Landsliðið gengur fyrir

Þorgrímur Þráinnsson.
Þorgrímur Þráinnsson. Árni Sæberg

„Ég er búinn að skuldbinda mig til að fara til Abu Dabi með landsliðinu í janúar, í æfingaferð í mars og svo förum við til Frakklands í júní. Þetta er kannski á versta tíma hvað framboðið varðar en mér er meira í mun að landsliðið standi sig vel í Frakklandi en að ég verði forseti. Ég verð því að hafa komið öllum málefnum á framfæri áður en við förum til Frakklands og ég lýt sömu reglum og allir í hópnum,“ segir Þorgrímur Þráinsson sem sem hyggst bjóða sig fram til forseta Íslands í forsetakjöri næsta árs.

Þorgrímur situr í landsliðsnefnd en rithöfundurinn og fyrrverandi landsliðsmaðurinn hefur verið fjölbreyttur bakhjarl strákanna okkar síðustu átta árin þar sem hlutverk hans er að hvetja þá til dáða og vera til staðar þegar þeir þurfa á því að halda. Eða eins og Þorgrímur segir sjálfur: „Þetta snýst um þægilega nærveru og þeir geta alltaf leitað til mín.“

Lokakeppnin í Evrópukeppni í knattspyrnu karla hefst 10. júní í Frakklandi og lýkur með úrslitaleik 10. júlí. Áætlað er að forsetakosningar fari fram 25. júní.

Í viðtali sem birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina er meðal annars spjallað við Þorgrím um komandi kosningabaráttu en hann segist hvorki búast við því að opna kosningaskrifstofu eða ráða kosningastjóra. „Í stað kosningaskrifstofu gæti ég frekar hugsað mér að hafa opið hús heima þannig að þeir sem vilja koma og spjalla geti heimsótt mig. Mér finnst sú tilhugsun góð.“

Þorgrímur segist í viðtalinu vilja vera forseti barna og manngæsku.

„Þótt okkur langi til að stoppa öll stríð í heiminum einmitt núna þá trúi ég því að ef við vöndum okkur í uppeldismálum þá sé það næsta kynslóð sem muni geta stuðlað að friði. Hún skilur að við svörum ekki ofbeldi með ofbeldi og við bætum heiminn með því að bæta okkur sjálf. Mér er það hjartans mál að við vöndum okkur miklu betur í umönnun barna, allt frá móðurkviði upp í það þegar við teljum þau fullorðin. Ef við gerum það ekki þurfum við að horfa upp á vanlíðan þeirra, sjálfsmynd þeirra veikist og þau finna sig síður í lífinu. Ég vil vinna að þessum málum ötullega á bak við tjöldin. Fá áhrifamenn í samfélaginu með mér, leiða hópa saman og koma góðum málum í farveg án þess að nokkur hafi hugmynd um það að það komi frá Bessastöðum. Ég hef bara mikla trú á unga fólkinu í dag. Þetta er fólkið sem tekur við samfélaginu eftir örfá ár og við megum ekki vanrækja það, ekki frekar en eldra fólkið sem nýtur sjaldan sannmælis.“

Þorgrímur telur Ísland hafa alla burði til að vera leiðandi í heiminum á þessu sviði. „Ég tel að við þurfum fyrst og fremst að einblína á manngæsku, hvetja alla til að líta inn á við. Þannig fáum við breytingar. 

Þær spurningar sem ég hef fengið eru margar pólitískar og mér finnst það dálítið óþægilegt. Ég velti því fyrir mér hvernig spurningar ég fengi í dag ef Vigdís væri forseti.
Ég ætla ekki að þykjast vera sérfræðingur í öllu og það er margt sem ég mun þurfa að leggjast yfir. Hins vegar veit ég að ég verð óhræddur við að leita lausna, kynna mér allt sem ég þarf að kynna mér og verð ófeiminn við að hlusta á sérfræðinga sem eru betur að sér en ég í ákveðnum málaflokkum. Ég ætla ekki að þykjast vera annar en ég er og þykjast hafa öll svör á hreinu.“

Forsíða Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins.
Forsíða Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert