103 skrifuðu undir yfirlýsingu í Höfða

mbl.is/Styrmir Kári

Forsvarsmenn 103 fyrirtækja og stofnanna komu í Höfða í dag til að skrifa undir yfirlýsingu um loftslagsmál. Öll hafa þau ákveðið að taka þátt og skuldbinda sig til aðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. 

Eins og sagt hefur verið frá hafa þjóðir heims sett sér markmið um að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda og hefur Ísland ásamt ríkjum Evrópusambandsins og fleirum lýst því yfir að dregið verði úr losun um 40%.

Í frétt á vef Reykjavíkurborgar kemur fram að fyrirtæki um allan heim hafa í vaxandi mæli tekið skýra afstöðu í umhverfismálum og er nefnd áskorun fyrirtækja frá 130 löndum þar sem kallað er eftir metnaðarfullum markmiðum á fyrirhugaðri loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París í næsta mánuði. Mikilvægt er að borgir og fyrirtæki taki frumkvæði.

„Á Íslandi glímum við ekki við mengandi rafmagnsframleiðslu eða húshitun líkt og margar þjóðir, heldur er ein helsta áskorun okkar mengandi samgöngur og losun úrgangs,“ segir í fréttinni.

Stefna Reykjavíkur í loftslagsmálum er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 35% fyrir árið 2020.  Stefnan var fyrst sett fram árið 2009 og er nú hluti af Aðalskipulagi Reykjavíkur. Einnig er unnið að stefnumörkun borgarinnar í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna eigin reksturs borgarinnar.

Meðal þeirra fyrirtækja og stofnanna sem taka þátt eru Alcoa Fjarðarál, Bláa lónið, Gámaþjónustan og Isavia. Listann í heild sinni má sjá hér.

Yfirlýsinguna sem skrifað var undir í dag má sjá hér að neðan.

Við undirrituð ætlum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif með markvissum aðgerðum. 

Þjóðir heims standa nú frammi fyrir afleiðingum loftslagsbreytinga. Sameinuðu þjóðirnar gegna forystuhlutverki í að greina vandann, takast á við hann og aðlagast breyttum aðstæðum.

Borgir og bæir ásamt fyrirtækjum af öllum stærðum, verða sífellt mikilvægari þegar kemur að því að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og standast þau markmið sem sett hafa verið um losun þeirra.

 Á Íslandi er ein helsta áskorunin mengandi samgöngur og losun úrgangs. Við ætlum að sýna samfélagslega ábyrgð í verki með því að:

  1. draga úr losun gróðurhúsalofttegunda
  2. minnka myndun úrgangs
  3. mæla árangurinn og gefa reglulega út upplýsingar um stöðu ofangreindra þátta.
mbl.is/Styrmir Kári
Við undirritunina í dag.
Við undirritunina í dag. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert