Hefur afnám sykurskatts skilað sér til neytenda?

Frá því í október 2014 þar til nú hefur verð …
Frá því í október 2014 þar til nú hefur verð sykurs lækkað um 55%.

Vörugjöld af sykri, svonefndur sykurskattur var afnuminn um síðustu áramót. Á sama tíma var virðisaukaskattur á matvöru hækkaður úr 7% í 11%. Áhrif breytinganna voru misjöfn eftir vörum allt eftir því hve mikinn sykur/sætuefni viðkomandi vara innihélt og hvert verð hennar var í upphafi, segir í ítarlegri samantekt verðlagseftirlits ASÍ um málið.

Dæmi um sætar mat- og drykkjarvörur sem báru vörugjald (sykurskatt)

  • Sykur, molasykur, púðursykur o.þ.h. – 210 kr./kg.
  • Gosdrykkir – 21 kr./l.
  • Ís – 32 kr./l.
  • Sultur, grautar, ávaxtamauk – 210 kr./kg. af viðbættum sykri
  • Kex og sætabrauð - 210 kr./kg. af viðbættum sykri
  • Súkkulaði og sælgæti - 210 kr./kg. af viðbættum sykri
  • Sætar mjólkurvöru - 210 kr./kg. af viðbættum sykri
  • Sætt morgunkorn - 210 kr./kg. af viðbættum sykri

Verðlagseftirlitið áætlaði að vöruflokkurinn sykur, súkkulaði, sælgæti o.fl. myndi lækka u.þ.b. um 10% að meðaltali, en í honum eru allar ofantaldar vörur nema sætar mjólkurvörur og morgunkorn.

Samkvæmt vísitölu neysluverð þá lækkaði vöruflokkurinn hins vegar aðeins um 4,6% á tímabilinu ágúst 2014 til október 2015. Þetta er mun minni lækkun en verðlagseftirlitið áætlaði.

Á línuritinu sem fylgir þessari frétt má sjá hvernig verðið breytist á milli mánaða á 14 mánaða tímabili eða frá því í ágúst 2014 þegar stjórnvöld tilkynntu fyrirhugaðar breytingar. Eins og sjá má verður örlítil lækkun strax í upphafi og svo enn meiri lækkun í kringum áramótin en frá nóvember 2014 fram í febrúar 2015 lækkaði verðið í vöruflokknum um 5,5%. Þegar rýnt er enn frekar í undirflokka vöruflokksins má sjá mikinn mun á því hvernig verð ólíkra vara þróast á þessu tímabili.

Sultur lækkað um 15,3% í verði en sælgæti hækkað

Frá því í október 2014 þar til nú hefur verð sykurs lækkað um 55%. Sem er í samræmi við áætlun verðlagseftirlitsins.

Þegar rýnt var í undirflokkinn sultur, marmelaði og hunang má sjá 15,3% lækkun á verði frá því í október 2014 þar til nú í október 2015. Þetta eru vörur sem innihalda oftast að lágmarki um 50% sykur. Þessar vörur hafa því að mestu lækkað í samræmi við áætlanir verðlagseftirlitsins.

Undirflokkurinn súkkulaði lækkaði aðeins um 1,3% frá nóvember 2014 þar til í febrúar 2015. En þegar árið var skoðað í heild mátti sjá að vöruflokkurinn hækkaði í verði fyrst eftir tilkynningu stjórnvalda um afnám sykurskatts lækkaði svo aðeins í verði fram í febrúar 2015. Síðustu 12 mánuði hefur súkkulaði hækkað í verði um 1,3%. Súkkulaði inniheldur töluvert mikinn sykur og þar af leiðandi mátti gera ráð fyrir um 2-4% lækkun á verði vörunnar að öðru óbreyttu. Sú lækkun hefur ekki gengið eftir, segir í samantekt ASÍ.

Ótrúlegt en satt þá hefur sælgæti hækkað í verði á milli ára eða um 2,8% frá því í október í fyrra. Frá áramótum er nánast stöðug hækkun.

Frá því í ágúst 2014 hefur verð á ís lækkað um 5,3%, sem er í samræmi við áætlanir verðlagseftirlitsins.

Samspil verðs og magn sykurs í vöru

Að lokum vill verðlagseftirlitið benda á reiknivél sem opnuð var um áramótin, sjá hér. Þar má sjá með einföldum hætti hvernig verð vöru ætti að breytast miðað við magn sykurs og verðs. Sjá dæmi hér að neðan um 200 gr. af sælgæti sem inniheldur 100 gr. af sykri eða sætuefni. En sjá má að því ódýrari sem varan er, því meiri lækkun hefði viðkomandi vara átt að lækka hlutfallslega.  

Á línuritinu má hvernig verðið breytist á milli mánaða á …
Á línuritinu má hvernig verðið breytist á milli mánaða á 14 mánaða tímabili eða frá því í ágúst 2014 þegar stjórnvöld tilkynntu fyrirhugaðar breytingar. Grafík/ASÍ
mbl.is

Bloggað um fréttina