Skoða að taka upp þjónustugjöld

Seljalandsfoss.
Seljalandsfoss. mbl.is/Ómar Óskarsson

Nokkrir landeigendur og ferðaþjónustuaðilar á fjölsóttum ferðamannastöðum við suðurströnd landsins áttu nýlega fund með sveitarstjórum til að ræða aðbúnað og þjónustu við ferðamenn á svæðinu.

Á fundinum var ákveðið að skoða til hlítar þá hugmynd að nota bílastæðagjöld, eða þjónustgjöld, til að fjármagna uppbyggingu á svæðunum og fara sameiginlega í viðræður við aðila umheildarlausn.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá landeigendum, sem m.a. hafa með að gera Seljalandsfoss, Skógafoss, Sólheimajökul, Dyrhólaey og Reynisfjöru.

Tilkynningin í heild:

„Nokkrir landeigendur og ferðaþjónustuaðilar á fjölsóttum ferðamannastöðum á suðurströndinni boðuðu til fundar með sveitarstjórum til að ræða aðbúnað og þjónustu við ferðamenn á fjölsóttum ferðamannastöðum á svæðinu.  Brýnt er að fara í mikla uppbyggingu á svæðinu öllu til að hægt sé á sómasamlegan hátt að taka á móti öllum þeim ferðamönnum sem sækja svæðin heim og það verður ekki gert án verulegs kostnaðar.

Um fjarmögnun slíkra verkefna hefur verið deilt á undanförnum árum og þar rætt um innkomugjald, hærra gistináttagjald, náttúrupassa o.fl. án þess að niðurstaða fengist.

Landeigendur geta ekki beðið lengur eftir úrlausn þessara mála, þar sem enn er búist við verulegri aukningu ferðamanna á næstu árum, verður strax að grípa til aðgerða. 

Á fundinum var ákveðið að skoða til hlítar þá hugmynd að nota bílastæðagjöld (þjónustugjöld) til fjármögnunar á uppbyggingu á svæðunum og fara sameiginlega í viðræður við aðila um heildarlausn þeirrar hugmyndar.  Jafnframt verði unnið að gerð þjónustusamninga milli ferðaþjónustuaðila og langdeigenda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert