Ávíta nemendur fyrir neteinelti

Niðrandi tíst beinast að nemanda háskólans undir ákveðnu myllumerki.
Niðrandi tíst beinast að nemanda háskólans undir ákveðnu myllumerki. Ljósmynd/ Sigurður bogi

Tölvupóstur frá Háskóla Íslands datt óvart inn í umræðuna um #nakinníkassa á Twitter í dag þrátt fyrir að vera gjörningi listamannsins Almars Atlasonar alls óviðkomandi.

Bréfið var sent á afmarkaðan hóp nemenda sem hefur notað tiltekið Twitter myllumerki (e. hashtag) sem beinist að öðrum nemanda skólans. Segir í því að athugasemdirnar séu niðrandi og að slík háttsemi sé hvorki þeim né skólanum til sóma. Eru viðkomandi því beðnir að hætta slíkum færslum.

Pósturinn var birtur á Facebook af notanda sem gerði ráð fyrir að þarna væri átt við Almar þar sem ekki kom fram í bréfinu hvert myllumerkið eða hver nemandinn sem um ræðir væri.

Tölvupósturinn sem Kolbrún sendi.
Tölvupósturinn sem Kolbrún sendi. Ljósmynd/Twitter

Í samtali við mbl.is segir Kolbrún Eggertsdóttir kennslustjóri Félagsvísindasviðs málin hinsvegar ótengd með öllu.

Um ræði myllumerki þar sem birtar hafa verið athugasemdir og myndir af tilteknum nemanda sem ekki getur borið hendi fyrir höfuð sér sjálfur. 

„Þetta er mjög leiðinlegt mál og við vildum biðja fólk um að hætta þessu áður en þetta færi lengra,“ segir Kolbrún. Hún vill ekki gefa upp myllumerkið og biður fólk sem þekkir til að dreifa því ekki. „Þetta er bara vinsamleg ábending til nemenda að passa sig. Það er ekki víst að viðkomandi viti af þessu en við urðum hreinlega að gera eitthvað.“

mbl.is