Rannsókn á slysstað lokið

Ferja þurfti menn og tæki með þyrlu út í hraunið.
Ferja þurfti menn og tæki með þyrlu út í hraunið. mbl.is/Þórður

Rannsókn á vettvangi flugslyssins sunnan Hafnarfjarðar, þar sem tveir menn létust á fimmtudag, lauk í morgun. Rannsóknarnefnd samgönguslysa og tæknideild lögreglunnar unnu á vettvangi þar til í dag en flak vélarinnar hefur nú verið flutt í flugskýli rannsóknarnefndarinnar.

Ekkert liggur enn ljóst fyrir um tildrög slyssins og mun sú rannsókn að öllum líkindum taka nokkurn tíma. Vélin var mikið skemmd en í nokkurn veginn einu lagi, að sögn Margeirs Sveinsonar aðstoðaryfirlögregluþjóns.

Vélin var í kennsluflugi á vegum Flugskóla Íslands þar sem hinir látnu störfuðu sem flugkennarar. Markmið ferðarinnar var að kenna öðrum flugmanninum á vélar af gerðinni Tecnam. Vélin hafði verið á lofti yfir höfuðborgarsvæðinu í nokkurn tíma áður en hún hrapaði í hrauni sunnan Hafnarfjarðar.

mbl.is