Fimm falla í austurhluta Úkraínu

Petro Poroshenko (hægri) og forsætisráðherra Úkraínu Arseniy Yatsenyk (miðju) við …
Petro Poroshenko (hægri) og forsætisráðherra Úkraínu Arseniy Yatsenyk (miðju) við minningarathöfn um hryðjuverkin í París við franska sendiráðið í Kíev. AFP

Átök héldu áfram síðasta sólarhring þrátt fyrir misjafnlega stöðugt vopnahlé í austuhluta Úkraínu milli stjórnarhersins og aðskilnaðarsinna hliðholla Rússum. Fimm stjórnarhermenn féllu í skærunum sem er mesta mannfallið í tvo mánuði.

Í dag tók Petro Poroshenko, forseti Úkraínu, á móti radarbúnaði frá Bandaríkjunum sem greinir uppruna eldflauga og stórskotahríðar. Búnaðurinn er talsvert öflugri en sá sem þegar hefur verið veittur Úkraínuher og hafa yfirvöld í Kíev lengi þrýst á Bandaríkjamenn að reiða hann fram.

Bandaríkjamenn hafa þráast við og ekki viljað reiða hann af hendi af ótta við að angra Rússa. Búnaðurinn sem sendur var til Úkraínu nú er sagður hafa verið takmarkaður við Úkraínskt landsvæði og nái þannig ekki til Rússlands, að sögn Wall Strett Journal. Víst þykir að skotið hefur verið á herinn frá rússnesku landsvæði og eru Bandaríkjamenn sagðir vilja koma í veg fyrir að Úkraínuher skjóti á skotmörk innan Rússlands.

John McCain, öldungadeildarþingmaður Repúblikana, gagnrýndi seinaganginn og takmarkanirnar harðlega og sagði þær byggja á ranghugmyndum stjórnvalda um farsæla friðþægingarstefnu gagnvart Vladimir Putin, forseta Rússlands.

Pútin sjálfur varaði nýlega við því að sú hætta væri fyrir hendi að uppreisnin í austurhlutanum breyttist í frosin átök til frambúðar.

Úkraínsk vopn til sýnis. Úkraínumenn hafa legið á vestrænum þjóðum …
Úkraínsk vopn til sýnis. Úkraínumenn hafa legið á vestrænum þjóðum um að veita þeim aukna hernaðaraðstoð. AFP
mbl.is