Birti myndband af árekstrinum

Skjáskot

Myndband hefur verið birt á vefnum YouTube af árekstri sem átti sér stað 24. nóvember í Ljósavatnsskarði þar sem tvær fólksbifreiðar lentu saman. Myndbandið er birt af erlendum ferðamanni sem var í annarri bifreiðinni ásamt ferðafélaga sínum. Ökumaður hinnar bifreiðarinnar var einn í henni.

Er ástæða til að vara við myndbandinu.

Mbl.is fjallaði um málið á sínum tíma en ferðamennirnir tveir og ökumaður hinnar bifreiðarinnar voru allir fluttir á sjúkrahús á Akureyri. Ökumaður hinnar bifreiðarinnar var síðan sendur til Reykjavíkur með sjúkraflugi. Samkvæmt upplýsingum mbl.is mun enginn þeirra vera í lífshættu. Ferðamaðurinn sem birti myndbandið var útskrifaður af sjúkrahúsinu á Akureyri í gær en ferðafélagi hans liggur þar enn og er að jafna sig eftir að hafa gengist undir tvær aðgerðir.

Ökumaður hinnar bifreiðarinnar er samkvæmt upplýsingum mbl.is heldur ekki í hættu en hefur verið til aðhlynningar á Landspítalanum að undanförnu. Báðar bifreiðarnar lentu utan vegar í kjölfar árekstursins og eyðilögðust, en eldur kom upp í bifreið ökumanns hinnar bifreiðarinnar eftir að hann hafði komist út úr henni.

mbl.is

Bloggað um fréttina