Strætóferðum aflýst

Strætó
Strætó mbl.is/Hjörtur

Búast má við því að flestar ferðir strætisvagna á Suðurlandi falli niður eftir klukkan 12 vegna slæmrar veðurspár. Eins verður ferð strætó til Akureyrar flýtt.

„Farþegar eru vinsamlega beðnir um að hafa í huga að Almannavarnir eru að beina því til fólks á höfuðborgarsvæðinu að vera ekki úti að óþörfu eftir kl. 17:00. Búast má við röskun á leiðakerfi okkar á höfuðborgarsvæðinu sökum veðurs, farþegar eru vinsamlegast beðnir að fara varlega og fylgjast vel með fréttum af gangi máli en við gerum okkur allra besta til að upplýsa sem allra fyrst um gang mála,“ segir á vef Strætó.

Veðrið versnar fyrst syðst á landinu upp úr hádegi með vaxandi vindi og blindu. Aftakaveður þar síðdegis og eins austur með ströndinni, 30-35 m/s og hviður um og yfir 60 m/s. Á veginum austur fyrir fjall tekur að hvessa um kl. 15 með vaxandi skafrenningi og síðar ofankomu. Um svipað leyti á Kjalarnesi. Almennt bætir mjög í vind á landinu síðdegis og til að byrja með einkum kóf vegna skafrennings, en síðar bætist ofankoma við. Austanlands sérstaklega eru horfur á mikilli snjókomu í kvöld en hlánar þó þar á láglendi, segir í tilkynningu veðurfræðings Vegagerðarinnar.

Mjög hált undir Eyjafjöllum

Það er hálka á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum líkt og á flestum vegum á Suðurlandi. Krýsuvíkurvegur er ófær og Suðurstrandarvegur einnig en verið er að moka hann. Flughálka er undir Eyjafjöllum.

Hálka er á velflestum vegum á Vesturlandi og sumstaðar skafrenningur. Þó er þæfingur í Álftafirði á Snæfellsnesi og Útnesvegur er ófær.

Hálka og snjóþekja er á Vestfjörðum en á Ströndum eru vegir hins vegar að miklu leyti ófærir en unnið er að mokstri.

Hálka er víðast hvar á Norðurlandi og sumstaðar skafrenningur. Vegurinn um Hólasand er ófær.

Það er ófært bæði á Breiðdalsheiði og Öxi en annars er nokkur hálka á flestum vegum bæði á Austur- og Suðausturlandi.

Leið 51: frá Höfn kl. 11:55 að Hvolsvelli fellur niður vegna veðurs. 

               frá Mjódd kl. 13:00 mun einungis aka að Hvolsvelli sé veður til, nánari athugun þegar nær dregur. 
               
Leið 52: kl. 07:10 frá Mjódd mun einungis aka að Hvolsvelli og þaðan tilbaka. Herjólfur siglir ekkert í dag.

Leið 56: vegna veðurspár mun vagninn fara í stað 15:35.

Leið 57: frá Mjódd kl. 09:00 fer til Akureyrar.

Vagninn sem fer frá Akureyri kl. 10:15 heldur áleiðis til Reykjavíkur en búast má við því að vagninn komist ekki lengra en Borgarnes sökum veðurspár, farþegar hafi það í huga áður en ferðalagið hefst. 
Seinni ferðir dagsins, frá Akureyri kl. 16:20 og frá Mjódd kl. 17:30, falla niður sökum veðurs.

Leið 58: Morgunferðin verður farin, seinnipartsferðin fellur niður sökum veðurs. 

Leið 59: Fellur niður í dag sökum veðurs. 

Leið 82: Frá Grundarfirði kl. 07:44 er áætlun, seinnipartsferðin fellur niður sökum veðurs.

mbl.is