„Ég sakna þess hvernig lífið var“

Rola hefur eignast marga vini í Bekaa-dalnum í Línbaon, fjarri …
Rola hefur eignast marga vini í Bekaa-dalnum í Línbaon, fjarri heimalandi sínu, Sýrlandi. mbl.is/Dar Al Mussawir

„Ég hef það fínt, takk,“ segir Rola, tíu ára, á ágætri ensku sem hún er nýbyrjuð að læra. Þessi brosmilda stúlka situr í hópi jafnaldra og er að búa til armbönd á barnvænu svæði UNICEF er blaðamann mbl.is ber að garði. En á bak við brosið leynist sorgarsaga af stríði sem hefur haft mikil áhrif á líf hennar allt.

Hún flúði frá Sýrlandi ásamt móður sinni og eldri systkinum fyrir níu mánuðum. Húsið hennar hafði verið sprengt í loft upp og faðir hennar látist í sprengjuárás. Þrátt fyrir þessa hörmulegu lífsreynslu brosir Rola er hún segir frá lífi sínu í Líbanon, sem líkt og hjá öðrum 10 ára stúlkum snýst um vini, leik, skólann og fjölskylduna.

Margra daga afmælisveisla

„Ég er ánægðust hér,“ segir hún um barnvænt svæði UNICEF í hinum grösuga Bekaa-dal í Líbanon. Undir það taka mörg önnur börn á svæðinu. „Þegar ég er ekki hér þá aðstoða ég mömmu, geri heimavinnuna mína og leik mér. Besta vinkona min heitir Fatima. Hún á afmæli á morgun en við erum þegar byrjaðar að halda upp á það,“ segir hún og hlær dillandi hlátri. „Þegar ég verð stór langar mig að verða tónlistarmaður, píanóleikari.“

Rola á fimm systkini, þrjár systur og tvo bræður. „Ég sakna frændfólksins míns í Sýrlandi,“ segir hún. „Ég sakna þess hvernig lífið var, þegar við hittumst öll og gerðum eitthvað skemmtilegt. Fórum í sparifötin og nutum lífsins.“

Elskaði Sýrland fyrir stríð

Thuraya, móðir Rolu, er þakklát fyrir að dóttirin njóti sín á barnvæna svæðinu. En vandamálin sem fjölskyldan glímir við eru mikil, m.a. fjárhagsleg, og Thuraya er ekki bjartsýn á að finna lausn.

Eftir að hún flúði til Líbanons vann hún með Save the Children-samtökunum en svo þurfti hún að flytja sig um set í landinu og þá missti hún vinnuna. „Núna er ég atvinnulaus. Ég þurfti að fá lánaða peninga til að borga skuldir.“

Fjölskyldan býr nú í litlu tjaldi. Margir ættingjar eru enn í Sýrlandi og af þeim hefur Thuraya miklar áhyggjur.

„Ég elskaði Sýrland fyrir stríðið en við misstum allt,“ segir hún. Sárast hafi verið að missa eiginmanninn í sprengjuárás. „Núna þarf ég að reiða mig eingöngu á sjálfa mig.“

Thuraya vill ekki fara til Evrópu, hún vill frekar vera áfram í Líbanon, þar sem allt er kunnuglegt. „Þegar friður kemst á í Sýrlandi vil ég fara þangað strax aftur.“

Barnvæn svæði í Líbanon, þar sem börn fá skjól til að leika sér og fræðast, eru m.a. rekin með aðstoð 27 þúsund íslenskra heimsforeldra UNICEF. 

34 sýrlensk börn og unglingar munu koma til Íslands nú í desember og setjast hér að ásamt fjölskyldum sínum. Þau eru nú öll stödd í Líbanon, þangað sem þau flúðu undan stríðinu í Sýrlandi.

mbl.is