Skúli neitaði að svara spurningum

Skúli Þorvaldsson bíður fyrir utan dómsalinn í dag.
Skúli Þorvaldsson bíður fyrir utan dómsalinn í dag.

Fjárfestirinn Skúli Þorvaldsson neitaði að svara spurningum saksóknara í Chesterfield-málinu sem nú er fyrir héraðsdómi, en Skúli er með réttarstöðu grunaðs manns í öðru máli sem er til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara og var nýlega dæmdur í svokölluðu Marple-máli.

Dómari fór yfir réttindi hans sem almenns vitnis þegar Skúli settist í dómsalnum en að því loknu spurði Skúli: „Er þetta allt?“ Dómari málsins, Pétur Guðgeirsson, hváði og útskýrði Skúli fyrir honum réttarstöðu sína í öðrum málum. Sagði Pétur honum þá réttindi sín samkvæmt því, en þá er vitni ekki skylt að tjá sig um atriði sem gætu mögulega komið sök á hann í öðrum málum.

Þegar saksóknari hóf spurningar sínar nýtti Skúli sér það og sagðist ekki ætla að svara neinum spurningum. Sagði hann að svör sín væri hægt að misskilja og mistúlka. Saksóknari sagðist þá ekki eiga von á að yfirheyrslan skilaði miklu og hann hefði ekki frekari spurningar.

Skúli er eigandi félagsins Holly Beach, en það félag fékk lánaða nokkra milljarða vegna viðskipta með láns­hæfistengt skulda­bréf, sem tengt var skulda­trygg­inga­álagi Kaupþings.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert