Hraðasta kjarabót um áratugaskeið

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. mbl.is/Styrmir Kári

Forsætisráðherra sagði á Alþingi í dag að æskilegt væri að tryggja lífeyrisþegum, eldri borgurum og öryrkjum kjarabætur „á við það sem okkur hefur tekist blessunarlega að tryggja öðrum hópum í þessu samfélagi á síðustu missirum þar sem kaupmáttur hefur aukist hraðar undanfarin missiri en líklega nokkurn tíma áður í sögu lýðveldisins.“

Þar svaraði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fyrirspurn frá Helga Hjörvar, þingflokksformanni Samfylkingarinnar. Sagði ráðherrann að unnið væri að því í tengslum við vinnu við fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar „að innleiða hröðustu kjarabót sem þessir hópar hafa séð að minnsta kosti um áratugaskeið á einu ári gangi spár um verðbólgu eftir. Það er svo úrvinnsluatriði hvernig þetta dreifist á tíma en þegar við lítum á heildaráhrifin á síðustu missirum og til framtíðar má gera ráð fyrir því að kjör þessara hópa muni batna jafn mikið og kjör annarra hópa í samfélaginu.“

Helgi sagðist ekki hafa verið að spyrja um hvað yrði gert á næsta kjörtímabili eða í framtíðinni heldur vegna yfirstandandi árs. Hvort forsætisráðherra ætlaði að gera eitthvað í að bæta kjör þessara hópa á þessu ári til jafns við hækkanir annarra. „Jöfnuður hefur aukist í tíð þessarar ríkisstjórnar. Vissulega þarf að gera enn betur fyrir þá sem eru með lægri tekjur, fyrir eldri borgara, fyrir öryrkja og aðra en árangur þessarar ríkisstjórnar sýnir að það er hægt að gera enn betur og við munum halda áfram á þeirri braut,“ sagði Sigmundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert