Lengi haft horn í síðu RÚV

Svandís Svavarsdóttir, formaður þingflokks VG.
Svandís Svavarsdóttir, formaður þingflokks VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sérstök umræða fer nú fram á Alþingi um RÚV-skýrsluna svonefndu, þar sem fjallað er um rekstur og starfsemi Ríkisútvarpsins frá árinu 2007, en málshefjandi var Svandís Svavarsdóttir, formaður þingflokks Vinstri grænna. 

„Ríkisútvarpið hefur búið við þann veruleika í íslensku samfélagi um langt árabil að Sjálfstæðisflokkurinn hefur sérstaklega haft horn í síðu þeirrar stofnunar. Það hefur gjarnan endurspeglast í ályktunum ungliðahreyfinga Sjálfstæðisflokksins, SUS og Heimdallar, en þegar hæst hefur látið höfum við séð þess stað á landsfundum flokksins og slíkum samkomum að flokkurinn í heild hefur beinlínis ályktað með því að selja Ríkisútvarpið, leggja það niður eða með einhverju móti koma því út af kortinu,“ sagði Svandís við upphaf síns máls á Alþingi.

Benti hún því næst á að Sjálfstæðisflokkurinn hafi, fram til þessa, ekki haft víðtækan stuðning í kringum sig í þessum leiðangri. „En nú hefur borið svo við að Framsóknarmenn hafa, sumir hverjir, stigið fram og talað gegn Ríkisútvarpinu.“

Velti þingmaðurinn upp hver ástæða þess sé að óskað hafi verið eftir áðurnefndri úttekt á Ríkisútvarpinu. „Hver er ástæðan fyrir því að hér er beinlínis óskað eftir skýrslu frá innanbúðarmanni í Sjálfstæðisflokknum,“ sagði Svandís og vísar í máli sínu til eins þriggja nefndarmanna, þ.e. Eyþórs Arnalds sem fór með formennsku í nefndinni.

„Ég velti því fyrir mér hvort hæstvirtur [mennta- og menningarmála]ráðherra átti sig ekki á því að þar með er trúverðugleiki skýrslunnar fyrir bí - eins og raunar hefur komið í ljós í umræðunni, ekki bara vegna þessa heldur einnig vegna einstakra efnisþátta hennar,“ sagði Svandís.

Ræða efnisatriði - ekki manninn

Steig þá Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, í pontu til þess að veita andsvar. Sagði hann málflutning þingmannsins, um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi sérstakt horn í síðu Ríkisútvarpsins, vera „einfalda orðræðu.“

„Vegna þess að þá er í raun verið að líta svo á að markmiðið sé Ríkisútvarpið sjálft. En ég lít svo á að Ríkisútvarpið sé leið að markmiði. Ég tel þetta reyndar vera góða leið og er einn þeirra sem telur þörf fyrir ríkisútvarp, en ég er ekki þeirrar skoðunar að það sé mótað í eitt skipti fyrir öll, meitlað í stein og óbreytanlegt. Það þarf að þróa þá stofnun eins og aðrar stofnanir í ljósi þess umhverfis og þeirrar tækni sem er að breytast dag frá degi,“ sagði Illugi.

Þá vék hann einnig að athugasemdum þingmannsins er sneru að trúverðugleika skýrslunnar.

„Í nefndinni sátu þrír einstaklingar. Svanbjörn Thoroddsen, sem er þekktur fyrir sín störf á sviði fyrirtækjaráðgjafar og úttektar á rekstri fyrirtækja, embættismaður úr fjármálaráðuneytinu, sem hefur meðal annars komið að skoðun á rekstri Ríkisútvarpsins, og Eyþór Arnalds, sem hefur auðvitað heilmikla reynslu af rekstri opinberra stofnana eins og sveitarfélags. [...] Ég tel að það sé ekki til framdráttar um umræðu um Ríkisútvarpið að fara þá leiðina að segja að skýrsla sé ómarktæk og benda á einstaklinginn. Menn eiga að ræða efnisatriði þessa máls,“ sagði Illugi.

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra.
Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert