Lánið til Glitnis „hræðileg ákvörðun“

Hreiðar Már Sigurðsson í dómsal í dag.
Hreiðar Már Sigurðsson í dómsal í dag.

Ákvörðun Seðlabanka Íslands að lána Glitni 600 milljónir evra og fá á móti stóran eignahluta í bankanum í lok september 2008 var versta aðgerð sem íslenska ríkið hefur gert. Þetta var meðal þess sem kom fram í yfirheyrslu yfir Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrum forstjóra Kaupþings, í Chesterfield-málinu fyrir héraðsdómi í dag.

Í málinu er tekist á um lánveitingar sem Kaupþing veitti aflandsfélögum í eigu stórra viðskiptavina bankans og notuð voru til að kaupa  láns­hæfistengd skulda­bréf (CLN) sem tengd voru skulda­trygg­ingarálagi Kaupþings. 

„Var hræðileg ákvörðun“

Meðal annar spilaði saksóknari símtal milli Hreiðars Más og Guðmundar Þórðar Guðmundssonar, fyrrum framkvæmdastjóra fjárstýringar bankans sem tekið var upp eftir að yfirheyrslur fóru fram yfir þeim árið 2010. Spurði saksóknari um ummæli í símtalinu þar sem Hreiðar Már talar um að lausafjárstaðan hafi verið „djöfulleg.“ Svaraði Hreiðar því til að þarna ætti hann við þegar Seðlabankinn fengið bréf í Glitni með 600 milljóna lánveitingu.

„Var hræðileg ákvörðun,“ sagði hann og bætti við „ef þetta er ekki versta ákvörðun sem íslenska ríkið hefur tekið þá veit ég ekki hvað.“ Sagði Hreiðar Már að hann hefði eytt heilum dögum í ráðherrabústaðnum með ríkisstjórninni í kringum fall bankanna, en eftir tímabundna björgun Glitnis hafi lánshæfi ríkisins fallið mikið.

Reyndi að sannfæra ríkisstjórnina að falla frá aðgerðinni

Seinna var hann spurður út í póstsamskipti milli viðskiptastjóra í bankanum og Magnúsar Guðmundssonar fyrrum forstjóra Kaupþings í Lúxemborg. Sagði Magnús þar að bankinn ætti ekki annarra kosta völ en að greiða Deutsche bank 50 milljónir evra vegna veðkalla í framhaldi af fyrrnefndum viðskiptum. Spurði saksóknari Hreiðar af hverju hann hefði sem forstjóri ekkert aðhafst þegar hann hefði séð viðkomandi póst, en hann fékk afrit sent af honum.

Svaraði Hreiðar því til að á þessum tíma hafi hann haft margt annað að gera. Sagði hann að stór hluti af tíma hans hefði farið í „sannfæra ríkisstjórn Geirs Haarde um að falla frá vanhugsaðri aðgerð“ við að kaupa í Glitni. „Við töldum réttara að bankinn færi á hausinn,“ sagði hann um Glitni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert