Fjárstyrkur fremur en leiga

Inngangurinn að salarkynnum Menningarsetursins í Ýmishúsinu.
Inngangurinn að salarkynnum Menningarsetursins í Ýmishúsinu. mbl.is/Árni Sæberg

Menningarsetur múslima leigir 1.169,9 fermetra atvinnuhúsnæði á 10 þúsund krónur af Stofnun múslima á Íslandi ses. Stofnunin tók á móti rúmlega 1,25 milljóna Bandaríkjadala fjárstyrk frá Sádi-Arabíu í desember 2014, fáeinum mánuðum áður en sendiherra landsins tilkynnti forseta Íslands að ríkið hygðist gefa slíka fjárhæð til byggingar mosku hér á landi.

Húsnæðið sem um ræðir er Skógarhlíð 20, betur þekkt sem Ýmishúsið. Hefur Menningarsetrið leigt húsið af stofnuninni frá árinu 2013 og gildir leigusamningur þess til ársloka 2023. Auk fyrrnefndrar 10 þúsund króna leigu greiðir Menningarsetrið vatn, hita og rafmagn sem og fasteignagjöld og sérstök tillög vegna sameiginlegs viðhalds eða endurbóta á húseign eða lóð.

Í samtali við mbl.is síðastliðinn mánudag sagði ímam safnaðarins, Ahmad Seddeeq, að utan þess að leigja húsnæðið af stofnuninni hefði setrið ekkert með hana að gera. Þetta er einnig staðhæft ítrekað í nýútkominni bók Önnu Láru Steindal og Ibrahem Faraj, Undir fíkjutré - Saga af trú, von og kærleika. Í bókinni segist Ibrahem, einn stofnenda Menningarsetursins og gjaldkeri, þó viðurkenna að nær væri að skilgreina leigusamning trúfélagsins við stofnunina sem styrk. Hann fer ítarlega í tengsl Menningarsetursins og Stofnunarinnar í bókinni.

Einn á Íslandi, fimm í Svíþjóð

Stofnun múslima á Íslandi er sjálfseignarstofnun sem komið var á fót árið 2010 af Hussein Al Daoudi og Sulaiman Abdullah Alshiddi en Al Daoudi, sem er framkvæmdastjóri Stofnunar múslima í Svíþjóð, lagði til 80% af stofnfé hennar. Þann 1. júlí sama ár var samningi stofnunarinnar við Fagraás ehf. um kaup á Ýmishúsinu þinglýst. Stjórnarmenn stofnunarinnar eru sex og er Al Daoudi þar á meðal en framkvæmdastjórinn, Karim Askari, er sá eini sem býr hér á landi; aðrir stjórnarmenn og -konur eru öll búsett í Svíþjóð.

Meðlimir í Menningarsetri múslima á Íslandi voru 218 árið 2011, þegar félagatal var fyrst skráð af Hagstofunni, en félagið var stofnað árið 2009. Samkvæmt tölum frá 1. janúar 2015 telur söfnuðurinn 389 manns í dag. Þar af eru 228 karlar og 161 kona en börn undir 18 ára aldri eru 140 talsins.

Óeðlileg pressa frá leigusölunum

Samkvæmt Undir fíkjutré, sat fyrrnefndur Karim Askari, núverandi framkvæmdastjóri Stofnunar múslima á Íslandi, í stjórn Menningarsetursins við stofnun þess. 

Í kaflanum „Menningarsetur múslima á Íslandi“ segir Ibrahem frá því hvernig stjórn Menningarsetursins var kynnt árið 2010 fyrir Stofnun múslima í Svíþjóð sem hafði áhuga á samvinnu við félagið. Stjórnin þekkti þá aðeins til sænsku stofnunarinnar þar sem Karim, sem þá var tiltölulega nýkominn til Íslands, hafði farið á ráðstefnu um íslam í Sádi-Arabíu á vegum Félags múslima í kringum 2007.

Ráðist var í samstarf við stofnunina, sem stofnaði eignarhlutafélag á Íslandi og keypti Ýmishúsið. Ímaminn Ahmad Seddeeq var ráðinn til starfa og hann kom með fjölskyldu sína frá Egyptalandi síða árs 2010.

„Ekki leið á löngu þar til við fórum að finna fyrir óeðlilegri pressu frá leigusölum okkar, sem vildu hlutast til um þá starfsemi sem færi fram í húsinu. Á þetta vorum við ekki tilbúnir að fallast. Alls ekki!“
(Undir fíkjutré, bls. 242)

Ibrahem segir að vissulega megi skilgreina samninginn sem styrk Svíanna til íslenska trúfélagsins en að hann sé þó formlegur og félagið standi um hann vörð. Menningarsetrið ráði alfarið þeirri starfsemi sem fari fram í Ýmishúsinu enda væri annað óeðlilegt.

„Við bentum á að leigusölunum dytti varla í hug að fara að hlutast til um þá starfsemi sem færi fram í kjallaranum, sem Reykjavíkurborg leigði undir félagsmiðstöð fyrir unglinga í Hlíðahverfi. Það var jafn óviðeigandi og fráleitt og að skipta sér af okkar verkefnum. Það fór ekki vel í leigusalann en okkur var ekki haggað.“ (Undir fíkjutré, bls. 242)

Þar er þó ekki öll sagan sögð því eins og Ibrahem greinir frá í bókinni tók fyrrnefndur framkvæmdastjóri Stofnunar múslima á Íslandi, Karim Askari, að sér formensku í Menningarsetrinu árið 2012. Segir Ibrahem ekki ljóst hvernig það hafi gerst, hann hafi ekki verið kosinn heldur í raun tekið sér formennsku þegar plássið stóð laust.

Ibrahem segir að þegar stjórn Menningarsetursins hafi komist að því að Karim væri einnig í forsvari fyrir Stofnun múslima hafi hún sett Karim afarkosti. Hafi Karim þá kosið að ganga úr stjórn trúfélagsins.

Samskiptin við sendiherrann

Ibrahem segir ruglinginn vegna tengsla félagsins við Svíana hafa náð hámarki í mars 2015 þegar sendiherra Sádi-Arabíu tilkynnti forseta Íslands að til stæði að veita um 140 milljónir króna til byggingar mosku á Íslandi. Segir Ibrahem að forsvarsmenn Menningarsetursins hafi fyrst heyrt af gjöfinni frá fjölmiðlum.

Nokkrum dögum síðar var hann að störfum í moskunni í Ýmishúsinu ásamt ímamnum utan hefðbundins opnunartíma þegar Karim hleypti sjálfum sér og Ibrahim SI Alibrahim inn í bygginguna. Segir hann að þeim hafi fundist það sérkennilegt í meira lagi og að í ljós hafi komið að Stofnun múslima ætti að njóta styrksins en hvorugt íslensku trúfélaganna.

„En þar sem þessar fréttir ollu okkur óróa buðum við sendiherranum í kaffi og útskýrðum samband okkar við Stofnun múslima og lýstum þeirri skoðun að það kæmi sér ákaflega illa fyrir múslima á Íslandi að ýta undir starfsemi félags sem stýrt væri utan frá.“ (Undir fíkjutré, bls. 247)

Segir Ibrahem þá hafa tjáð sendiherranum að á Íslandi hefðu ekki þróast vandamál á við þau sem þekktust í samskiptum múslima við samfélög annars staðar í Evrópu en að hætta væri á slíkum vandamálum ef utanaðkomandi öfl tækju að skipta sér af um of.

„Að fundi loknum báðum við með sendiherranum og þeir Karim héldu út í kvöldið á ný. Í bænum mínum bað ég Guð að hjálpa okkur við að koma í veg fyrir að íslam rataði í ógöngur og átök á Íslandi líkt og gerst hafði sum staðar í Evrópu.“ (Undir fíkjutré bls. 249)

Í samtali við mbl.is á mánudag sagði ímam Menningarsetursins, Ahmad Seddeeq, að stofnun múslima hefði fengið fjármagnið sem lofað var. 

Í frétt á vef sendiráðs Sádi-Arabíu í Svíþjóð frá 16. desember 2014 er sagt frá því að þann dag hafi sendiherrann látið Hussein Al-Daoudi, stofnanda Stofnunar múslima á Íslandi og sambærilegrar stofnunar í Svíþjóð, hafa ávísun upp á 1,25 milljónir Bandaríkjadala sem styrk fyrir kaupum á lóð eða húsnæði á Íslandi. Ekki er ljóst hvort það sé styrkurinn sem sendiherrann sagði forsetanum frá í mars eða hvort ríkið hafi styrkt Stofnun múslima frekar.

Ahmad Seddeeq, ímam Menningarseturs múslima á Íslandi.
Ahmad Seddeeq, ímam Menningarseturs múslima á Íslandi. Ljósmynd/Amjad Shakoor
Kápa bókarinnar Undir fíkjutré sem fjallar um ævi Ibrahem Faraj.
Kápa bókarinnar Undir fíkjutré sem fjallar um ævi Ibrahem Faraj. Ljósmynd/Sagautgafa.is
mbl.is