Elsku bur, ég er vífguma og eikynhneigð

Mannfólkið er bæði svona, hinsegin og alls konar.
Mannfólkið er bæði svona, hinsegin og alls konar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Dómnefnd hefur kveðið upp úrskurð sinn í hýryrðasamkeppni Samtakanna '78, þar sem óskað var eftir tillögum um nýyrði til að lýsa kynhneigð, kynvitund og kyntjáningu, svo og ókyngreindum frændsemisorðum. Vel á fjórða hundrað tillagna bárust en dómnefndin valdi þrettán orð sem kynnt voru í kvöld.

Í tilkynningu frá samtökunum segir að orðin séu ekki hugsuð sem endanlegt, bindandi val. Fremur sé um að ræða tillögur sem lagðar eru fram til umræðu og áframhaldandi tilraunastarfsemi. „Það er einróma álit dómnefndar að orð sem notuð eru til sjálfsskilgreiningar verði að hljóta viðurkenningu frá grasrótinni sjálfri, að hóparnir vilji sjálfir nota orðin og þyki þau viðeigandi.“

Hér fyrir neðan er að finna úrslit dómnefndar eins og þau birtast í tilkynningunni:

„Í flokknum „kyntjáning“ þóttu tvær tillögur yfir enska hugtakið „androgynous“, skara fram úr:

Dulkynja þótti dómnefnd knappt og gagnsætt orð sem lýsir því á einfaldan máta þegar kyn einstaklings er ekki augljóst.

Vífguma var að mati dómnefndar falleg og ljóðræn íslenskun sem vísar í samtvinnun karl- og kvenlegra eiginleika.

Í flokki ókyngreindra frændsemisorða stóðu eftirfarandi orð upp úr:

Kærast – yfir kærasti/kærasta. Orðið er þegar komið í einhverja notkun. Dómnefndin leggur til að með hliðstæðum hætti mætti mynda orðið „unnust“ fyrir trúlofaða einstaklinga.

Bur – sonur/dóttir. Orðið „bur“ er fornt í málinu, upprunalega í karlkyni, og merkti þá sonur. Það er af sama stofni komið og „að bera“ og „barn“ og er ekki bundið karlkyni nema málfræðilega. Orðið fellur haganlega að hvorugkynsbeygingum (bur-bur-buri-burs) og má því auðveldlega taka upp í nýju málfræðilegu kyni.

Í flokki kynhneigðar spannst upp nokkur umræða um mögulegar þýðingar á hugtakinu „asexual“. Einkum voru tvær tillögur sem þóttu koma til greina: eikynhneigður og ókynhneigður. Hið síðarnefnda notar hið algenga forskeyti ó- og er að því leyti bein hliðstæða við ensku fyrirmyndina. Fyrri tillagan þótti forðast þann neikvæða blæ sem er á „ó“-forskeytinu og kallast hljóðfræðilega á við ensku fyrirmyndina.

Fimm ensk hugtök í flokknum „kynvitund“ þóttu mynda hugtakafjölskyldu sem vert væri að þýða á skyldan máta: non-binary, agender, bigender, pangender, og genderfluid.

Í flokkunum bigender og genderfluid bárust skyldar tillögur sem dómnefnd þóttu sérlega áhugaverðar: tvígerva og flæðigerva. Þessar tillögur byggja báðar á viðskeytinu -gerva og vísa í orðið kyngervi (e. gender). Viðskeytið -gerva hefur að auki þann kost að það kynbeygist ekki, sem er vel við hæfi þar sem verið er að fjalla um frávik frá kynjatvíhyggjunni. Þessi orð þóttu skara fram úr í sínum flokkum og gefa fordæmi um mögulega orðmyndun í öðrum flokkum. Sem dæmi myndaði dómnefndin orðin algerva (pangender), frjálsgerva (non-binary) og eigerva/ógerva (agender) að sömu mynd og með vísun í aðrar álitlegar tillögur sem bárust í þeim flokkum.“

Dómnefndina skipuðu:

Ágústa Þorbergsdóttir, málfræðingur (Málræktarsviði Árnastofnunar)

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands

Guðmunda Smári Dísuson Veigarsdóttir, fyrir hönd Kynsegin Íslands

Gyða Margrét Pétursdóttir, lektor í kynjafræði við Háskóla Íslands

María Helga Guðmundsdóttir, þýðandi

Setta María, trúnaðarráði Samtakanna '78

Sonja Bjarnadóttir, meðstjórnandi í Q-félagi hinsegin stúdenta

Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, varaformaður Trans Íslands

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert