Nöfn mannanna sem létust

Hjalti Már Baldursson og Haukur Freyr Agnarsson.
Hjalti Már Baldursson og Haukur Freyr Agnarsson.

Mennirnir tveir sem létust í flugslysinu suðvestur af Hafnarfirði í gær hétu Hjalti Már Baldursson og Haukur Freyr Agnarsson. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hjalti Már, sem var búsettur í Hafnarfirði, lætur eftir sig eiginkonu og tvö börn. Haukur Freyr, sem var búsettur í Garðabæ, var ógiftur og barnlaus.

Hjalti Már og Haukur Freyr störfuðu sem flugkennarar hjá Flugskóla Íslands og hefur skólinn einnig sent frá sér fréttatilkynningu í kjölfar þess að nöfn þeirra hafa verið gerð opinber. Þar segir að Haukur hafi verið flugstjórinn í flugferðinni örlagaríku en Hjalti flugmaður.

Haukur fæddist 17. júlí 1990. Hann starfaði sem flugkennari og afgreiðslustjóri hjá Flugskóla Íslands. Hann stundaði nám í skólanum frá 2012-2015 og var útskrifaður sem atvinnuflugmaður með fjölhreyfla- og blindflugsréttindi ásamt flugkennararéttindum. Haukur var ráðinn sem flugkennari hjá Flugskóla Íslands hinn 29. maí 2015.

Hjalti Már fæddist 9. febrúar 1980. Hann starfaði sem flugmaður hjá Flugfélagi Íslands og hafði mikla reynslu sem atvinnuflugmaður. Hjalti Már var ráðinn sem kennari hjá Flugskóla Íslands í júní 2015.

„Flugskóli Íslands vottar aðstandendum mannanna sem létust í þessu hörmulega slysi sína dýpstu samúð,“ segir að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert