Lykilvitnið sem samdi við sérstakan

Magnús Pálmi Örnólfsson, yfirgefur dómsalinn í dag.
Magnús Pálmi Örnólfsson, yfirgefur dómsalinn í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Magnús Pálmi Örnólfsson, fyrrum yfirmaður eigin viðskipta Glitnis, bar í dag vitni gegn fyrrum yfirmanni sínum í bankanum í Stím-málinu svokallaða. Magnús hefur fengið friðhelgi frá lögsókn í málinu frá ríkissaksóknara með að hafa látið saksóknara fá upplýsingar sem leitt geti til sönnunar í málinu. Sagðist hann hafa gengið langt til að verja yfirmanninn, en svo ákveðið að leggja öll spilin á borðið þegar ekki var hægt að verja kaup sjóðs sem hann stýrði á skuldabréfi félagsins Stím, sem meðal annars er ákært fyrir í málinu.

„Þurfi að fara að hugsa um sjálfan mig“

„Þetta var bara búið, þurfti að fara að hugsa um sjálfan mig,“ sagði Magnús þegar hann var spurður af saksóknara um ástæðu þess að hann breytti um framburð í málinu og lagði upplýsingar í málinu fyrir sérstakan saksóknara.

Samkvæmt 5. grein laga um embættið hefur ríkissaksóknari heimild til að falla frá saksókn ef einstaklingur leggur til upplýsingar eða gögn sem talin eru líkleg til sakfellingar í málinu. Magnús sagði við yfirheyrslur að hann hafi sjálfur átt frumkvæðið af því að koma með upplýsingarnar til saksóknara og að hann hafi ekki vitað hvort slíkt gæti virkjað þessa ívilnun eða ekki. Þá hafi hann heldur engan samning þar um. Í dag er hann með stöðu sakbornings í öðru máli embættisins sem varðar markaðsmisnotkun. Sagðist hann ekki vita hver afstaða saksóknara til sín í því máli væri.

Keypti bréfin samkvæmt fyrirmælum yfirmannsins

Magnús stýrði sjóðnum GLB FX sem var aðallega í gjaldeyrisviðskiptum, en í Stím-viðskiptunum keypti hann skuldabréf sem var gefið út af félaginu fyrir um milljarð króna fyrir GLB FX og er aðalatriðið í þriðja hluta ákærunnar. Sagði hann fyrir dómi að það hafi verið gert samkvæmt fyrirmælum yfirmanns síns, Jóhannesar Baldurssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra markaðsviðskipta Glitnis.

Lýsti hann aðdraganda viðskiptanna nákvæmlega í yfirheyrslunni. Sagðist hann hafa fengið símtal meðan hann var í veiði fyrri hluta árs 2008 þar sem Jóhannes sagði að hann ætti að kaupa bréfið af Saga Capital, sem þá var eigandi skuldabréfsins. Sagði Magnús að í símtalinu hafi komið fram að á bakvið þetta væri loforð um að Saga ætti að fá greitt í viðskiptunum.

„Ekki minn business“

Lýsti Magnús því að þegar hann hafi skoðað hugmyndina betur hafi hann séð að þetta væri mjög slæmur samningur og því ekki viljað gera hann. Þá hafi skuldabréfaviðskipti ekki verið á hans sérsviði, „ekki minn business að kaupa svona bréf,“ sagði hann.

Hann hafi í byrjun hummað af sér allar hugmyndir um að hann keypti þessi bréf, en svo var orðið ljóst að mikill þrýstingur var í lok ágúst 2008 á Jóhannes að hann myndi kaupa þessi bréf. Sagði hann að það hafi verið óvanalegt í samskiptum hans og Jóhannesar að þeir tækjust á varðandi viðskipti og hann hafi sagt honum að þetta væri „langt yfir strikið.“ Þannig hafi Magnús spurt Jóhannes hvað þeir ættu að gera þegar þeir yrðu teknir fyrir viðskiptin og að Jóhannes hafi svarað því þannig til að það þyrfti þá bara að benda á sig.

„Engar viðskiptalegar forsendur“

Tók Magnús það fram að engar hótanir hafi verið í málinu og að auðvitað hafi hann getað gengið út, hann hafi þó að endingu látið undan og keypt skuldabréfin. Aðspurður um fyrirmæli frá Jóhannesi sagði hann augljóst að þarna hafi verið um að ræða viðskipti sem áttu að gerast og ekkert mat hafi verið gert á þeim. Jóhannes hafi gert honum grein fyrir því hversu „hrikalega mikilvægt“ þetta væri fyrir bankann í heild. „Ég ætti bara að taka one for the team,“ sagði Magnús um stöðu sína í þessu máli, en á þessum tíma bjóst enginn við að bankarnir myndu hrynja og sagði hann að þegar land tæki að rísa á ný mætti vinna til baka stöðuna. Viðskiptin sem slík hafi þó verið slæm hugmynd frá upphafi. „Voru engar viðskiptalegar forsendur, ekki af minni hálfu,“ sagði hann og bætti við að bréfin hafi verið verðlítil í sínum augum.

Eftir fyrstu yfirheyrslu hjá sérstökum saksóknara sagði Magnús að sér hefði liðið eins og hún gengi vel. Önnur yfirheyrslan hafi aftur á móti gengið verr og í raun hafi hann verið komið út í horn. „Var ekki hægt að verja kaupin á þessu skuldabréfi,“ sagði hann og að í framhaldi af því hafi hann ákveðið að „hætta þessu rugli“ og farið á fund hjá saksóknara þar sem hann vildi leggja spilin á borðið.

Á fundi með sérstökum hafi hann óskað eftir friðhelgi ef það væri mögulegt, en að það hafi ekki verið skilyrði, „enda ekki beint staðan mín“ að semja um slíkt, sagði hann.

Jóhannes Baldursson mætir í réttarsal í gær.
Jóhannes Baldursson mætir í réttarsal í gær. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert