„Fólk vill vita hvort allt sé rotið“

 Karim Askari, framkvæmdastjóri Stofnunar múslima á Íslandi hafnar yfirlýsingum talsmanna Menningarseturs múslima um að félögin tvö tengist ekki. Eins og mbl.is greindi frá í síðustu viku kemur fram á þinglýstum leigusamningi að Stofnun múslima leigir Menningarsetrinu Ýmishúsið á 10 þúsund krónur á mánuði. Í bókinni Undir fíkjutré segir Ibrahem Faraj, gjaldkeri Menningarsetursins að Stofnunin sé aðeins leigusali setursins en hafi beitt stjórn þess óeðlilegri pressu.

„Hver myndi samþykkja það?“ segir Karim „Ef þú vilt leigja svona eign kostar það milljón. Hvernig geturðu sagst vera að leigja hana á 10 þúsund krónur en þú hafir samt engin tengsl við leigusalann?“

Karim bauð blaðamanni mbl.is að hitta sig á kaffihúsi í skammt frá miðborg Reykjavíkur. Segir hann stofnunina ekki hafa viljað tjá sig við fjölmiðla áður af ótta við að orð þeirra væru misskilin eða misnotuð en að nú, eftir útgáfu Undir fíkjutré og yfirlýsingar forseta Íslands um ótta við gjöf Sádi-Arabíu til stofnunarinnar hafi honum þótt nauðsynlegt að segja sína hlið á málum.

„Við höfum stjórn á þeim orðum sem enn eru í munni okkar en ef við sleppum þeim notar fólk þau til að dæma okkur. Þess vegna höfum við setið á okkur hingað til en núna þarf ég að svara. Fólk vill vita hvort allt sé rotið og við þurfum að sjá þeim fyrir svörum og skýringum.“

Stofnunin borgaði laun ímamsins

Karim var sjálfur formaður Menningarsetursins fram í desember 2014. Í Undir fíkjutré segir Ibrahem að stjórn setursins hafi sett honum afarkosti eftir að hafa komist að því að hann væri jafnframt í stjórn Stofnunar múslima. Karim lýsir atburðarásinni hinsvegar frekar sem einskonar fjandsamlegri yfirtöku.

„Þetta voru fáeinir einstaklingar, fjórir eða fimm, sem dreifðu orðrómum sem voru ekki sannir en margir trúðu þeim.“

Karim segir Menningarsetrið og Stofnun múslima hafa verið tengd frá upphafi. Hann og Ibrahim hafi tekið þátt í stofnun hennar þegar þeir sátu í stjórn Menningarsetursins árið 2010 og að þeir hafi samið um stuðning sænsku fjárfestanna sem lögðu til stofnfé félagsins í sameiningu.

 „Hverjir voru það sem komu með ímaminn hingað? Þeir! Þeir borguðu launin hans í tvö ár. Þegar þeir komust að því að hann væri ekki rétta manneskjan fyrir þá sögðu þeir upp samningnum við hann.“

Meðal þess sem Karim segir hafa leitt til ósættis Stofnunarinnar við ímaminn, Ahmad Seddeeq, er viðtal hans við Spegilinn á RÚV árið 2013 þar sem hann sagði að samkynhneigð ýtti undir barnarán og mansal. Í viðtalinu sagði Ahmad einnig að konur ættu að hylja hár sitt til að koma í veg fyrir framhjáhald og í grein RÚV um viðtalið segir að hann hafi neitað að taka í hönd fréttakonu Spegilsins af sömu ástæðu.

„Við fluttum hann til landsins til þess að vera ímam og þá átti hann bara að vera ímam. En núna er hann formaður Menningarsetursins. Hann átti að vinna vinnuna sína með því að kenna fólki arabísku og um íslam en ekki standa fyrir uppreisnum í öðrum félögum til að komast til valda. Það er óásættanlegt. Hann dregur upp og dreifir slæmri mynd af íslam. Við biðum lengi eftir því að hann myndi skipta um skoðun, samlagast menningunni og læra af Íslendingum, spyrði áður en hann dæmdi fólk. En hann skapar ágreining í samfélaginu sem hefur ekkert upp á sig annað en vandræði.“

Fengu fjárstyrkinn fyrir ári

Deilur Menningarsetursins og Stofnunar múslima snúast þó ekki aðeins um hugmyndafræðina eina. Í síðustu viku sagði Ahmad við mbl.is að fjárstyrkurinn sem sendiherra Sáda ræddi við forseta Íslands hefði runnið til Stofnunar múslima. Sagði ímaminn Stofnunina ekki vera trúfélag og að styrkurinn hefði með réttu átt að renna til Menningarsetursins eða Félags múslima.

Karim sýnir blaðamanni bréf frá Reykjavíkurborg þar sem staðfest er að Stofnunin sé trúfélag og borgi því ekki fasteignaskatt. Tekið skal þó fram að stofnunin er ekki skráð sem trúfélag á heimasíðu sýslumanns. Karim segir stofnunina þó vilja líta á sig sem einskonar regnhlífarsamtök þar sem hin múslimsku trúfélögin, sem og önnur menningarfélög geti þrifist. Segir hann  hugmyndina með Ýmishúsinu vera þá að öll félög geti fengið aðstöðu þar undir starfsemi tengdri arabískri eða múslimskri menningu.

Fjármagnið sem Stofnun múslima á Íslandi barst frá Sádi-Arabíu var afhent Hussein Al-Daoudi, framkvæmdastjóra Stofnunarinnar Alrisalah Skandinavía sem rekur Stofnun múslima á Íslandi og sambærilegar stofnanir í Svíþjóð, Noregi og Danmörku. Sendiherra Sádi-Arabíu í Svíþjóð og á Íslandi afhenti fjármagnið, 1,25 milljónir Bandaríkjadala, hinn 16. desember síðastliðinn, um þremur mánuðum áður en hann tilkynnti Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, um framlag ríkisins til íslam á Íslandi. Mikið var rætt um hvert fjármagnið myndi fara en því hafði þá þegar verið úthlutað til stofnunar múslima. Karim segir þessa upphæð þá einu sem stofnunin hefur fengið frá Sádi-Arabíu og þá einu sem hún gerir ráð fyrir að fá.

Karim segir að bæði Seðlabankinn og utanríkisráðuneytið hafi lagt blessun sína yfir fjárstyrk Sáda til Stofnunar múslima á Íslandi áður en greiðslan gekk í gegn.

„Engar kvaðir fylgja fjármagninu, Við þurftum að kaupa eign og sóttum um fjármagn í gegnum ýmis sendiráð. Svo fengum við svar frá Sádi-Arabíu um að ríkið myndi styðja okkur. Þeir spyrja ekkert út í peninginn. Þetta er góðgerðarstarf, alveg eins og þegar Íslendingar fara til Afríku og byggja kirkju, fólkið þakkar fyrir sig en það þarf ekki skyndilega að hlýða íslenskum lögum,“ segir Karim.

„Við þurfum að virða frelsi landa“

Karim gagnrýnir orð forseta Íslands sem sagði hroll hafa farið um sig þegar hann heyrði af fjármagninu frá Sádi-Arabíu. Hann segist virða forsetann en orðin óásættanleg og ala á andúð í garð múslima enda tengi hann íslenska múslima við öfgahópa að ósekju.

„Við erum mótfallin öllum tegundum hryðjuverka í heiminum. Við fordæmum þau og það er þess vegna sem við byrjuðum að vinna með ríkjum því þá er ólíklegra að við lendum í að starfa með einhverjum sem hefur tengsl við slíka hópa en ella. Ef við vinnum opinberlega með ríkjum erum við örugg því ekkert land er fylgjandi hryðjuverkum.“

Blaðamaður bendir Karim á að fregnir af mannréttindabrotum á vegum ríkisins berist reglulega frá Sádi-Arabíu sem er bókstafstrúarríki. Hefur því verið haldið fram að öfgahópar á við Ríki íslams þrífist nú í jarðvegi sem komið var fyrir af Sádi-Arabíu, veri það með vilja eður ei. Kvenréttindi eru ekki langt komin í landinu og er það m.a. eina ríki heimsins þar sem konur mega ekki keyra. Þá hefur Amnesty International varað við því að verið sé að undirbúa fjöldaaftökur í landinu en yfir 151 fangi hefur verið dæmdur til dauða það sem af er ári og í fyrra voru 90 teknir af lífi. 

„Það er ýmislegt sem gerist í Sádi-Arabíu sem væri ólöglegt hér en þetta er að gerast í þeirra eigin landi. Við þurfum að virða frelsi landa. Það þýðir ekki að við þurfum að líða það sama hér á landi eða styðja það en við verðum að virða málfrelsið og sjálfræði ríkja,“ segir Karim og snýr nú spurningunum að blaðamanni.

„Ef hinn vestræni heimur er svona mikið á móti Sádi-Arabíu, af hverju hættir hann þá ekki að stunda viðskipti við ríkið? Af hverju er peningurinn þeirra bara eitraður þegar kemur að íslam?“

Sjálfstæð innan tíu ára

Karim bendir á að fjölmörg trúfélög hér á landi hafi þegið fjármagn erlendis frá en að þrátt fyrir það sé Stofnunin sú eina sem hafi fengið gagnrýni fyrir slíkt. Segir hann fjármagnið frá Sádi Arabíu vera nauðsynlegt stofnuninni til að festa sig í sessi og byggja upp sín eigin tækifæri til sjálfstæðrar afkomu.

„Við munum fjárfesta með peningunum og nýta þá til að skapa tekjur. Við viljum styðja við efnahag Íslands með því að ráða fleira starfsfólk. Markmiðið er að innan tíu ára geti stofnunin verið orðin fullkomlega sjálfstæð og sterk. Við viljum ná árangri og vera gott fordæmi.“

Meðal þess sem Karim segir stofnunina vilja gera er að koma á fót áþekkum Alsalam skólanum sem  Alrisalah Skandinavia rekur í Svíþjóð. Segir hann helsta hlutverk stofnunarinnar vera að styðja við bakið á minnihlutahópum og menningu þeirra.

„Ef við lítum núna á nýju Íslendingana, flóttafólkið sem mun koma frá Sýrlandi þá þarf það stuðning. Það þarf einhvern sem mun hjálpa þeim. Það kom frá annarri þjóð með aðra menningu og annað veðurfar og það þarf sterkt félag til að hjálpa þeim og leiðbeina þeim við að sameinast íslensku samfélagi. Sérstaklega þegar kemur að menntun þar sem margir sem koma hafa aðeins lært arabísku til þessa.“

Þurfa að leysa „ímam vandann“

Áður en kemur til þess að Stofnun múslima auki við umsvif sín með frekari eignakaupum eða rekstri þarf þó að leysa úr deilum þess við Menningarsetrið sem Karim kallar raunar að „leysa ímam vandann“. Segir hann Ahmad hafa tekið við formennsku í félaginu án kosninga, aðalfundur fari fram 1. janúar 2016 og að enn hafi Ahmad ekki orðið við ákalli safnaðarins um kosningar.

„Stjórnin skrifaði á Facebook að núna væri ekki tíminn til að skipta út stjórninni því nauðsynlegt væri að einbeita sér að því hvernig ætti að koma peningunum sem stofnunin fékk til setursins. Hann [Ahmad] sagði að ef við [Stofnun múslima] vildum finna lausn yrðum við að opna bankareikninginn okkar fyrir honum.  En hann er ekki í stjórn stofnunarinnar, bankareikningurinn kemur honum ekki við.“

Karim minnist á veggjakrotið sem óprúttnir aðilar höfðu skreytt Ýmishúsið með um þar síðustu helgi og segir Ahmad hafa skapað það vandamál með framkomu sinni á opinberum vettvangi.

„Við vildum t.d. ekki nota orðið moska. Af hverju að kalla þetta mosku? Afhverju ekki miðstöð? Við viljum að þetta sé staður þar sem fólk utan íslam er óhrætt við að koma og kynna sér menninguna og trúna, læra arabísku íslensku hvað sem er. En þegar maður kallar þetta mosku mun maður fá fólk upp á móti sér.“

Karim segir að hann finni vel að meirihluti Íslendinga styðji íslenska múslima en að hann verði einnig að virða þann fámenna minnihluta sem er mótfallinn moskum. Sem múslimi viti hann vissulega að húsnæðið sé moska en orðið sé óþarft og ýti á ótta ákveðins hóps.

„Við þurfum ekki þennan stimpill. En nú vonumst við eftir að setrið og stofnunin geti fundið leið til að vinna saman eða þá bara að ímaminn og stjórnin finni sér einhvern annan stað að vera á. Við viljum ekki þetta andlit fyrir íslam á Íslandi og ef hann vill ekki vinna með okkur getur hann bara farið eitthvert annað.“

Ekki hlekkjuð við ævafornar hugmyndir

Karim, sem er upprunalega frá Marokkó, stendur fast á því að Ísland sé heimaland sitt og segir að hann yrði fyrstur til að verja það með blóði sínu ef þörf krefði. Hér hafi hann og fjölskylda hans fengið ríkisborgararétt og börnin hans eigi íslenskuna óháð uppruna foreldra þeirra.

„Ég er jafn stoltur af því að vera íslenskur og af því að vera múslimi. Það er það sem við kennum börnunum okkar, að vera hluti af samfélaginu og ekki einangruð hlekkjuð við ævafornar hugmyndir.“

Hann segist skilja vel að það sé auðvelt að missa trúna á íslam enda hafi nafn trúarinnar verið gjöreyðilagt með voðaverkum og fordómafullri umfjöllun á samfélagsmiðlum. Hann segir að þegar múslimar fremji hryðjuverk eigi hinsvegar ekki að dæma íslam heldur þá sjálfa. Sjálfur sé hann mannlegur og að þegar hann geri mistök eigi að dæma hann, Karim, sem manneskju en ekki sem múslima.

„Við hér á Íslandi erum á móti öllum hryðjuverkum, öllum þeim sem misnota fólk og öllu því sem elur á aðskilnaði innan samfélaga. Við viljum búa í sátt og samlyndi í þessu fallega landi, óháð litarafti, trú eða öðru, við erum ekki hér til að dæma. Allir trúa einhverju en við lifum fyrir mannkynið, fyrir virðingu fyrir öllu fólki. Við erum öll manneskjur og það er það sem skiptir máli.“

Karim Askari, framkvæmdastjór Stofnunar múslima á Íslandi ses.
Karim Askari, framkvæmdastjór Stofnunar múslima á Íslandi ses. Ljósmynd/Karim Askari
Ahmad Seddeeq, ímam Menningarseturs múslima á Íslandi.
Ahmad Seddeeq, ímam Menningarseturs múslima á Íslandi. Ljósmynd/Amjad Shakoor
Hussein Al-Daoudi tekur við ávísun fyrir hönd Stofnunar múslima á …
Hussein Al-Daoudi tekur við ávísun fyrir hönd Stofnunar múslima á Íslandi frá Saad bin Ibrahim Al-Ibrahim, sendiherra Sádi Arabíu Ljósmynd/ Utanríkisráðuneyti Sádi Arabíu
Forseti Íslands hitti sendiherra Sáda í mars, en fjármagnið var …
Forseti Íslands hitti sendiherra Sáda í mars, en fjármagnið var afhent tæpum þremur mánuðum áður. Ljósmynd/ forseti.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert