Ætluðu til Spánar en enduðu á Íslandi

mbl.is/Kristinn

Hæstiréttur hefur staðfest farbann yfir hollenskri konu sem var ásamt manni sínum handtekin við komuna til landsins með Norrrænu í september. Í húsbíl þeirra fannst gríðarlegt magn fíkniefna en parið hafði sagt við ættingja að þau ætluðu til Spánar í frí. Ekki var minnst á Ísland.

Konunni er gert að sæta farbanni til 30. desember en hún sagt í gæsluvarðhaldi frá 9. september til 13. október. Hún hefur verið í farbanni síðan þá en maðurinn situr í gæsluvarðhaldi.

Í húsbíl þeirra fundust tæplega 210 þúsund MDMA töflur, rúmlega 10 kg. af MDMA mulningi og 34,55 g af amfetamíni, ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni.

Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að með hliðsjón af því sem rannsókn hafi leitt í ljós sé konan grunuð um brot sem varði allt að 12 ára fangelsi. Hún sé hollenskur ríkisborgari og hafi engin tengsl við landið. Sé þannig mikil hætta á því að hún muni koma sér undan málsókn verði ekki fallist á farbann yfir henni.

Gefin hefur verið út ákæra á hendur konunni þar sem henni er gefið að sök stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa ásamt manninum staðið á innflutningi á miklu magni fíkniefna til landsins. Gögn málsins styrkja grun um að aðild hennar að innflutningum.

Fram hefur komið að 8. september sl. hafi parið komið með Norrænu til Seyðisfjarðar.  Þau hafi verið á húsbíl og hafi maðurinn ekið bifreiðinni af ferjunni. Ákveðið hafi verið að leita í bifreiðinni og hafi töluvert magn fíkniefna fundist við þá leit.

Ákæra gefin út 1. desember

Maðurinn hafi frá upphafi játað að hafa vitað af efnunum og sagst vera svokallað burðardýr. Hann hafi hins vegar borið að konan hafi ekki vitað af efnunum. Hún hefur neitað sök frá upphafi.

Að mati ákæruvaldsins er framburður þeirra um þátt konunnar ótrúverðugur og sé á því byggt að hún hafi tekið þátt í innflutningi fíkniefnanna. Hollenska lögreglan hafi tekið skýrslu af dóttur konunnar og nágranna hennar. Báðar beri um það að hún hafi sagt að þau væru á leið til Suður-Spánar í frí. Þá hafi ferðatilhögun verið með sérstökum hætti en fyrir liggi að ákærðu hafi ekið um 500 km af leið í upphafi ferðar og hafi konan að mati ákæruvalds ekki gefið trúverðugar skýringar á því. Loks hafi konan borið um að þau  hafi verið í miklum fjárhagserfiðleikum en ekki getað gefið skýringar á því hvernig þau gátu farið í dýrt ferðalag til Íslands.

Með ákæru ríkissaksóknara dagsettri 1. desember voru þau ákærð fyrir að hafa staðið saman að innflutningi á samtals 209.473 MDMA töflum, 10.043,93 g af MDMA mulningi og 34,55 g af amfetamíni, ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni. 

mbl.is