„Ætla að halda áfram með líf mitt“

„Það er mikið spennufall og mikill léttir,“ sagði Ásta Kristín Andrésdóttir, en hún var í dag sýknuð í Héraðsdómi Reykjavíkur af ákæru um manndráp af gáleysi. „Ég ætla að halda áfram með líf mitt og byrja að baka fyrir jólin, kannski bara,“ sagði hún ennfremur í samtali við mbl.is.

„Ég hef fengið mikinn stuðning, er með mikið og gott bakland,“ segir hún aðspurð um þann fjölda sem hefur stutt hana í gegnum málið. 

Spurð hvort niðurstaðan hefði komið henni á óvart segir Ásta: „Þetta kom mér ekki á óvart en ég gat ekki treyst neinu. Ég er búin að fara í gegnum þrjú ár þar sem ég hef treyst því að þetta verði leiðrétt. Þetta var aldrei leiðrétt fyrr en þetta kom hingað [í héraðsdóm].“

Ásta var ákærð fyrir mann­dráp af gá­leysi eft­ir að sjúk­ling­ur í hennar um­sjón lést á gjörgæslu­deild Land­spít­al­ans síðla árs 2012 var í dag. Hún var hins vegar sýknuð af ákæru í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun og Landspítalinn sömuleiðis.

Saksóknari fór fram á að Ásta Krist­ín Andrés­dótt­ir yrði dæmd í fjög­urra til sex mánaða skilorðsbundið fang­elsi og til að greiða sakarkostnað upp á 1,2 millj­ónir króna.

Ásta neitaði sök og kvaðst ekki muna hvort henni hefði láðst að tæma loft úr kraga barkaraufarrennu þegar hún tók sjúklinginn úr öndunarvél og setti talventil á barkaraufarrennuna hinn 3. október 2012.

Dómurinn afdráttarlaus

Þrír dómarar dæmdu í málinu. Í niðurstöðu dómsins segir orðrétt að það sé „ósannað, gegn neitun ákærðu Ástu Kristínar, að henni hafi láðst að tæma loft úr kraganum greint sinn“. Þá segir ennfremur að það sé ósannað að andlát sjúklingsins verði rakið til þess.

Þá segir: „Samkvæmt öllu því sem nú hefur verið rakið er ósannað að ákærða Ásta Kristín hafi gerst sek um háttsemina sem í ákæru greinir með afleiðingum sem þar er lýst. Er hún því sýknuð af öllum kröfum ákæruvaldsins.“ 

Þessi niðurstaða leiddi einnig til þess að Landspítalinn var einnig sýknaður í málinu

Dómssalurinn var þéttsetinn og fjölmargir hjúkrunarfræðingar mættu til að fylgjast með uppkvaðningu dómsins. Fagnaðarlæti brutust út er dómsorðin voru lesin og mikið klappað.

Öllum bótakröfum var jafnframt vísað frá dómi. Það skal allur sakarkostnaður greiðast úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun og réttargæsluþóknun, samtals tæpar 7 milljónir króna.

Fjölmenni var samankomið í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Fjölmenni var samankomið í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. mbl.is/Jón Pétur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert