Mesta tjónið á beitilandi

Frá Skaftárhlaupinu í byrjun október. Hlaupið bar sand með sér …
Frá Skaftárhlaupinu í byrjun október. Hlaupið bar sand með sér um stórt svæði og mikið uppgræðsluverkefni gæti beðið Landgræðslunnar. mbl.is/RAX

Ljóst er að tjón vegna Skaftárhlaupsins í haust hefur verið upp á hundruð milljóna a.m.k. Mest munar þar um tjón á beitilandi á afréttum og uppgræðslu sem þarf að fara í eftir hamfarirnar. Ekki er enn ljóst hveru stór hluti tjónsins verður bættur, en ljóst er að ný brú verður smíðuð yfir Eldvatn þar sem hún fellur undir tryggingar Viðlagatryggingar. Þetta segir Sandra Brá Jóhannsdóttir, sveitarstjóri í Skaftárhreppi.

Landgræðslan mun í dag kynna mótvægisaðgerðir til landuppgræðslu á svæðinu, en Sandra segir að mikið tjón hafi orðið á beitilandi á afréttum þar sem allt sé þakið sandi eftir hlaupið. Segir hún að endanlegt tjón á beitarlandi og ræktuðu landi muni þó væntanlega ekki koma endanlega í ljós fyrr en næsta vor, til dæmis hvernig jarðvegurinn muni vinna úr þeim mikla sandi sem hefur borist yfir landið.

Sem fyrr segir er Eldvatnsbrúin tryggð af Viðlagstryggingum, og þá bætir Bjargráðasjóður tjón sem verður á ræktuðu landi. Það sem eftir stendur er þó óræktað land sem bændur nota meðal annars sem beitaland fyrir búfénað. Segir Sandra að hún hafi ekki heyrt frá ríkisstjórninni varðandi bein fjárframlög til að bæta þann skaða, en að komið sé vilyrði um hættumat í tengslum við Skaftárhlaup. „Við þurfum á því að halda miðað við breyttar forsendur og nýjar leikreglur ef hlaupin koma á fimm ára fresti og eru svona stór,“ segir hún.

Þá telur hún að Hamfarasjóður þyrfti að hafa það hlutverk að koma til móts við landeigendur í tilvikum sem þessum sem aðrir sjóðir nái ekki til. Að lokum segir hún að sveitarstjórnin muni áfram þrýsta á um upplýsingar um tjón vegna hlaupsins og að fjármagn fáist til vegagerðar og landgræðslu á svæðinu.

Aðspurð hvenær gera megi ráð fyrir að ný Eldvatnsbrú verði reist segir Sandra að það sé enn óljóst. Brúin varð fyrir talsverðu tjóni í hlaupinu, þótt opnað hafi verið fyrir létta umferð um hana í dag. „Það er ljóst að það verður smíðuð ný brú,“ segir Sandra og að heimamenn muni pressa á að brúarsamgöngur komist í eðlilegt horf sem fyrst. „Það er erfitt að meta tímalengdina, en fólk hefur ekki endalausa biðlund,“ segir hún, aðspurð hvenær hún eigi von á að framkvæmdir við nýja brú hefjist. Segir hún að Vegagerðin sé að meta hvort ný brú verði smíðuð á sama stað og fleiri atriði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert