Bíða marga mánuði eftir aðstoð

Það er oft margra mánaða bið eftir þjónustu sálfræðinga í …
Það er oft margra mánaða bið eftir þjónustu sálfræðinga í skólakerfinu. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Um 20% íslenskra barna glíma við geðræn vandamál og þetta er vandamál sem hefur verið þekkt áratugum saman. Samt vantar mikið upp á að þeim sé sinnt og það getur verið margra mánaða bið eftir sálfræðiaðstoð í skólum.Þetta segir Wilhelm Norðfjörð, sálfræðingur, en hann flutti erindi á fundi samtakanna Náum áttum um sálfræðiþjónustu skóla.

Hann segir að gríðarlega margt hafi áunnist þegar kemur að aðstoð við börn sem glíma við lestrarörðugleika og börn með ADHD. „En að mínu mati sitja börn með tilfinningalegan vanda eftir,“ segir Wilhelm og segir að Ísland hafi ekki staðið sig nægjanlega vel þegar kemur að þessum vanda sem mörg börn glíma við.

Þunglyndi er að aukast verulega hjá ungu fólki

Því var spáð af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) árið 1999 að þunglyndi yrði í öðru sæti yfir heilbrigðisvandann í heiminum árið 2020. En því miður er þunglyndi komið í það sæti nú þegar eða mun fyrr en talið var.

„Rannsóknir hafa sýnt að þunglyndi er að aukast verulega hjá ungu fólki og að börn sem verða kvíðin á grunnskólaaldri verða gjarnan þunglynd um 18-20 ára aldurinn eða þegar þau eru kannski langt komin með framhaldsskólann,“ segir Wilhelm og bendir á að á sama tíma eru allt of algengt að ungt fólk svipti sig lífi.

Lestrarkunnátta skildi milli bekkja fyrir tossa og góða nemendur

Hann lýsti eigin skólagöngu en þegar hann hóf nám í Melaskóla árið 1957 var enn raðað í bekki eftir lestrarkunnáttu svo móðir hans fór með hann í lestrarkennslu árið á undan sem skilaði þeim árangri að hann var settur í bekki fyrir góða nemendur. „Móðir mín var að tryggja mér sæti í góðum bekk,“ segir Wilhelm.

Wilhelm Norðfjörð sálfræðingur
Wilhelm Norðfjörð sálfræðingur

Á þessum tíma voru átta bekkir í Melaskóla og einhverjir þeirra þóttu vera tossabekkir. Á þessum tíma voru barsmíðar að detta út úr íslensku skólakerfi og því var kennaraprikinu aldrei beitt á nemendur segir Wilhelm.

Þegar leið á barnaskólaárin hjá Wilhelm fór að  bera á því að hugmyndir atferlissálfræðingsins Skinner fóru að síast inn í skólastarfið og viðurkenningar- og skammarskjöl voru skrifuð og send heim með börnunum til undirritunar foreldra.

„Ég bjó á þessum tíma við gott öryggi. Mamma var alltaf heima og foreldrar mínir eins og aðrir foreldrar í götunni höfðu komist í álnir að hluta til vegna áhrifa af heimstyrjöldinni síðari.  Við hliðina á Víðimelnum, þar sem ég átti heima, var Camp Knox braggahverfið sem við krakkarnir á Víðimelnum máttum alls ekki koma inn í. Enda voru reistar tveggja metra háar víggirðingar við garðana sem snéru að Camp Knox og sumstaðar var gaddavír ofan á svo við værum alveg örugg,“ segir Wilhelm.

Kamparar voru fordæmdir og fatlaðir voru kallaðir aumingjar

Á þessum tíma var viðvarandi húsnæðisskortur í Reykjavík og þurftu því margir að nýta sér þennan slaka húsakost í bröggunum.

„Kampararnir voru fordæmdir. Eins og fatlaðir sem voru kallaðir aumingjar. Maður sagði kannski þegar maður kom heim: Ég sá aumingja í dag,“ segir Wilhelm.

Hann segir að margir af krökkunum sem bjuggu í braggahverfinu hafi farið í Melaskóla en ólíklegt sé að þau hafi farið í lestarkennslu líkt og hann gerði. „Þess vegna fóru þau í svokallaðan tossabekk.“

„Þá erum við aftur komin að árinu 1956 þegar það …
„Þá erum við aftur komin að árinu 1956 þegar það voru forréttindi að komast í góðan bekk. Það eru því forréttindi að fá kvíða- og þunglyndismeðferð fyrir börnin okkar. Til þess þarf peninga en ekki síður skilning á mikilvægi meðferðar,“ segir Wilhelm Norðfjörð sálfræðingur mbl.is/Kristinn

Eitthvað hafa stjórnvöld verið farin að gera sér grein fyrir að ekki væri réttlátt að láta lestrarkunnáttu við sjö ára aldur marka líf svo margra,segir Wilhelm. Því var brugðið á það ráð að leggja hópskimunargreindarpróf fyrir nemendur þegar þeir fóru úr Melaskóla yfir í Hagaskóla.

„Viti menn þá fóru að koma nemendur úr tossabekkjunum yfir í góðu bekkina,“ segir Wilhelm.

Hópmeðferð hjá Volvo, geðdeildum og skólum

Á þessu tímabili fóru hagsmunir atvinnuveganna, að sögn Wilhelms, að breytast. Á sjöunda áratugnum fóru til dæmis Volvo-verksmiðjurnar að láta verkamenn sína vinna í hópum og hópar fóru að verða ábyrgir fyrir hluta af framleiðsluferli sínu. Hópmeðferð hófst á geðdeildum og hópvinna var í skólum. „Meira að segja í Mýrarhúsaskóla voru sérsmíðuð hópvinnuhúsgögn,“ segir Wilhelm.

„Það kom sem sé að því að atvinnuvegirnir þurftu meira af menntafólki. Þar var ég heppinn. Því það þýddi að ég þurfti ekki að vera alhliða námsmaður til þess að vera stúdent. Menn eins og ég með leshömlunarvanda, hljóðvilltur og lélegur í stafsetningu  og með tungumálakunnáttu í lamasessi gat komist alla leið.“

Sálfræðingar þóttu skrýtnir

Menntaskólum fjölgaði á sama tíma og atvinnulífið þurfti á fjölbreytti flóru að halda, fólki með frjóa hugsjónir og hugmyndir.

„Þú stóðst ekki lengur við færibandið og gerðir það sem verkstjórinn sagði þér að gera. Skólarnir breyttust og sálfræðingar fóru að dúkka upp í samfélaginu. Þeir þóttu ansi skrýtnir og voru til að mynda huldumenn sem voru fengnir til að skoða eitt og eitt mál í skóla. Stærri sveitarfélög fóru að nýta sér þjónustu sálfræðinga í auknu mæli en skólafólk hafði lengi barist við að fá að nýta sér þjónustu þeirra.“

Vel hefur verið tekið á einelti í skólum en hvað …
Vel hefur verið tekið á einelti í skólum en hvað með börn með tilfinningalegan vanda? spyr Wilhelm Norðfjörð sálfræðingur mbl.is/Styrmir Kári

Árið 1974 voru sett ný grunnskólalög sem fengu afl og orku frá framsæknu tímabili frá árinu 1966 þegar áhrifa rokktónlistar og stúdentauppreisna voru sem mest, segir Wilhelm.

„Nú átti að vera sálfræðiþjónusta í öllum skólum og það þótti heppilegt að hvert stöðugildi sálfræðings sinnti þúsund börnum. Þeir áttu að sinna meðferð, greiningu og fræðslu. Sálfræðideildar voru settar upp sem hluti af fræðsluskrifstofum og dreifðust um allt landið, segir Wilhelm.

Hann segir að margt hafi breyst til hins betra í skólakerfinu frá þessum tíma. Til að mynda lestrarkennsla og aðstoð vegna lestrarörðugleika. Virðing er borin fyrir nemendum og foreldrum. Einelti er viðurkenndur vandi sem var byrjað að sinna fyrir árið 1980 og við erum búin að finna ADHD börnin okkar og farin að sinna þeim, segir Wilhelm.

Erum komin aftur að 1956 hvað varðar forréttindahópa

„Árið 1984 var komin sálfræðiþjónusta um allt land. Á tíunda áratugnum var ákveðið að taka út ákvæðið um að sálfræðingar  sinntu meðferð í skólum. Hvað sálfræðingar sinntu  mörgum börnum virtist verða tilviljanakennt. Smám saman þróaðist þetta í það að greiningar urðu aðalstarf sálfræðinga. Sumar sálfræðingar sinna hátt í tvö þúsund börnum í dag,“ segir Wilhelm.

Hann segir að í dag sé staðan sú að oft þurfi að bíða marga mánuði eftir meðferð á sálfræðideildum og foreldrum barna sem glíma við kvíða og þunglyndi jafnvel ráðlagt að fara út í bæ og leita aðstoðar fyrir börn sín.

„Þá erum við aftur  komin að árinu 1956 þegar það voru forréttindi að komast í góðan bekk. Það eru því forréttindi að fá kvíða- og þunglyndismeðferð fyrir börnin okkar. Til þess þarf peninga en ekki síður skilning á mikilvægi meðferðar,“ segir hann.

Að sögn Wilhelms væri gott að byrja á því að setja meðferðarákvæði inn á ný hjá sálfræðideildum og eins að ekki væru yfir þúsund börn á hvert stöðugildi sálfræðings.

Þjóðin hamingjusöm með banka í hjarta og byggingarkrana í höndum

Á fundinum ræddi Wilhelm hugmynd sem hann fékk árið 2007 en fékk ekki framgang meðal sveitarstjórnar- og embættismanna um að byggja upp svokallaða „ brosandi skóla“ sem fengju brosandi fána fyrirmynd grænfánans. Þar gætu skólar markvisst með skipulögðum hætti byggt upp aðstæður þar sem tekið væri á tilinningalegum aðstæðum.

„En þetta var árið 2007 þegar þjóðin var svo hamingjusöm með banka í hjarta og byggingarkrana í höndum. Þessi hugmynd um brosandi skóla var kynnt nokkrum embættismönnum og sveitarstjórnarmönnum en þótti ekki þörf á þar sem öllum liði svo vel.

Ætli foreldrar vildu ekki skóla með brosandi fána þar sem yfirlýsingu um að allt væri gert sem unnt er til þess að tryggja að börnum liði vel í skólanum?

Það hefur margt breyst í skólakerfinu en svo virðist sem …
Það hefur margt breyst í skólakerfinu en svo virðist sem börn sem glíma við kvíða hafi orðið útundan. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

 En nú er 2015 og það er meiri skilningur almennt á því að það þurfi að hlúa að börnum með tilfinningavanda og ég finn mikla breytingu hjá foreldrum sem gera auknar kröfur um að fá sálfræðiþjónustu og meðferð fyrir sín börn,“ segir Wilhelm og fengu hugmyndir hans um brosandi skóla og brosfána mikinn hljómgrunn meðal fundargesta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert