efnin fundust þegar tollverðir tóku fólkið í úrtaksleit. Hann hefur játað að hafa vitað af efnunum en konan hefur neitað vitneskju um þau.

Hæstiréttur felldi úr gildi úrskurð um gæsluvarðhald yfir konunni í október. Hún var hins vegar úrskurðuð í farbann til 18. nóvember vegna rannsóknarhagsmuna. Hjónin eru bæði fædd árið 1970.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert