„Hvað gerði hann?“

Hörður Felix og Hreiðar Már í réttarsalnum.
Hörður Felix og Hreiðar Már í réttarsalnum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Allir ákærðu í Chesterfield málinu fóru fram á frávísun málsins eða sýknu og til vara minnstu hugsanlegu refsingu, en í dag lauk aðalmeðferð málsins með málflutningi verjenda. Sagði verjandi Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrum forstjóra Kaupþings, meðal annars að ákæruvaldið hefði ekkert horft til lausafjárstöðu bankans og ástæðu þess að lánað hefði verið fyrir þeim viðskiptum sem ákært er fyrir. Þá var ljóst að sýn ákæruvaldsins og verjenda á hvað séu veð og hvað sé tryggt útlán er mjög mismunandi.

Í mál­inu eru þeir Hreiðar og Sig­urður Ein­ars­son, fyrr­ver­andi stjórn­ar­formaður bank­ans, ákærðir fyr­ir stór­felld umboðssvik og fyr­ir að hafa valdið Kaupþingi „gríðarlegu og fá­heyrðu“ fjár­tóni, að því er seg­ir í ákæru. Magnús Guðmunds­son, fyrr­ver­andi for­stjóri Kaupþings í Lúx­em­borg, er einnig ákærður í mál­inu fyr­ir hlut­deild í umboðssvik­un­um.

Umboðssvik eða góð viðskiptaákvörðun?

Ákæruvaldið segir að lán sem Kaupþing veitti aflandsfélögum sem voru svo lánuð áfram til dótturfélaga til kaupa á skuldabréfum sem tengdust skuldatryggingaálagi Kaupþings (CLN viðskipti) feli þessi meintu umboðssvik í sér. Um er að ræða samtals 510 milljón evra lánveitingu frá ágúst til október 2008 og eru þau með öllu töpuð í dag.

Verjendur ákærðu sögðu aftur á móti í málflutningi sínum að lánin hefðu verið góð viðskiptaákvörðun fyrir Kaupþing og í raun hefðu þau í öllum kringumstæðum átt að skila bæði lántaka og bankanum hagnaði, nema ef Kaupþing félli. Saksóknari hefur af þeirri ástæðu sagt að á þessum tíma hafi stjórnendum bankans átt að vera ljóst að viðsjárverðir tímar væru uppi, en á móti hafa verjendur sagt að staða bankans hafi í raun verið góð fram á síðasta dag þegar bresk yfirvöld settu dótturbanka Kaupþings þar í landi í greiðslustöðvun.

Segir saksóknara ekki hafa horft á góða lausafjárstöðu

Þannig hafi lausafjárstaða bankans verið mjög góð með miklu innflæði á Edge innlánsreikninga bankans, sérstaklega í Bretlandi. Sagði verjandi Hreiðars að bankin hafi farið að ráðum Deutsche bank varðandi ráðstöfun innlánanna og meðal annars keypt mikið af eigin skuldabréfum með afföllum og seinna meir farið í CLN viðskiptin sem ákært er fyrir. Upphæðirnar væru talsverðar, en að sama skapi væru innlán á Edge reikningunum á þessum tíma um 6 milljarðar evra.

Björn Þorvalsson, saksóknari málsins.
Björn Þorvalsson, saksóknari málsins. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Fór verjandi Hreiðars, Hörður Felix Harðarson, yfir framburð fjölmargra vitna sem höfðu komið að málinu og töldu allir að um frekar áhættulítil viðskipti hafi verið að ræða og var meðal annar talað um þau sem „gulltryggðan díl.“ Áttu viðskiptin að verða til þess að lækka skuldatryggingaálag bankans, en meðal annars hafði Sigurður sagt að á þessum tíma hafi verið talið að vogunarsjóðir væru að reyna að hækka það álag á bankann með veðmálum á móti honum og rógburði um stöðu bankans.

„Hvað gerði hann?

Lánin sem um ræðir voru gerð í miklu flýti og telur ákæruvaldið að farið hafi verið fram hjá lánareglum bankans við veitingu þeirra, bæði hvað varðar að samþykki viðeigandi lánanefndar hafi vantað og að tryggingar hafi ekki verið til staðar. Vill ákæruvaldið meina að yfirmenn bankans hafi gerst sekir með því að skipuleggja og gefa fyrirmæli um útlánin. Verjendur hafa á móti bent á það að fara framhjá lánanefnd hafi verið framkvæmd lánastjóra hjá bankanum, sem á móti hefur vísað á Hreiðar.

Hörður fór ítrekað yfir að hann teldi ákæruvaldið ekki hafa sýnt fram á sekt Hreiðars. Meðal annars hafi ekki eitt einasta skjal í málinu bent til að að Hreiðar væri að taka ákvörðun um lán, ef frá er talið síðasta upphæðin, eða 50 milljónir af 510 samtals. „Hvað gerði hann? Veitti ekki lánið og gaf engin fyrirmæli til fjárstýringar um bókun,“ sagði Hörður og bætti við að hann hefði heldur ekki mátt vita hvernig lánastjórinn hélt utan um lánamálið í heild. Hefur saksóknari á móti bent á að Hreiðari hafi í krafti stöðu sinnar átt að vera ljóst hvað væri að gerast allan tímann.

Eins og fyrr segir benda verjendur á lánastjórann, sem hefur bent á Hreiðar og ákæruvaldið tekið undir með honum. Fór verjandi Hreiðars yfir fjölmarga tölvupósta í málflutningi sínum og benti meðal annars á að í eitt skipti í málinu væri ljóst að lánastjórinn hafi sent beiðni um útgreiðslu á láni til aflandsfélaganna áður en hann sendi fyrirspurn á yfirmann sinn um málið. Það benti til þess að hann hefði sjálfur tekið ákvarðanir en ekki fengið þær að ofan frá forstjóranum.

Ákærðu í málinu og lögmenn þeirra.
Ákærðu í málinu og lögmenn þeirra. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Það sem allir „venjulegir menn“ myndu gera

Til viðbótar spurði verjandi sig hvort að „venjulegir menn“ myndu ekki reyna að tryggja sig á einhvern hátt ef þeir fengju fyrirmæli um að framkvæma lánveitingar sem væru í andstöðu við lánareglur bankans. Hann hafi meðal annars getað gert það með að senda afrit af tölvupóstum um málið á Hreiðar eða skrifað í fyrirmæli sín að þetta væri samkvæmt beiðni Hreiðars. Ekkert slíkt hafi hins vegar fundist. „Er ekki ljóst að þetta væri það sem allir venjulegir menn myndu gera?“ spurði hann dómara og bætti við: Það er ekkert í þessari framsetningu Halldórs sem gengur upp,“ en lánastjórinn er Halldór Bjarkar Lúðvíksson.

Verjandi gerði í málflutningi sínum mikið úr skorti á sönnunarfærslu fyrir samskiptum Hreiðars og Halldórs og meintum fyrirmælum Hreiðars um viðskiptin og lánveitingarnar. Sagði hann að í öðrum málum saksóknara hefði verið birt yfirlit yfir símtöl úr og í síma ákærðu og það væri furðulegt að slíkt væri ekki lagt fram í þessu máli til að sýna fram á hvort samskipti hafi í raun verið á milli þeirra. Þá hefði sími Halldórs einnig verið hleraður og ætti það að vera líklegt að allavega einhver fyrirmæli hefðu heyrst við hlustun á þann síma. Svo var aftur á móti ekki.

Hluti neyðarlánsins fór í viðskiptin

Talsvert hefur verið gert úr því að síðasta lánveitingin, samtals 50 milljónir evra, hafi verið veittar daginn eftir að Seðlabanki Íslands veitti Kaupþingi neyðarlán 6. október 2008. Var neyðarlánið 500 milljónir og lánveitingin því 10% af henni. Verjandi Hreiðars sagði aftur á móti að þetta væri mjög skiljanlegt út frá viðskiptalegum sjónarmiðum. Lánveitingin væri til að mæta veðkalli Deutsche bank vegna fyrrnefndra skuldabréfa og ef það hefði ekki verið gert þýddi það orðsporshnekki fyrir Kaupþing þar sem skilaboðin væru að bankinn hefði ekki trú á sjálfum sér til viðbótar við að þær 460 milljónir sem áður hefðu verið lánaðar í CLN viðskiptin væru glataðar. Stjórnendur hefðu haft trú á því að bankinn gæti staðið af sér óveðrið og því væru þetta skynsamleg viðskipti.

Hluthafatap eða kröfuhafatap?

Bætti Hörður því við að stjórnendur bankans hafi haft skyldu gagnvart hluthöfum og stjórn bankans. Lánveitingin hafi í raun ekki verið áhættuaukandi fyrir bankann, heldur hafi hann aðeins getað grætt á viðskiptunum nema hann félli. Þannig hafi hagnaður viðskiptanna átt að fara í eignarhaldsfélög sem voru í viðskiptum við bankann og í slæmri fjárhagsstöðu. Bankinn hafi haft fullt forræði yfir félögunum og því hafi hagnaður í þau bætt útlánastöðu Kaupþings að lokum. Sagði Hörður að þeir einu sem hefðu í raun tapað á útlánunum væru kröfuhafar en ekki hluthafar. Þar með væri ekki um umboðssvik að ræða og ætti að vísa málinu frá á þeim forsendum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert