Ekki vopnuð við dagleg störf

mbl.is/Eggert

Um nokkurra ára skeið hafa skammbyssur verið í einhverjum hluta lögreglubíla lögregluembætta landsins. Eru vopn þessi geymd í læstum vopnakössum og þurfa lögreglumenn sérstaka heimild til þess að nálgast þau. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vinnur nú að því að koma sama búnaði fyrir í nokkrum af bifreiðum embættisins.

Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir tilgang þessa einkum vera þríþættan, þ.e. að auka öryggi lögreglumanna í starfi, auka öryggi borgaranna og auka viðbragðsflýti lögreglu.

„Með þessu er alls ekki verið að stíga skref í þá átt að vopna lögreglu við dagleg störf. Landssamband lögreglumanna gerði, fyrir ekki svo löngu, könnun meðal lögreglumanna um hvort þeir vildu vera vopnaðir við almenn störf, en svarið var afdráttarlaust nei,“ segir Ásgeir Þór í samtali við mbl.is og heldur áfram: „En við berum hins vegar ríkar skyldur við samfélagið og viljum vera hæfir til þess, bæði með þjálfun og búnað, að bregðast við öllum málum, þar á meðal þessum erfiðu málum þegar skotvopn eiga í hlut.“

Verið að efla varnarbúnað

Ásgeir Þór segir þá lögreglubíla sem útbúnir verða með skotvopnakössum einnig munu bera sérstakan varnarbúnað sem lögreglumenn geti gripið til sé þess nauðsyn.

„Undanfarin tvö ár höfum við verið að skipta út eldri vestum fyrir ný varnarbúnaðarvesti sem eru uppistaðan í öryggi lögreglumannsins. Í þeim bílum sem finna má vopn verða einnig hlífar, sem festa má á vesti lögreglumanna, og auka varnargetu þeirra. Að auki verður skotskýlingarhjálmur og skotskýlingarskjöldur,“ segir Ásgeir Þór, en þar sem finna má skotvopn eiga lögreglumenn einnig að hafa aðgengi að áðurnefndum varnarbúnaði.

Sérsveit ríkislögreglustjóra hefur frá árinu 1992 haft vopn undir höndum og í bifreiðum sínum. Að auki hafa sum lögregluembætti úti á landsbyggðinni þegar sett vopn í bifreiðar sínar, meðal annars vegna þess að um langar vegalengdir er að fara.

Ásgeir Þór segir hér eftir sem hingað til mjög strangar reglur gilda um notkun og meðhöndlun þessara vopna. „Lögreglan hefur átt vopn í tugi ára og hefur hún aldrei getað vopnast án sérstaks leyfis frá yfirmanni og verður sú regla áfram,“ segir hann og bendir á að með því að geyma vopn í læstum hirslum í bílunum sé einungis verið að auka viðbragðstíma verði gefið leyfi fyrir notkun þeirra.

„Í víðara samhengi má hér einnig benda á að lögreglubifreiðin er að verða að eins konar starfsstöð lögreglu. Í henni verður fljótlega einnig hægt að ganga frá skýrslugerð og má því segja að lögreglubíllinn sé orðinn að allt öðru vinnutæki en hann var fyrir einhverjum árum.“

Eru vel þjálfaðir

Einungis þeir lögreglumenn sem lokið hafa sérstakri þjálfun í notkun og meðhöndlun skotvopna og staðist hafa próf lögreglunnar þar um verða í þeim bifreiðum þar sem finna má skotvopn.  

„Lögreglan hefur frá árinu 2012 verið í þjálfunarferli sem meðal annars Lögregluskóli ríkisins og ríkislögreglustjóri standa að. Við á höfuðborgarsvæðinu teljum okkur nú vera komna með nægjanlega marga sérþjálfaða lögreglumenn til að stíga þetta skref,“ segir Ásgeir Þór, en að sögn hans munu þeir lögreglumenn sem aðgengi hafa að skotvopnum einnig þurfa að ganga í gegnum endurmenntun í meðhöndlun þeirra ár hvert.

Verða að passa upp á sína menn

Þegar upp koma vopnamál er sérsveit ríkislögreglustjóra kölluð til ásamt almennri lögreglu sem aðstoðar hana eftir þörfum. Segir Ásgeir Þór því mikilvægt að þeir lögreglumenn hafi einnig aðgengi að varnarbúnaði og vopnum enda sé það óforsvaranlegt að senda óvopnaða og óvarða lögreglumenn gegn vopnuðum einstaklingi eða einstaklingum.

„Við sem erum yfirmenn í lögreglunni verðum að passa að lögreglumenn okkar séu þannig útbúnir að þeir séu ekki í bráðri hættu á vettvangi. Ég get ekki réttlætt það að senda óvopnaðan lögreglumann í leit að manni sem talinn er vera vopnaður skotvopni, en svona mál koma upp nokkrum sinnum á ári,“ segir Ásgeir Þór.

mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina