Vettvangsrannsókn að hefjast

Flugslys við Hafnarfjörð
Flugslys við Hafnarfjörð

Vettvangsrannsókn á slysstað hefst í birtingu en rannsóknin er vandasöm og flókin tæknilega segir Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn. Tveir flugkennarar við Flugskóla Íslands fórust þegar lítil kennsluflugvél frá skólanum brotlenti í hrauni sunnan Hafnarfjarðar síðdegis í gær.

Að sögn Margeirs hefur rannsókn á tildrögum slyssins staðið yfir frá því í gær en búast megi við því að hún taki langan tíma. Enda vandasöm rannsókn og flókin. 

Mannskapur og tæknibúnaður verður fluttur á slysstað með þyrlu Landhelgisgæslunnar en það er meira en klukkutíma gangur að slysstaðnum í úfnu hrauni. Lögreglan hefur verið með vakt í alla nótt á slysstaðnum og er vettvangur slyssins lokaður bæði á landi og í lofti.

Mennirnir sem létust eru á þrítugs- og fertugsaldri og ekki verða veittar upplýsingar um nöfn þeirra að svo stöddu.

Tilkynning barst klukkan 15.10 um að saknað væri tveggja sæta kennsluflugvélar frá Reykjavíkurflugvelli. Fjölmennt lið björgunarsveita, lögreglu, slökkviliðs og Landhelgisgæslu var sent á vettvang og svipast var um eftir vélinni úr lofti. Fannst hún tæpum hálftíma síðar, nokkra kílómetra suðvestur af Hafnarfirði. Slysið varð skammt frá Krýsuvíkurvegi. Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti björgunarsveitarmenn og rannsóknarmenn að flakinu. 

Kennurum og nemendum Flugskóla Íslands sem og Tækniskólans, sem flugskólinn tilheyrir, var boðin áfallahjálp. Ákveðið var að fella niður allt skólastarf í báðum skólunum í dag.

Flugvélin var ein af fimm nýjum kennsluflugvélum sem Flugskóli Íslands tók í notkun í sumar og haust. Þær eru ítalskrar gerðar, Tecnam.

Flugkennararnir flugu nokkra hringi yfir höfuðborgarsvæðinu eftir flugtak frá Reykjavíkurflugvelli áður en vélin tók stefnuna út á Reykjanesskagann þar sem hún brotlenti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert