„Algjörlega venjulegt kynlíf“

Stúlkan segist hafa reynt að ýta mönnunum frá sér. Það …
Stúlkan segist hafa reynt að ýta mönnunum frá sér. Það hefði ekki dugað að hrópa á hjálp. Það hefði enginn heyrt kallið. Kristinn Ingvarsson

Hann hafði drukkið 1-2 bjóra um kvöldið. Aðeins sex voru eftir í partíinu, fimm piltar og ein stúlka. Hann var úti á svölum að fá sér ferskt loft þegar annar piltur kallaði á hann og bað hann að koma og sjá hvað væri að gerast. 

Það sem var að gerast var þetta: Tveir piltar voru „í kynlífi“ með stúlkunni. Þrír áttu eftir að bætast við. „Algjörlega venjulegt kynlíf“ eins og pilturinn orðaði það. Ekkert hafi gefið til kynna að eitthvað óeðlilegt eða að nauðgun væri að eiga sér stað. Pilturinn sem að kom var hvattur til að taka þátt. „Vertu með,“ segir hann stúlkuna hafa sagt. Og hann tók þátt.

Þetta er meðal þeirra lýsinga sem finna má í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem sýknaði í gær fimm pilta af hópnauðgun í Breiðholti á síðasta ári.

Í framburði þessa tiltekna pilts kom fram að enginn hefði þvingað stúlkuna, sem var á þessum tíma sextán ára, til neins. Á ákveðnum tímapunkti hafi allir piltarnir sem voru inni í herberginu skipst á að hafa kynmök við hana. 

Framburður hinna piltanna er sambærilegur. Enginn hafi þvingað stúlkuna til neins. 

Gengu í skrokk á sextán ára stúlku

Það eru engin áhöld um að atburðurinn átti sér stað en það eru áhöld um samþykki og það ræður úrslitum,“ skrifar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra og nú starfsmaður UN Women, á Facebook-síðu sína um sýknudóminn. „En hvernig má það vera að það sé ekki skilgreint sem ofbeldi þegar fimm strákar bókstaflega ganga í skrokk á 16 ára stelpu og taka sig saman um að ríða henni?“ spyr Ingibjörg. Hún segir að í starfi sínu fyrir UN Women sé ofbeldi gegn konum daglegt viðfangsefni, „svo ég er ýmsu vön en ég er samt gráti næst eftir að hafa séð fréttina af sýknudómnum yfir þessum fimm strákum.“

Í yfirlýsingu sem móðir stúlkunnar sendi frá sér í gær sagði m.a.: „Ef það er ein­hver hér á landi sem ef­ast um að glæp­ur hafi verið fram­inn þá þarf það að koma fram að eng­in ung­lings­stúlka und­ir áhrif­um áfeng­is hef­ur sam­ræði við 5 ókunn­uga menn í einu af fús­um og frjáls­um vilja. [...] Ef þú ert núm­er fimm í röðinni get­ur þú bókað að um nauðgun er að ræða.“

Spurningin sem margir spyrja nú er hvers vegna fimm ungum piltum þyki það „algjörlega venjulegt“ að hafa kynmök við stúlku samtímis. 

Ákæran í hnotskurn

Piltarnir fimm, sem voru 16-18 ára er atvikið átti sér stað, voru ákærðir fyrir að hafa í sameiningu haft kyn­­ferðis­mök við stúlkuna, að hluta þar sem fleiri en einn áttu kynferðismök við hana í einu á sama tíma, með því að beita hana ofbeldi og annars konar ólög­mætri nauð­­ung, og með þessu að hafa jafnframt sýnt af sér ósið­legt og rudda­legt athæfi.

Svo segir í ákærunni: Ákærðu létu [stúlkuna] leggjast niður og beittu hana harð­ræði, meðal annars með því að höfði hennar var haldið um stund og lagst var yfir það, ól var spennt um læri hennar og [einn ] ákærði beit í aðra geirvörtu hennar. Ákærðu not­færðu sér yfir­burða stöðu og aðstöðu­mun gagn­vart [stúlkunni] vegna líkam­­­legra afls­­­­muna og að hún var ein og mátti sín lítils gegn þeim í lokuðu og myrkvuðu her­bergi, lömuð af hræðslu og fjarri öðrum á ókunn­­ugum stað.“

Fram kemur í ákærunni að fjórir piltanna höfðu samræði við stúlkuna, þrír þeirra létu hana fróa sér, allir settu þeir kyn­færin í munn hennar, „að hluta svo þrengdi að öndunarvegi hennar.“

Niðurstaðan í hnotskurn

Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur, sem var fjölskipaður í málinu segir m.a.: „Með vísan til framburðar ákærðu, vitnisburðar þeirra sem sáu myndbandið í heild og til vitnisburðar þeirra sem báru um afstöðu og frásögn [stúlkunnar] eftir hina meintu nauðgun, er það mat dómsins, að vitnisburður hennar um andstöðu sína við því sem fram fór og hvernig hún kveðst hafa gefið ákærðu hana til kynna sé ótrúverðugur.“

Þá segir: „Það er mat dómsins að hvorki gögn um skoðun á neyðarmóttöku né önnur gögn málsins, svo sem vitnisburður, styðji vitnisburð [stúlkunnar] þannig að unnt sé að leggja hann til grundvallar niðurstöðunni, gegn eindreginni neitun allra ákærðu frá upphafi [...] Vitnisburður [stúlkunnar] fær því ekki næga stoð af öðru því sem fram er komið í málinu til að unnt sé að leggja hann til grundvallar niðurstöðunni gegn eindreginni neitun ákærðu.

Samkvæmt þessu er ósannað að ákærðu hafi gerst sekir um háttsemina sem í þessum ákærulið greinir og ber að sýkna þá.“

Missti tök á aðstæðunum og fraus

Stúlkan sagði í sínum framburði að hún hefði reynt að ýta piltunum frá sér. Einn þeirra, strákur sem hún hafði kysst og átt í kynferðislegum samskiptum við af fúsum og frjálsum vilja fyrr um kvöldið, hefði boðið hinum strákunum að vera með, án þess að spyrja hana. Fyrir dómi var hún m.a. spurð hvort að hún hefði verið þvinguð til að opna munninn. Samkvæmt framburði hennar er ljóst að hún man ekki málsatvik í smáatriðum. Hún kvaðst hafa verið bitin í geirvörtuna en veit ekki hver þeirra gerði það. Hún sagðist hafa verið slegin með belti í lærið en mundi ekki hver þeirra var að verki. Hún kvaðst hafa reynt að ýta þeim öllum frá sér en að hún hafi síðan misst tök á aðstæðunum, frosið og ekki vitað hvernig hún ætti að bregðast við. Hún hefði verið hrædd en herbergið var myrkvað. Hún hafi vitað að þau væru ein í íbúðinni og því ekki komið til álita að kalla á hjálp.

Enginn hefði heyrt í henni þótt hún kallaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert