Auglýsa drög að nýbyggingu SÁÁ

Hér má sjá frumdrög að útliti húsanna á Kjalarnesi.
Hér má sjá frumdrög að útliti húsanna á Kjalarnesi. Teikning/SÁÁ

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar hefur auglýst tillögu að breyttu deiliskipulagi vegna stækkunar meðferðarheimilisins Víkur á Kjalarnesi. Frumdrög að útliti húsanna eru hér sýnd á mynd.

Fram kemur í tilögunni að núverandi byggingar voru byggðar árið 1991 og er stærð þeirra alls 846 fermetrar. Heimilt er að byggja innan reitsins 1-3 samtengdar byggingar. Hámarksgólfflötur allra mannvirkja skal vera 3.500 fermetrar.

Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ, segir áformað að hefja framkvæmdir í byrjun næsta árs. Vonir séu bundnar við að nýju mannvirkin verði tilbúin árið 2017, eða á 40 ára afmæli SÁÁ sem var stofnað 1977.

Arnþór segir að það verði að jafnaði 40 karlar og 20 konur í áfengismeðferð í Vík. Skýr kynjaskipting verði meðal sjúklinga.

Hætta starfsemi á Staðarfelli

Arnþór segir að samhliða því að ný mannvirki verða tekin í notkun í Vík muni SÁÁ hætta starfsemi á Staðarfelli á Fellsströnd. Þar er nú meðferð fyrir 30 sjúklinga. Með flutningi sjúklinga til Víkur árið 2017 munI þessi tvö meðferðarheimili SÁÁ sameinast í eitt.

Arnþór segir sjúklingum ekki munu fjölga við þessa flutninga. Heildarfjöldinn í Vík eftir sameininguna verði nokkurn veginn sá sami og er nú á báðum stöðum. Arnþór segir húsnæðið í Staðarfelli barn síns tíma, en það var áður húsmæðraskóli. Það henti til dæmis hvorki hreyfihömluðum né fötluðum. Nýju mannvirkin verði hins vegar sérstaklega hönnuð sem meðferðarheimili.

Arnþór segir fjáröflun SÁÁ verða nýtta í þágu þessarar uppbyggingar.

Áætlaður kostnaður við mannvirkin í Vík er 800 milljónir króna. 

mbl.is