Mótmæla skerðingu almannaréttar

Í Drekagili.
Í Drekagili. mbl.is/Golli

SAMÚT, samtök útivistarfélaga, mótmæla skertum almanna- og umferðarrétti í fyrirhuguðum breytingum á náttúruverndarlögum. Samtökin segja ekki rétt að sátt ríki meðal hagsmunaaðila um breytingarnar og að það frumvarp sem nú liggur fyrir sé gjörólíkt því frumvarpi sem var til umfjöllunar þegar óskað var eftir athugasemdum.

„Í 18. grein frumvarpsins er fjallað um umferð gangandi manna. Þetta ákvæði hefur alltaf tekið nokkrum breytingum í hvert sinn sem lög um náttúruvernd eru endurskoðuð. Í fyrstu útgáfu laganna frá 1956 var réttur almennings til að ganga um náttúruna nokkuð víðtækur, en þar var heimil för um óræktað land nánast ótakmarkaður. Við endurskoðun lagana 1971 og 1999 koma hins vegar inn umtalsverðar takmarkanir á þeim rétti. Í lögunum sem samþykkt voru 2013 fékk útivistarfólk talsverða réttarbót hvað þetta varðar, en þó þannig að tekið var tillit til þarfa landeiganda við nýtingu jarða, t.d. vegna beitar eða skógræktar. Í því frumvarpi sem nú liggur fyrir er útivistarfólk hins vegar svipt þessari réttarbót með öllu og landeiganda gefinn full heimild til að banna gangandi fólki för um óræktað land á landareign sinni. Enginn tími er gefinn til umræðu og svo virðist sem frumvarpið verði keyrt með hraði í gegnum þingið,“ segir í yfirlýsingu frá SAMÚT.

Þar segir einnig að reynsla útivistarfólks af breytingum þar sem jarðir hafa í vaxandi mæli komist í eigu aðila sem búa ekki á jörðunum sýni að full þörf sé á að styrkja almannaréttinn. „Svo virðist sem alþingismenn hafi náð samstöðu um að heiglast á að bregðast við þeim málum sem upp koma vegna aukins ferðamannafjölda, en reyna að leysa málið með því að skerða almannarétt.“

Þá segir einnig í yfirlýsingunni:

„Ennfremur verður ekki hjá því komist að gera athugasemdir við þá skilgreiningu sem fram kemur í lögunum á óbyggðum víðernum. Þó útivistarfólk vilji njóta kyrrðar í náttúrunni er það krafa okkar að óbyggð víðerni séu skilgreind með þeim hætti að ekki sé lokað fyrir möguleika stórra hópa til að njóta náttúrunnar. Hér er vísað til þess að í skilgreiningu laganna á óbyggðum víðernum er gerð krafa um að vélknúin umferð sé útilokuð frá þeim svæðum sem undir þetta falla. Óhjákvæmilega þýðir það að á þeim svæðum verði slóðum lokað, öll vetrarumferð á jeppum og vélsleðum bönnuð og flugbann sett á viðkomandi svæðum. Óbyggði víðerni eru fyrst og fremst svæði sem eru laus við öll meiriháttar mannvirki og rask af völdum mannsins séu í lágmarki. Með því að tiltaka sérstaklega að þau séu einnig laus við vélknúna umferð, er ljóst að annað hvort verði settar verulegar takmarkanir á ferðalög á jeppum og vélsleðum en að öðrum kosti setur þetta verulegar takmarkanir á hvaða svæði sé hægt að skilgreina sem óbyggð víðerni. Undir öllum kringumstæðum mun það hafa neikvæðar afleiðingar fyrir náttúru landsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert