Ákærður fyrir umboðssvik án umboðs

Sigurður Einarsson, í héraðsdómi í dag.
Sigurður Einarsson, í héraðsdómi í dag.

Sigurður Einarssonar, fyrrum stjórnarformaður Kaupþings, segir að þrátt fyrir að Hæstiréttur hafi sýknað hann af umboðssvikum í Al-thani málinu sé hann nú í Chesterfield-málinu ákærður fyrir slíkt hið sama, þótt dómur Hæstaréttar væri skýr um að hann gæti ekki farið út fyrir umboð sitt þar sem hann hefði ekki umboð.

Fyrsti dagur aðalmeðferðar Chesterfields-málsins hófst í héraðsdómi í dag. Eftir að fyrrum forstjóri bankans, Hreiðar Már Sigurðsson, hafði verið yfirheyrður var komið að Sigurði. Bað hann um að fá að ávarpa dóminn eins og margir ákærðu í hrunmálunum svokölluðu hafa gert hingað til.

Hafði ekki umboð frá bankanum

Byrjaði hann á að segja að nú væri hann mættur í héraðsdóm í þriðja skipti, en áður var hann dæmdur í Al-thani málinu og stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings. Sagði hann að í Al-thani málinu hafi hann verið ákærður fyrir umboðssvik en verið sýknaður með þeim skýra rökstuðningi að hann hefði ekki haft umboð frá bankanum og því ekki getað farið út fyrir það.

Í markaðsmisnotkunarmáli sagði hann svo að dómurunum hafi tekist að dæma hann fyrir umboðssvik fyrir að taka ákvörðun í lánanefnd bankans um lán sem hafði verið greitt út áður, en þegar ákvörðunin var tekin hafði lánið þegar verið að fullu endurgreitt.  Sagði hann þetta furðulegt, þar sem veruleg hætt á fjártjóni þyrfti að vera fyrir hendi til að dæma fyrir umboðssvik.

Segir saksóknara vefa lygavef

Gagnrýndi hann Björn Þorvaldsson, saksóknara, ítrekað í ræðu sinni, meðal annars vegna handtökuskipannar til Interpol og sagði hann ítrekað hafa logið upp á sig. „Ég á ekki von á öðru en að Björn Þorvaldsson haldi áfram að vefa lygavef sinn hér,“ sagði Sigurður.

Sigurður tók fram að hann hefði ekki tekið neina ákvörðun í því máli sem er nú fyrir dómi og sagði engin símtöl, vitnisburður eða annað vísa til hans. Honum hafi sem stjórnarmanna verið bannað að taka ákvarðanir um einstaka lánveitingar innan bankans og spurði því „hvað er verið að ákæra fyrir hér?“

Gat aðeins tapað ef bankarnir hrundu

Sagðist hann aftur á móti hafa verið fylgjandi því að þessi viðskipti væru gerð og eftir á teldi hann þetta enn rétta ákvörðun á sínum tíma. Sagði hann að stjórnendur bankans hefðu þrátt fyrir ólgusjó á markaði talið að bankinn stæði vel á þeim tíma sem viðskiptin sem ákært er fyrir áttu sér stað. Sagði Sigurður að eini möguleikinn fyrir því að bankinn gæti tapað á þeim væri ef Kaupþing eða Deutsche bank hrundu. Því miður hafi Kaupþing hrunið, en enginn hafi átt von á því á þessum tíma. Sagði hann að ef einhver teldi Kaupþing standa illa á þessum tíma væri sá hinn sami að segja ósatt. „Tölurnar segja sína sögu,“ sagði hann, en ítrekað hafði verið bent á góða heildarlausafjárstöðu bankans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert