Hugurinn hjá frönsku þjóðinni

„Maður er auðvitað bara í áfalli yfir því að þetta sé að gerast,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra í samtali við mbl.is um árásirnar í París, höfuðborg Frakklands, en hann er staddur í Singapúr. Hugurinn sé hjá frönsku þjóðinni.

„Sendráðið í París er auðvitað í viðbragðsstöðu ef það eru einhverjir Íslendingar sem þurfa á aðstoð okkar að halda og við erum að hvetja fólk til þess að láta vita af sér,“ segir Gunnar Bragi. Skiljanlegt sé að mikil reiði sé ríkjandi vegna árásanna en mikilvægt sé að reynt sé engu að síður að nálgast málið á eins yfirvegaðan hátt og hægt er.

„Þetta er náttúrulega alveg skelfilegt. En það hafa ennþá borist mjög takmarkaðar upplýsingar,“ segir Berglind Ásgeirsdóttir, sendiherra Íslands í Frakklandi, í samtali við mbl.is. Hún segir aðspurð að sendiráðið hafi verið í sambandi við franska utanríkisráðuneytið varðandi það hvort einhverjir Íslendingar hafi orðið fyrir árásunum. Það verði sennilega ekki ljóst fyrr en á morgun.

„Við erum að fylgjast með þróun mála eins og hægt er. Eins höfum við verið að reyna í gegnum Facebook-síðuna okkar að fá Íslendinga til þess að staðfesta að allt sé í lagi með þá. En það er orðið það seint að þó einhverjir láti ekki vita af sér segir það ekkert. En við höldum einfaldlega áfram að vakta stöðuna og gerum allt sem við getum í þeim efnum,“ segir Berglind.

mbl.is