Siv fékk tæpar 20 milljónir

Siv Friðleifsdóttir.
Siv Friðleifsdóttir. mbl.is/Ómar Óskarsson

Velferðarráðuneytið hefur greitt samtals rúmar 19,6 milljónir króna til Sivjar Friðleifsdóttur, fyrrverandi þingmanns Framsóknarflokksins og heilbrigðisráðherra, í ráðgjafar-, sérfræði- og kynningarstörf á tímabilinu frá byrjun síðasta árs.

Þetta kemur meðal annars fram í svari Eyglóar Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra við skriflegri fyrirspurn frá Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Greiðslurnar, sem falla undir þann hluta velferðarráðuneytisins sem heyrir undir Eygló, hafa verið vegna aðstoðar í tengslum við norrænt samstarf, formennsku Íslands í norrænu ráðherranefndinni og vinnu í velferðarvaktinni samkvæmt svarinu.

Siv var þingmaður Framsóknarflokksins frá 1995-2013 og umhverfisráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda 1999–2004 og heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 2006–2007. Eygló skipaði Siv formann velferðarvaktarinnar í júní á síðasta ári en velferðarvaktin var sett á laggirnar árið 2009 í tíð síðustu ríkisstjórnar.

Frétt mbl.is: Hundruð milljóna í ráðgjafarstörf

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert