„Ekki eðlilegur banka business“

Hreiðar Már Sigurðsson, Almar Þór Möller, hdl. og aðstoðarmaður verjanda, …
Hreiðar Már Sigurðsson, Almar Þór Möller, hdl. og aðstoðarmaður verjanda, Sigurður Einarsson og Gestur Jónssonar, verjandi Sigurðar við réttarhöldin vegna Chesterfield-málsins svonefnda. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Það var ekkert sem benti til þess að Kaupþing fengi sjálft eitthvað út úr viðskiptunum með CLN skuldabréf sem Chesterfield-málið snýst um. Þá var einkennilegt að lána ákveðnum félögum sem stóðu ekki vel verulega háar fjárhæðir til kaupanna. „Ekki eðlilegur banka business,“ var haft eftir Sölva Sölvasyni, fyrrum lögmanni hjá Kaupþingi í Lúxemborg, en hann er meðal vitna í málinu.

Sölvi kom að málinu fyrir hönd Kaupþings í Lúxemborg og spurði saksóknari hann meðal annars um aðkomu félaganna sem var lánað í viðskiptunum. Sagðist hann muna sérstaklega eftir því að hafa spurt Magnús Guðmundsson, einn hinna ákærðu í málinu og fyrrum bankastjóra Kaupþings í Lúxemborg, um það atriði og þá hafi svarið verið að félögin stæðu svo illa og skulduðu Kaupþingi mikið. Bættur hagur þeirra væri því „win win“ fyrir Kaupþing og félögin.

„Aldrei séð annað eins

Sölvi var nokkuð harðorður í máli sínu um þá viðskiptafléttu sem ákært er fyrir í málinu og sagðist ekki hafa talið hana eðlilega. „Þetta var mjög óvenjulegt, hafði unnið 15 ár í banka og aldrei séð annað eins,“ sagði hann í dómsalnum.

Í málinu er Magnús ákærður ásamt þeim Hreiðari Má Sigurðssyni og Sigurðir Einarssyni, fyrrum stjórnendum bankans fyrir umboðssvik. Sölvi sagði í dag að þegar hann hefði verið í sambandi við viðskiptastjóra vegna CLN viðskiptanna þá hefði verið ljóst að hann væri alltaf að bíða eftir upplýsingum og skipunum frá Hreiðari Má, en saksóknari hefur í gegnum aðalmeðferðina reynt að sýna fram á að málið sé komið frá yfirstjórnendum bankans, en ekki ákvörðun lægra settra starfsmanna.

Í símtali sem hafði verið hljóðritað á milli Sölva og Guðmundar Þórs Gunnarssonar, fyrrum viðskiptastjóra hjá bankanum ræddu þeir um málið og sagði Sölvi þar að viðskiptin væru „einkadíll“ hjá Hreiðari og Magnúsi sem „þrælarnir á gólfinu“ væru látnir útbúa skjölin fyrir.

Fékk upplýsingarnar frá lykilvitni

Verjandi Magnúsar spurði vitnið aftur á móti hvort hann hefði einhvern tíman verið í beinum samskiptum við Hreiðar um málið sem Sölvi svaraði neitandi og að hann hafi mikið til byggt vitneskju sína á samtölum og upplýsingum frá Halldóri Bjarkar Lúðvíkssyni sem þá var viðskiptastjóri hjá bankanum og kom mikið að þessu máli.

Ákærðu í málinu hafa hingað til borið á Halldór sakir í tengslum við málið og sagt að svo virðist sem hann hafi tekið ákvarðanir í málinu einn og „skitið upp á bak“ í ýmiskonar lánamálum. Mun hann bera vitni á morgun, en gert er ráð fyrir að hann verði lykilvitni í málinu. Hafa meðal annars komið fram óbeinar ásakanir um það hvort hann hafi samið af sér ákæru með að vitna gegn fyrrum yfirmönnum sínum. Í frétt á Kjarnanum í dag sver hann hins vegar af sér að hann hafi gert það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert