Allt önnur saga lykilvitnisins

Halldór Bjarkar mætir í réttarsal í dag til að bera …
Halldór Bjarkar mætir í réttarsal í dag til að bera vitni í málinu. Mynd/Styrmir Kári

Halldór Bjarkar Lúðvíksson, sem gjarnan er talinn vera lykilvitni í Chesterfield-málinu sem beinist gegn fyrrum stjórnendum Kaupþings, mætti sem vitni fyrir héraðsdóm í dag. Var hann síðastur á vitnalistanum, en beðið hafði verið eftir framburði hans, enda ljóst að hann var „miðlæg persóna í atburðarrásinni,“ eins og verjandi í málinu hafði sagt.

Chesterfield-málið gengur út á 510 milljón evra lánveitingar Kaupþings til aflandsfélaga í aðdraganda og miðju fjármálahruninu. Var völdum viðskiptavinum veitt 100% lán til kaupa á lánshæfistengdum skuldabréfum sem tengdust skuldatryggingaálagi Kaupþings. Álagið var á þessum tíma mjög hátt og menn vildu bæði vinna í að lækka það sáu mögulegan hagnað með að veðja á að það færi niður á við og bankinn héldi velli. Svo varð aftur á móti ekki niðurstaðan og með falli bankans tapaðist upphæðin.

Nánar um Chesterfield-málið

Hreiðar Már Sigurðsson, Almar Þór Möller, hdl. og aðstoðarmaður verjanda, …
Hreiðar Már Sigurðsson, Almar Þór Möller, hdl. og aðstoðarmaður verjanda, Sigurður Einarsson og Gestur Jónssonar, verjandi Sigurðar við réttarhöldin vegna Chesterfield-málsins svonefnda. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

 

Áttu að hagnast um 5 milljón evrur án áhættu

Halldór Bjarkar starfaði sem lánastjóri hjá Kaupþingi og sá sem slíkur um að lánamálin í tengslum lánveitingarnar til félaganna Holly Beach, Charbon Capital, Trenvis og Harlow fyrir samtals 250 milljón evrur. Þeir fjármunir fóru svo til dótturfélaganna Chesterfield og Partridge sem keyptu fyrrnefnd skuldabréf, en til viðbótar áttu 5 milljónir evra að fara til eiganda félaganna sem þóknun eða hagnaður af viðskiptunum, sem allir aðilar málsins segja að hafi átt að vera áhættulaus fyrir lántakana. Fram kom í málinu að hugmyndin hafi fyrst verið að lána fyrir því fyrirfram en ekki varð af því.

Segir Hreiðar hafa gefið skýr fyrirmæli á fundi

Halldór sagði í dag að hann hafi verið kallaður á fund til Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrum forstjóra bankans í ágúst 2008, þar sem Hreiðar hafi lýst því yfir að bankinn hafi ákveðið að hafa áhrif á skuldatryggingarálag bankans eftir ráðgjöf frá Deutsche bank með kaupum á CDS skuldabréfum. Til að standa í þessum viðskiptum var búið að setja upp ákveðinn „fyrirtækjastrúktúr“ í Lúxemborg þar sem Deutsche bank vildi ekki að Kaupþing ætti í viðskiptunum í eigin nafni.

Sagði Halldór fyrirmæli Hreiðars hafa verið nokkuð skýr. Hann hafi beðið sig um að vinna lán upp á samtals 250 milljónir evra, þar sem Deutsche bank myndi lána 125 milljónir og Kaupþing 125 milljónir plús fyrrnefndan hagnað. Búið hafi verið að greiða peningana út í Kaupþingi í Lúxemborg, en útlánið gæti ekki setið lengi þar og því þyrfti að klára þetta fyrir mánaðarmótin ágúst/september. Þar sem mikið lægi á þessu ætti hann að ganga frá greiðslunni fyrst og svo að klára formsatriði eins og samþykktir lánanefndar og pappírsvinnu.

„Datt ekki í hug að hann myndi hlaupast undan ábyrgð“

Verjandi í málinu spurði Halldór af hverju hann hefði orðið við þessum beiðnum án skriflegs samþykkis í ljósi þess að hann þekkti lánaferla bankans þar sem kveðið væri um að ganga frá öllum formsatriðum áður en lán væru veitt. Halldór sagði að fyrirmæli Hreiðars hefðu í fyrsta lagi verið mjög skýr og þá hafi tíminn verið knappur og þar sem hann þekkti ekki til málsins hefði tekið tíma að undirbúa lánapappíra og útbúa umsókn til lánanefndar. Þá ætti Hreiðar sæti í lánanefndum og að hann teldi veru hans í þeim tryggingu fyrir að heimild væri fyrir lánunum. „Taldi það nóg, datt ekki í hug að hann myndi hlaupast undan ábyrgð,“ sagði Halldór í réttarsalnum.

Saksóknari málsins, Björn Þorvaldsson.
Saksóknari málsins, Björn Þorvaldsson.

Sagði Halldór einnig að þar sem fyrirmæli Hreiðars væru um að klára málið fyrir mánaðarmótin, þá hefði honum átt að vera fullljóst sem lánanefndarmanni að ekkert formlegt erindi hefði borist og því hefði hann væntanlega gert athugasemd ef engir pappírar væru komnir fyrir þann tíma og hann vildi fyrst hafa þetta formlegt.

Engin fyrirmæli frá Hreiðari fundist

Verjendur í málinu hafa gert því skóna að Halldór hafi einn tekið ákvörðun um útlánin án þess að þau færu til lánanefndar, en engin fyrirmæli hafa fundist frá Hreiðari til hans í þeim fjölmörgu skjölum sem lögð voru fram í málinu.

Þegar leið á september og skuldatryggingarálagið tók að hækka gerði Deutsch bank veðkall vegna bréfanna og þá var ákveðið að lána enn frekar frá Kaupþingi til viðskiptanna. Gerðist þetta ítrekað og að endingu hafði bankinn lánað um 250 milljónir evra í viðbót.

Beiðni Halldórs um útgreiðslu

Hafa ákærðu og verjendur þeirra líka vísað til þess að Halldór hafi tekið ákvörðun um það og meðal annars bent á fyrirmæli hans til fjárstýringar um útgreiðslu lánanna. Sagði hann í dag að þegar veðköllin hafi komið hafi hann alltaf haft samband við Hreiðar sem hafi gefið honum fyrirmæli í síma um að mæta veðköllunum. Í síðasta skiptið, sem var sama dag og Kaupþing fékk neyðarlán frá Seðlabanka Íslands og neyðarlögin voru samþykkt, hafi Hreiðar aftur á móti sagt sér að hann vildi hugsa málið. Staðfestingu fyrir því hafi hann fengið í gegnum yfirmann sinn daginn eftir.

Verjandi Hreiðars benti á að Halldór hefði oft óskað eftir samþykki frá yfirmanni sínum fyrir viðskiptunum og að það væri í mótsögn við það sem hann hafi sagt um að Hreiðar réði öllu í þessu. Útskýrði Halldór það þannig að hann hafi bæði borið þessi mál undir Hreiðar og yfirmanninn.

Ekki í samræmi við önnur útlán

Eins og fyrr segir voru útlánin að fullu fjármögnuð fyrir ákveðna viðskiptavini sem Kaupþing valdi sjálft. Var um að ræða félög stórra viðskiptavina bankans. Hefur saksóknari sagt að engin trygging hafi verið fyrir viðskiptunum meðan verjendur telja að á þeim tíma hafi fjárfestingin þótt mjög traust og að Kaupþing hafi í raun stjórnað félögunum sem hafi verið þeirra trygging. Saksóknari spurði Halldór út í útlánin og sagði hann þau „klárlega ekki í samræmi við þau útlán sem ég hef komið að.“  

Framburðurinn sem breyttist milli ára

Í réttarhöldunum hafa verjendur ítrekað bent á að framburður Halldórs hafi breyst mikið milli áranna 2010 og 2012 þegar hann fór í yfirheyrslur hjá sérstökum saksóknara. Þannig sagði hann árið 2010 að fyrstu fyrirmælin hefðu komið frá Hreiðari og sennilega önnur fyrirmæli líka, en svo eitthvað frá Lúxemborg, en þar var Magnús Guðmundsson, sem einnig er ákærður í málinu, forstjóri. Árið 2012 segir hann aftur á móti í yfirheyrslu „Jájá það fór ekki það fór ekki peningur út eða eða eða hérna neinar framlengingar eða neitt öðruvísi en að Hreiðar væri væri inn í þeirri lúppu“ og seinna:  „Já Magnús náttúrulega. Hreiðar var sá sem að var gerandi eða sem sagt sá sem að var aðal hérna maðurinn í þessu á íslandi.“

Magnús Guðmundsson og verjandi hans, Kristín Edwald.
Magnús Guðmundsson og verjandi hans, Kristín Edwald.

Halldór sagði þennan mismun skiljanlegan. Í fyrri yfirheyrslunni hafi hann lítið pælt í málinu í tvö ár, en í seinni yfirheyrslunni hafi hann verið „búinn að hugsa málið betur og mundi betur eftir því.“

Símtölin sem voru ekki tekin upp

Verjandi spurði því næst Halldór út í þau fyrirmæli sem Hreiðar á að hafa gefið honum og benti aftur á að engin gögn hefðu fundist um það. Sagði verjandinn að ljóst væri að þeir hefðu verið í símasamskiptum m.v. framburð Halldórs og sagði að væntanlega hefði verið hægt að finna upplýsingar um fyrirmælin í borðsíma Halldórs ef um slíkt væri að ræða, en símtöl starfsmanna banka voru oft tekin upp og skipti þá ekki máli hvort hann hefði hringt í borðsíma Hreiðars eða farsíma. Svaraði Halldór því aftur á móti að símar viðskiptastjóra hefðu aldrei verið teknir upp.

Virtist verjanda Hreiðars bregða nokkuð við þessar fréttir, enda hefði staðfesting á engum fyrirmælum úr slíkum samtölum getað aðstoðað við vörn Hreiðars. Eftir standa því önnur gögn og svo orð gegn orði hjá Hreiðari og Halldóri. Miðað við spurningar verjanda um í hvaða síma Halldór hringdi í Hreiðar verður þó forvitnilegt að sjá hvort að lagðar verði fram símayfirlit yfir farsíma Hreiðars á morgun í málflutningi.

Seldi hlutabréfin sín rétt fyrir hrun

Fyrr í réttarhöldunum hafði komið fram að Halldór hafði selt bréf sín í Exista og Kaupþingi nokkrum dögum fyrir hrun og sagði Hreiðar Már að hann hafi hagnast um 5 milljónir á því og sakaði hann um innherjasvik. Spurði verjandi Hreiðars Halldór hvort sérstakur saksóknari hafi eitthvað spurt hann um þessi viðskipti og varð Halldór nokkuð æstur við þá spurningu. Sagði hann að ekkert hefði verið spurt um þetta og að ætlaði að fara að útskýra nánar mál sitt en dómari bað hann um að svara bara spurningum verjanda.

Enn eitt dæmið um dylgjur gegn sér

Verjandi sagði svo að í ljósi stöðu hans í málinu væri furðulegt að hann hafi aðeins verið grunaður í stuttan tíma en svo strax fengið stöðu vitnis. Spurði hann hvort Halldór hefði fengið vilyrði frá saksóknara um að vera ekki saksóttur. Aftur varð Halldór reiður verjanda fyrir spurninguna og sagði að aldrei hefði komið til slíks. Þá hefði saksóknari meðal annars sagt að engir samningar hefðu verið gerðir við sig. Sagði hann þetta „enn eitt dæmið um þær dylgjur“ sem hann hafi þurft að sitja undir vegna málsins af hálfu ákærðu og verjenda þeirra.

Ljóst er að Halldór var í miðju málsins og að ef dómurinn telur vitnisburð hans trúverðugan þá geti hann skipt miklu máli varðandi niðurstöðu málsins Að sama skapi hafa verjendur reynt að gera lítið úr trúverðugleika hans, enda stangast framburður Magnúsar og Hreiðars algjörlega á við það sem Halldór segir. Í vitnaleiðslunni í dag kom þó fram að Halldór hafi ekki haft neina vitneskju um aðkomu Sigurðar Einarssonar, fyrrum stjórnarformanns bankans, að málinu og skiptir framburður hans því væntanlega minna máli fyrir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert