Eitt hús í 102 Reykjavík

Frá póstmiðstöðinni á Stórhöfða. Hún er eina bygging landsins sem …
Frá póstmiðstöðinni á Stórhöfða. Hún er eina bygging landsins sem er í póstnúmerinu 102. mbl.is/Eggert

Reykjavíkurborg vill að Vatnsmýrin fái póstnúmerið 102 Reykjavík. Fáir vita hins vegar að póstnúmerið er þegar í notkun en aðeins eitt hús er innan þess, póstmiðstöð Póstsins við Stórhöfða 32 í Reykjavík. Vel er hægt að breyta því en engin formleg beiðni hefur borist póstnúmeranefnd um það ennþá. 

Tillaga borgarstjóra um að skipta póstnúmerinu 101 í tvennt þannig að Vatnsmýrin fái númerið 102 var samþykkt í borgarráði í gær. Vísað var til bréfs sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs um að í ljósi umfangs póstnúmers 101, landfræðilega og m.t.t. til byggingarmagns og uppbyggingar framundan, sé tímabært að skipta póstnúmerinu upp í tvennt. Lagt er til að sá hluti póstnúmers 101 sem er sunnan Hringbrautar breytist í póstnúmerið 102 en að mörk við póstnúmer 107 og 105 haldist óbreytt.

„Það er verið að nota póstnúmer 102 eins og staðan er í dag. Við skoðum allar formlegar beiðnir sem koma til okkar en það hefur engin formleg beiðni borist til póstnúmeranefndar ennþá vegna þessa máls,“ segir Brynjar Smári Rúnarsson, forstöðumaður markaðsmála hjá Póstinum.

Gömul hefð er fyrir því að póstmiðstöðin sé í póstnúmeri 102. Hana má rekja til þess tíma þegar póstnúmerakerfinu var komið á fót. Þá var póstnúmerinu úthlutað á millialandapóstmiðstöðina í Pósthússtræti og hefur það haldið sér eftir að hún var flutt.

Einnig er númerið notað til að halda utan um Íslendinga búsetta erlendis í póstfangagrunni Póstsins. Þá er fólk skráð í póstnúmerið 102 ásamt landinu sem það býr í.

Brynjar Smári segir að alveg sé hægt að breyta þessu og engin sérstök þörf sé til að halda númerinu 102 fyrir póstmiðstöðina. Engin beiðni um það hafi þó enn komið fram.

Fyrri frétt mbl.is: Vilja 102 Reykjavík

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert