HÍ sækir um bætur vegna Sæmundar

Sæmundur fróði að sökkva.
Sæmundur fróði að sökkva. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Miklar líkur eru á því að fjármála- og efnahagsráðuneytið muni bæta Háskóla Íslands það milljónatjón sem hann varð fyrir þegar báturinn Sæmundur fróði sökk í gömlu höfninni í Reykjavík í óveðrinu á mánudag.

Hægt er að sækja í ákveðinn tjónabótalið á fjárlögunum ef óhapp sem þetta gerist en málið er í frumskoðun í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í samráði við Háskóla Íslands.

Má aðeins kaupa skyldutryggingu

Samkvæmt reglum Alþingis frá árinu 1998 um kaup ríkisins á vátryggingum skulu ríkisstofnanir að jafnaði ekki kaupa aðrar tryggingar en skyldutryggingar. Þegar tjón verður á eignum stofnana þarf að sækja um tjónabætur til ráðuneytanna.

Samkvæmt upplýsingum frá Jenný Báru Jensdóttur, fjármálastjóra Háskóla Íslands, sendir skólinn eins og reglur gera ráð fyrir formlegt erindi til menntamálaráðuneytisins þar sem óskað er eftir því að fá tjónið bætt. Ráðuneytið áframsendir málið svo til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sem í flestum tilfellum bætir tjónið. 

Sæmundur hét áður Gréta

Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Suðurnesjum fékk bátinn, sem hét Gréta, að gjöf í lok tíunda áratugarins til að nota við kennslu  og rannsóknarstörf. Að sögn Halldórs Pálmars Halldórssonar, forstöðumanns Rannsóknarseturs HÍ á Suðurnesjum og umsjónarmanns Sæmundar fróða, stóð til að úrelda hann vegna þess að fækka átti fiskibátum og því ákvað eigandi bátsins að gefa háskólanum hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert